Er rétt að fella dauðadóm yfir hrútlömbum sem koma í líflambaskoðun?

Jón Viðar Jónmundsson

Heiti þessa pistils kann að vekja furðu þína, lesandi góður. Nennir þú að lesa áfram langar mig að ræða við þig og mögulega fleiri lesendur líflambadóma á hrútlömbum, sem unnir eru á vegum RML.

Ástæðan er sú að ég tel mig hafa á samviskunni að hafa vísað of mörgum góðum hrútlömbum í sláturhús þar sem ég að einum eða tveimur dögum liðnum sá hluta lambsins hangandi sem E-flokks skrokk á rá í næsta sláturhúsi. Einhverjir segja ef til vill að full seint sé í rassinn gripið.

Ég get alveg sagt frá því núna að meðan ég starfaði að lambadómum hvarflaði einstaka sinnum að mér að mögulega værum við ekki að beita réttum vinnubrögðum. Í örfá skipti vék ég að hugmyndum að breytingum við samstarfsmenn við mjög litlar undirtektir. Grunur minn er að þar hafi ráðið nokkru það ægivald sem Sigurður Sigurðarson dýralæknir hafði á vandamálinu; „að vera eða ekki vera“ fyrir væntanlega stöðvahrúta fyrir sæðingastöðvarnar sem mér eða samstarfsmönnum hafði dottið í hug að láta hann skoða með stöðvalíf í huga. Þetta væri því ekki til umræðu.

Nú erum við Sigurður báðir orðnir ellibelgir sem engu ráðum lengur í þessum málum og því tímabært að vekja upp umræðu um þessi mál í þeirri von að menn séu orðnir aðeins víðsýnni en við vorum.

Það sem olli því að ég fór að hugleiða þessa hluti aftur var að ég fór á Netinu að glugga eftir því hver vinnubrögð Norðmanna í þessum efnum væru. Stundum detta þeir ofaná vinnubrögð sem mér sýnist að ekki skaði okkur Íslendinga að íhuga.

Snúum okkur þá beint að efninu. Hér ætla ég að biðja menn að huga að því að hvort breyta ætti stigum lambhrúta í tveimur atriðum. Þar á ég við það sem skoðað er sem hreinn dauðadómur við stigum. Annað er skakkt bit lambhrútanna sem þeir fá dauðadóm fyrir muni ég rétt í stigum fyrir haus. Hitt eru eineistungar sem muni ég rétt fá slíka meðferð í stigum fyrir samræmi.

Rétt er í byrjun að taka fram að báðir þessir eiginleikar munu vera órannsakaðir með öllu hjá íslensku sauðfé. Einu tilburðir til slíks sem ég minnist eru að fyrsta haustið sem ég var á Hvanneyri, þá sem aðstoðarmaður Ólafs Dýrmundssonar að hluta, kom þar fram óvenjulega vænt og sæmilega gert hrútlamb sem var eineistungur. Okkur Ólafi datt þá til hugar að leggja til að hrútur þessi yrði settur á vetur og notaður. Bústjóri féllst á þessa hugmynd og örlög hrútsins næsta ár urðu í samræmi við hugmyndir okkar. Engin tilraun var gerð en við aðeins sáum næsta haust að lömb undan hrútnum voru heldur vænni en undan öðrum hrútum á búinu og undan honum fundum við eitt hrútlamb með aðeins eitt eista muni ég rétt en nú eru liðnir nær fimm áratugir síðan. Hrúturinn fékk að lifa annað ár.

Mín skoðun um þessa tvo eiginleika hjá íslensku sauðfé er að báðir ráðist þeir að einhverju að erfðum en arfgengi þeirra beggja er samt ákaflega lágt. Hins vegar hef ég séð nánast engin dæmi þess að þetta hafi bagað þann einstakling sem ég hef séð annan hvorn eiginleikann hjá. Sé eitthvað er það öfugt eins og áður er nefnt um E-flokks lömbin. Ég held samt að varasamt sé að draga nokkrar ályktanir af því vegna þess að ég held að frekar geti verið um úrvalsáhrif að ræða vegna þess að bændur eru ekki að láta okkur dæma slíka gripi viti þeir um gallann nema um afburðalömb sé að ræða.  Reynslan segir mér að tíðni þessara einkenna sé talsvert lægri hjá kollótta enn hyrnda fénu hér á landi. Það er samt alveg órannsakað.

