Er skynsamlegt að hætta urðun sorps?
Kristinn og Magnús B.
Nýlega var sett af stað áskorun á vegum Samskipa og Íslenska gámafélagsins þar sem skorað er á stjórnvöld að hætta urðun og er almenningur hvattur til að skrifa undir þá áskorun. Undirliggjandi þessari áskorun er að Íslenska gámafélagið og Samskip vilja bjóða íslenskri þjóð að þessi félög taki að sér þá endanlegu lausn á úrgangsmálum, sem er að flytja allan óflokkaðan úrgang úr landi til brennslu og raforkuframleiðslu á meginlandi Evrópu.
Þótt margt væri rætt um þriðja orkupakkann þá kom ekki fram að íslenskt sorp væri hlutmengi í orkuöflun annarra Evrópuríkja. Hvað sem því líður hlýtur að vakna sú spurning, hvort lausn þessara tveggja fyrirtækja er endanleg og hvort bann við urðun sé sú lausn sem íslensk þjóð sættir sig við eða er yfirleitt tilbúin að greiða þann viðbótarkostnað sem af því leiðir. Á þessu kunna að vera nokkrar hliðar sem er eðlilegt fara yfir og ræða hvaða áhrif þær hafi.
Í þessu samhengi er rétt að skoða fleira en slagorðin ein og leita frekar svara við nokkrum spurningum:
- Er umhverfislegur ávinningur til staðar?
- Er urðun úrgangs í öllum tilfellum óásættanleg lausn og kann að vera að hún sé í einhverjum tilfellum eina leiðin sem við höfum?
- Er sá kostnaður sem leggst á almenning og fyrirtæki ásættanlegur?
- Verður samfélagsleg sátt um þá lausn að flytja allt sorp til annarra þjóða, að teknu tilliti til umhverfislegra og fjárhagslegra þátta fyrir okkur sem þjóð, sem einstaklinga og fyrir atvinnurekstur í landinu?
Minni neysla – breyttar neysluvenjur
Það er í upphafi gott að rifja það upp að við getum minnkað viðfangið „úrgangur til förgunar“ því það er hafið yfir allan vafa að við getum dregið stórkostlega úr sorpeyðingu og þar með urðun á sorpi á Íslandi. Til þess eru margar leiðir og nauðsynlegt að skoða allar hliðar málsins og vega og meta kosti og galla þeirra lausna sem bjóðast.
Fyrsta staðreyndin sem blasir við er að undanfarin ár hefur fallið til sífellt meira sorp frá almenningi og fyrirtækjum á Íslandi og við þurfum að finna leiðir til að koma því fyrir á einhvern hátt. Því vaknar auðvitað spurningin hvort og hvernig við getum dregið úr því magni sem fellur til með minni neyslu og/eða breyttum neysluvenjum. Það er klárlega bæði umhverfislega og fjárhagslega hagkvæmasta leiðin fyrir heimili og fyrirtæki í landinu. Við getum öll gert betur í þessum efnum, lagt okkur meira fram og vandað betur val á vöru og þjónustu.
Krafa á stjórnvöld ætti í þessu tilliti að vera að lögð verði hærri innflutningsgjöld á óendurvinnanlega vöruflokka og að banna alfarið innflutning á óendurvinnanlegum umbúðum, svo sem svörtu plasti. Þá mætti einnig hvetja þá aðila sem flytja vörur til landsins að finna leiðir til að minnka umbúðir sem koma með vörunni frá erlendum birgjum og við getum hvatt innlenda aðila til að gera slíkt hið sama. Þannig minnkar strax verkefnið sem við þurfum að leysa.
Skilagjöld virka
Endurvinnsla er önnur leið til minnkunar úrgangs til förgunar. Skilagjaldið er eitt öflugasta vopnið til að hvetja okkur til að skila umbúðum inn til endurvinnslu. Það er góð reynsla af skilagjöldum af drykkjarumbúðum þar sem um 85% af þeim koma til endurvinnslunnar. Það er því ástæða til að nota þessa reynslu og setja skilagjöld á fleiri umbúðir/vörur þannig að fjárhagslegur ávinningur sé til þess að flokka enn fleiri vörutegundir frá og koma þeim síðan í endurvinnslu í stað þess að þær fari til förgunar.
Í stað þess að halda því fram að ein lausn á sorpeyðingu sé ónothæf og setja fram aðra lausn, lítt ígrundaða og alls óreynda, væri réttara að beina frekar sjónum sínum að þeirri meginstefnu, sem mótuð hefur verið síðustu árin, að líta beri á allt efni sem auðlindir sem nauðsynlegt sé að nýta sem best. Í samræmi við það væri því rétt að líta á úrgangsmál sem málaflokk sem væri að þróast frá því að snúast um lausnir á úrgangsvanda yfir í umræðu um bætta auðlindanýtingu.
Til að ná árangri í minnkun úrgangs þarf að stórauka kynningu til almennings og fyrirtækja á flokkun úrgangs. Það er ekki nóg að koma með kynningu í upphafi verkefnis, heldur þarf að viðhalda upplýsingum og hvatningu um flokkun, endurnýtingu og endurnot. Við getum flest gert betur í þeim málum, jafnvel þótt við höfum verið virk í flokkun og endurvinnslutunnan okkar sé full á sama tíma og tunnan fyrir almenna sorpið er ekki hálf.
Hvað er slæmt við urðun?
Er urðun úrgangs í öllum tilfellum óásættanleg lausn eða kann að vera að hún sé í einhverjum tilfellum eina leiðin sem við höfum? Til að leggja mat á neikvæðar hliðar urðunar þurfum við að skoða hvað sé slæmt við að urða sorp.
Í fyrsta lagi er gasmyndun í landfyllingum eða urðunarhólfum neikvæður þáttur því lífrænn úrgangur gefur frá sér metangas við rotnun. Það gas sem sleppur út í andrúmsloftið hefur síðan neikvæð loftslagsáhrif og full ástæða til að huga að þeim þætti. Úrgangur er talinn valda um 6% losunar Íslands í loftslagsbókhaldi (skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ, febrúar 2017).
Til að takast á við þennan þátt hafa urðunarfyrirtækin safnað gasinu og brennt það eða nýtt. Þekking á gassöfnun hefur farið vaxandi og tækni til að safna gasi og nýta það sömuleiðis, þótt enn sé víða einungis verið að eyða því til að hamla hinum neikvæðu áhrifum. Vissulega hefur ekki tekist að beisla allt gas en nýlegar rannsóknir sýna að draga megi verulega úr losun hauggass með heilum yfirborðslögum svokölluðum „biofilterum“ á yfirborði urðunarstaða. Það má því leiða líkum að því að oxun metans með yfirborðslögum, ásamt gassöfnunarkerfum, muni verða til þess að gasmengun frá urðunarstöðum verði tiltölulega lítil eða óveruleg. Auk þess mun minnkun og í framtíðinni bann við urðun á lífrænum úrgangi draga úr myndun hauggass.
Minnt skal á að flutningur á úrgangi með skipum á milli landa er ekki án loftslagsmengunar því enn ganga skipin fyrir dísel- eða svartolíu sem skilja eftir sig spor í loftslaginu. Ekki skal lagt mat á hvernig kolefnissporið er af brennslunni sjálfri en rétt að muna að lofthjúpurinn er sameiginlegur öllum lífverum jarðar og því ekki hægt að horfa á tilfærslu milli landa sem beinan ávinning í þeim efnum. Þótt það geti verið ágætt fyrir loftslagsbókhald Íslands, sem stefnir að því að minnka nettólosun um 40% árið 2030 miðað við 1990, þá þarf öll hugsun í þessum efnum að vera hnattræn.
Í öðru lagi er það neikvæður þáttur í rekstri urðunarstaða að frá þeim stafar oft sjón- og lyktarmengun. Sífellt er leitast við að hamla lyktarmengun með yfirlagsefnum og fok af urðunarstöðum hefur sannarlega farið minnkandi með fækkun urðunarstaða, betra verklagi og fokgirðingum. Með betri flokkun á því sorpi sem kemur til urðunar væri hægt að draga enn úr þeim möguleika að það fjúki.
Í þriðja lagi er horft til þess lands sem fer undir urðun og þótt nægt landrými sé á Íslandi er það vissulega eðlilegt að okkur sé sárt um hvernig það er nýtt. Um það skal ekki deilt að með urðun á ákveðnum svæðum er land tekið til nota sem takmarkar aðra framtíðarnýtingu. Það hamlar hins vegar ekki öllum notum af viðkomandi landssvæði. Sumsstaðar verður hægt að breyta landinu í skógræktarsvæði þegar urðun er lokið en á öðrum stöðum henta aðrar gróðurlausnir. Þannig endurheimtist nýting á svæðinu, svo ekki sé talað um þá jákvæðu þætti sem skógurinn hefði fyrir okkur til framtíðar.
Rétt er að halda því einnig til haga að á urðunarstöðum er gerð krafa um botnþéttingu þannig að ekki sé hætta á að sigvatn leki út í grunnvatn í heldur er því veitt inn í hreinsivirki sem eru undir stöðugu eftirliti.
