Er stóriðjan ekki lengur velkomin?

Bergþór Ólason

Á sama tíma og formaður Framsóknarflokksins kallar atvinna, atvinna, atvinna, við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins virðast ekki þreytast á að tala um mikilvægi þess að auka verðmætasköpun, þá blasir við að ekki fer saman hljóð og mynd.

Það er með ólíkindum að verða vitin að því að tvö af þremur álverum landsins virðast ekki ná forsvaranlegu talsambandi við Landsvirkjun. Hjá Norðuráli á Grundartanga fer 14 milljarða framkvæmd ekki af stað og í Straumsvík velta eigendur því fyrir sér að kalla þetta gott og pakka saman.

Þegar sótt er að handhafa hlutabréfsins, fjármálaráðherra, eru svörin alla jafnan á þann veg að gæta verði armslengdarsjónarmiða hvað samskipti hluthafans og stjórnar Landsvirkjunar varðar.  Við þetta er tvennt að athuga; í fyrsta lagi þá skipar ráðherra stjórnina og stjórnarformaðurinn er fulltrúi hans.  Í öðru lagi þá væri hægur leikur að setja sérstaka eigendastefnu fyrir Landsvirkjun, en láta þetta sérstaka fyrirtæki, sem er í yfirburðarstöðu á íslenskum orkumarkaði, ekki falla undir hina almennu eigendastefnu ríkisins. Hin almenna eigendastefna sem segir fátt annað en að félög í eigu hins opinbera eigi að fara að lögum og að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir.

Það er kominn tími til að við spyrjum okkur hvort orkusækinn iðnaður sé óvelkominn?  Hvort ætlunin sé að losa landið við þau fyrirtæki sem falla undir þá skilgreiningu, eitt af öðru. Það er grafalvarleg staða að á sama tíma og ferðaþjónustan, ein af meginstoðum efnahagslífsins berst fyrir tilveru sinni, þá sé sú stoð sem snýr að orkufrekum iðnaði hanteruð eins og hún sé óvelkomin.  Á sama tíma og nýsköpun er mikilvæg til framtíðar, þá verðum við að verja og tryggja þær stoðir sem fyrir eru.

Við í Miðflokknum köllum eftir því að sjálfstæð eigendastefna verði samþykkt fyrri Landsvirkjun, þar sem horft verður á mikilvægi þess fyrirtækis í víðum skilningi og þau áhrif sem yfirburðarstaða þess hefur á orkumarkaði og um leið á atvinnuuppbyggingu um land allt. Við sem eigum sæti á Alþingi buðum okkur fram til að hafa áhrif, til að stjórna.  Við megum ekki skýla okkur á bak við armslengdarsjónarmið á stundum sem þessum, við eigum og við verðum að þora að hafa skoðun og við verðum að þora að stjórna.

Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu um þessi mál á Alþingi og reikna með að hún komist á dagskrá fljótt og vel, enda er mikið undir.

 

Bergþór Ólason

Höf. er alþingismaður fyrir Miðflokkinn í NV kjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar