Er þetta bara allt í lagi?

Kristín Gunnarsdóttir

Síðastliðið fimmtudagskvöld 15. febrúar fór rafmagnið af Lundarreykjadal um klukkan 18 en kom aftur langt gengin í kl. 19 og lafði í rúman klukkutíma, sem slapp til að mjólka þær kvöldmjaltirnar en tæpast til að kæla mjólkina. Um kl. 20 fór rafmagnið aftur af og kom ekki fyrr en kl. 18 daginn eftir.

Þar sem svona hlutir þykja lítið fréttnæmir úti í sveit voru litlar fréttir af þessu að hafa. Þeir voru heppnir sem voru með gas til eldamennsku og áttu batterís útvarp þó þar væri fátt að frétta af þessu ástandi. Morguninn eftir voru börnin klædd við vasaljós og ýtt upp í skólabílinn sem svamlaði í drullunni á veginum og fáar fréttir um hvort ætti að kenna þeim við kertaljós eða hvað?

Þeir sem fóru til annarrar vinnu vissu ekki hvort á þeirra vinnustað væri rafmagn eða ekki. Símasamband var ekkert því varaafl á sendum Mílu var búið.

Eftir að hafa ekið niður úr dalnum til að athuga með samband við umheiminn varð fljótlega ljóst að útvega þyrfti rafstöð til að hægt væri að mjólka kýrnar sem voru orðnar málþola. Til þess að finna út úr því varð að aka aftur niður dalinn svo hægt væri að hringja í vin.

Þá var að kvisast að starfsmenn Borgarbyggðar hefðu áhyggjur af kúabændum og þar með að búið sé að mjólka á Lundi (sem var víðs fjarri sannleikanum). Um svipað leyti fór bóndinn á Lundi á dráttarvél að Hvanneyri til að sækja rafstöð en vert er líka að taka fram að það stóðu fleiri rafstöðvar til boða en þar sem sambandslaust var við dalinn var ekki hægt að láta vita af því. Mjaltir hófust um kl. 14.30 þegar rafvirkinn var búinn að tengja stöðina sem sótt var.

Björgunarsveitin Ok hafði veður af þessu og brást mjög vel við og fór á milli bæja og athugaði hvort ekki væri allt í lagi og lét vita af sendum á ákveðnum bæjum. Einnig buðust björgunarsveitarfélagar til að flytja varaaflstöð að sendinum á Þverfelli sem Míla þáði ekki því æðri yfirmenn sæju ekki ástæðu til þess.

Því spyr ég er bara; er allt í lagi að Lundarreykjadalurinn sé sambandslaus við umheiminn heilan dag? Er líka allt í lagi að henda í jörð þriggja fasa rafmagni sl. sumar en kapalendarnir standa enn upp úr jörðinni ótengdir? Lengi vel stóð til að tengja um áramótin en svörin sem koma núna eru: Bara einhvern tímann!

En rafmagn og fjarskipti eru ekki einu innviðirnir sem eru í ólagi hér í dalnum.

Er líka bara allt í lagi að bjóða Lunddælingum upp á næstum ófæran veg vegna aðgerða Vegagerðarinnar síðastliðið sumar. Þennan veg fara skólabílar með börn, fólk sem sækir vinnu utan heimilis, ferðamenn sem eru á leið að gististöðum í dalnum og skelfingu lostið fólk sem dettur í hug að heimsækja mann.

 

Kveðja,

Kristín Gunnarsdóttir Lundi II