Bann væri íþyngjandi aðgerð
Urðun úrgangs er ekki besti og fjarri því eini kosturinn í afsetningu þess úrgangs sem neyslusamfélag manna framleiðir. Hún er hins vegar ekki eins slæm lausn og oft er látið í veðri vaka og í sumum tilfellum eina leiðin sem við höfum til að farga og koma varanlega fyrir þeim úrgangi sem við sitjum uppi með. Að banna urðun alfarið hlýtur því að vera mjög íþyngjandi aðgerð fyrir bæði einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki í landinu. Við erum enn með ýmislegt sem við getum ekki losnað við nema með urðun eða hliðstæðum leiðum. Það er enn til óendurvinnanlegur og óbrennanlegur úrgangur sem þarf að farga. Sem dæmi má nefna seyru frá skólpstöðvum og ýmiskonar óvirkan úrgang eins og steypubrot og gler, svo eitthvað sé nefnt. Það verður ekki flutt til brennslu hjá öðrum þjóðum. Útflutningur getur því ekki verið altæk og endanleg lausn fyrir sorpförgun á Íslandi.
Því mun fylgja auknar álögur
Er kostnaður sem leggst á almenning og fyrirtæki ásættanlegur?Kostnaður við útflutning er rekstrarlega umtalsvert meiri en við urðun en umhverfisráðherra hefur boðað að hann hyggist blanda sér í samkeppnisforsendur þessara tveggja leiða með skattlagningu á urðunarkostinn. Kostnaður mun því aukast og hann getur hvergi lent nema hjá almenningi og fyrirtækjum í landinu. Lífskjarasamningurinn hefur trúlega ekki gert ráð fyrir þeim álögum sem óhjákvæmilega lenda hjá launþegum við þær breytingar. Sveitarfélögum hlýtur að vera nauðugur einn kostur að stórhækka sorpeyðingagjöld til að bregðast við og fyrirtæki hafa væntanlega ekki aðrar leiðir en að velta nýjum kostnaðarliðum út í verðlag vöru og þjónustu.
Ekki klæða sig í dulargervi!
Það er svo áleitin spurning hvort áskorun Samskipa og Íslenska Gámafélagsins er ekki frekar hagnaðardrifin en sprottin af hreinum áhuga á umhverfislausnum þar sem þessi félög hyggjast taka að sér að flytja allt sorp úr landi og auka umsvif sín verulega á þeim forsendum. Það er auðvitað ekkert að hagnaðardrifnum áhuga en alltaf best að hafa hann án dulargervis.
Skilagjöld
Þá komum við að væntanlegum skatti sem boðað er að verði settur á allt sorp sem fer til urðunar. Er hann skynsamleg leið til að draga úr urðun? Svarið við því er bæði já og nei. Það væri hægt að fara skynsamlegri leiðir til að ná þeim markmiðum sem urðunarskattinum er ætlað að ná. Það er hægt að minnka það sem fer til urðunar með því til dæmis að setja skilagjald á þá vöruflokka sem við viljum ekki að fari til urðunar. Eitt kíló af sorpi sem fer til urðunar er ekkert betra í jörðu komið þó það sé með urðunarskatti. Það er enginn umhverfisbati af því.
Það hefur heldur ekki verið sett fram nein skýring á því í hvað á að nota skattinn. Á að nýta hann til fræðslu, á að nýta hann til að draga úr neyslu eða til einhvers allt annars? Enn og aftur, við skulum byrja á toppnum en ekki á endanum. Minnkum það sem við þurfum að lokum að urða með fræðslu og betri lausnum.
Eigum ódýrari orku
Þegar rætt er um urðunarskatt er oft bent á þá staðreynd að það er verið að setja urðunarskatta á erlendis og er það rétt. Ástæðan fyrir því er sú að víðast hvar er búið að byggja stórar brennslustöðvar sem þurfa mikið hráefni til að geta rekið sig á hagkvæman hátt og því skiptir miklu að allt það sorp sem fellur til á viðkomandi svæði komi til brennslu svo að reksturinn verði eins hagkvæmur og kostur er. Hin hliðin á málinu er sú staðreynd að víða er mikill orkuskortur og því tilvalið að brenna ruslið til að fá orkugjafa, hita og rafmagn fyrir nærliggjandi byggð og því eru brennslustöðvarnar oftar en ekki inn í miðjum íbúðahverfum. Hins vegar háttar þannig til á Íslandi að við eigum mikið af vistvænni orku (jarðvarmi og rafmagn) sem er margfalt ódýrari en sú orka sem kemur úr brennslustöðvum. Það er því ekki skynsamlegt að setja urðunarskatt á allt sem kemur til urðunar út frá þeirri staðreynd að það muni alltaf þurfa að urða eitthvað og því afar óeðlilegt að ofurskattleggja þann úrgang sem óhjákvæmilegt og skynsamlegt er að urða á hverjum tíma.
Finnum góðar lausnir
Að fara vel með það sem við eigum skiptir máli hjá flestum og gildir það sama með þá fjármuni sem við þurfum að nota til að koma sorpinu okkar fyrir. Við þurfum á hverjum tíma að hugsa um það hvernig við fáum bestu umhverfislausnina, sem jafnframt kostar sem minnstu fjármunina. Þetta er oft viðkvæmt að nefna, þ.e. peninga og umhverfislausnir, en þeir sem þurfa að greiða kostnaðinn finna fyrir fjárhagslegu hliðinni og það er, þegar upp er staðið, almenningur í landinu.
Því er eðlilegt að gerð sé sú krafa að vandað sé til fjárhagshliðar málsins og hugað að þeirri hlið um leið og við gerum kröfu um að þær lausnir sem við veljum séu ásættanlegar út frá umhverfissjónarmiði. Verum skynsöm hvað þetta varðar og finnum góðar og hagkvæmar lausnir. Því er kannski vandsvarað hvort aukinn kostnaður vegna annars vegar útflutnings og hins vegar skattlagningar verði ásættanlegur. Einhverjum kann að finnst hann nauðsynlegur fórnarkostnaður til að ná einhverjum árangri, öðrum mun þykja hann beinlínis fáránlegur. Svo er spurning hvort hár kostnaður leiðir af sér óæskilegar svartar lausnir þar sem hitt og þetta fer í auknum mæli að finnast í skurðum og gjótum.
Er skynsamlegt að hætta urðun?
Það hlýtur að skipta okkur öll máli og vera ábyrg afstaða að við sem þjóð tökum sjálf ábyrgð á því sem fellur til við okkar neyslu og séum sjálfbær í þeim skilningi að við höfum lausnir sem ekki eru ofurseldar erlendum viðskiptasveiflum og pólitískum ákvörðunum. Hér á landi þurfa því að vera/verða til leiðir til að meðhöndla það sorp sem til fellur. Reikna má með að innan fárra ára muni margar þjóðir setja skorður við því að tekið sé við sorpi frá öðrum nema með sérstökum skilyrðum. Við sáum afleiðingarnar af því þegar Kínverjar hættu að taka við plasti svo eitt dæmi sé nefnt.
Til að setja þessa umræðu í meira samhengi hingað heim, þá getum við spurt okkur sjálf að því hvort við Íslendingar værum tilbúnir til að taka við sorpi frá öðrum löndum. Án þess að fullyrða neitt um svör við þeirri spurningu er næsta víst að svarið við henni yrði eitt stórt nei. Það má svo ekki gleymast að það er á ábyrgð sveitarfélaga að sjá til þess að til séu lausnir til förgunar úrgangs. Þá ábyrgð er ekki hægt að framselja eða færa til einkafyrirtækja.
Umræða um urðun og brennslu erlendis hefur sannarlega ýtt hressilega undir umræðu um neysluna og þau umhverfisáhrif sem hún hefur. Þar hefur urðunin verið dæmd án mikillar þekkingar á þeirri meðhöndlun en á sama tíma hefur orðið ánægjuleg þróun í átt til aukinnar flokkunar og endurvinnslu. Vonandi leiðir umræðan til minni neyslu og betri meðferðar á því efni sem neyslusamfélagið nýtir og hefur síðan fleygt án mikillar umhugsunar.
Leitum skynsamlegustu leiðanna
Í fyrirsögn þessa greinarkorns er sett fram spurningin: „Er skynsamlegt að hætta urðun sorps?“ Svarið við þeirri spurningu er alfarið neitandi. Ekki að svo komnu máli. Leggjum okkur frekar fram um að draga úr urðun úrgangs með margvíslegum leiðum, finnum bestun á allt það sem fellur til, flokkum það sem við getum flokkað frá, endurnýtum það sem hægt er að endurnýta og urðum það sem skynsamlegt er að urða. En stefnum að því að urðun verði sem minnst og helst alveg óþörf í framtíðinni. Breytum síðan urðunarstöðum í skógræktarreiti sem hjálpa okkur með kolefnissporið mannkyninu til heilla.
Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ. Höf. er formaður stjórnar Sorpurðunar Vesturlands.
Magnús B. Jónsson, formaður stjórnar Norðurár bs.