Næst ætla ég segja frá örfáum dæmum um eiginleikana sem ég tel mig þekkja úr íslenskri sauðfjársögu.

Þá snúum við okkur fyrst af hrútum með eitt eista.

Það fyrsta sem ég treyst minni mínu með er að til séu skrif Halldórs Pálssonar um fjárrækt Sigurgeirs á Helluvaði, sem Halldór taldi einn slyngasta fjárræktarmann á fyrri hluta aldarinnar hér á landi. Þar mun hann segja frá því að Sigurgeir hefði ekki fúlsað við hrútum með eitt eista þegar hann valdi sér og/eða keypti ásetningshrútana. Jafnvel leitað gripa fyrir það hlutverk með þetta einkenni.

Austur-Eyfellingar hafa staðið flestum Rangæingum framar í fjárrækt frá því um fjárskiptin um miðja síðustu öld. Einn fyrsti stóri kynbótahrútur í sveitinni var Freyr í Ytri-Skógum en undan honum kom fjöldi úrvalshrúta sem sumir munu hafa verið eineistungar eins og faðirinn. Freyr er án nokkurs vafa grunnfaðir ræktunarinnar í Ytri-Skógum sem er löngu landsfræg.

Þá komu mjög við sögu fjárræktar hér á landi hjá hyrnda fénu tveir feðgar. Sá eldri var Lítillátur í Oddgeirshólum en hinn Dvergur á Akri sem kom vegna flutnings á sæði úr Lítillát norður í land. Þessir feðgar unnu sér margt til ágætis en mest samt af geta af sér betra fé að flestra mati en flestir aðrir hrútar hérlendis á þeim tíma. Þeir voru tveir af rúmlega tugi hrúta á landinu öllu sem hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi sín á því rúmlega fjögra áratuga skeiði sem slíkar verðlaunaveitingar fóru fram. Þá vakti Lítillátur talsverða athygli fyrir besta afkvæmahóp hrúta á frægri og ákaflega fjölsóttri landbúnaðarsýningu í Laugardal í ágúst 1968.

 

Dvergur 64-090, Pálma Jónssonar á Akri var einstök kynbótakind. Hann hlaut, eins og faðir hans Lítillátur 61-831 í Oddgeirshólum, heiðursverðlaun fyrir afkvæmi, einir örfárra hrúta. Þessir hrútar munu hafa verið eineistungar. Nokkur fleiri dæmi um slíkt meðal landsþekktra hrúta eru nefnd. Fyrst og fremst er samt hvatt til breyttra vinnubragða við dóma á þessum eiginleika og skökku biti einnig í greininni. Þær breytingar verða að mynda betri gögn um þessa eiginleka en núverandi dómar gera. Myndin birtist á síðu 386 í Búnaðarriti 1971, 84. árgangi, síðara hefti.

 

Víkjum þá aðeins að hinum eiginleikanum, gölluðu biti. Sumir bændur kunnu að minnast þess að ég vildi á hrútafundum yfirleitt gera lítið úr neikvæðum áhrifum þessara einkenna og hélt frekar upp vörnum fyrir þá feðga Mola frá Efri-Gegnishólum og Nála frá Hesti sem flestir vissu þá að gáfu frekar lömb með þessi einkenni en aðrir stöðvahrútar á þessum árum. Þrátt fyrir þessa vitneskju sóttust bændur meira eftir sæði úr Mola en öðrum stöðvahrútum þá.

Lengi hefur vakið furðu mína að um einn af þeim frægu hrútum sem notaðir voru til sæðinga frá Laugardælum fyrr á árum fann ég aldrei neinar upplýsingar um í skýrslum um fyrstu verðlauna hrúta í Búnaðarriti. Þetta var Mergur frá Miðfelli sem einhverjir bændur í Hraungerðishreppi munu hafa átt. Lausn gátunnar fékk ég í vetur. Þá var ég að grúska í gömlum sýningabókum niður á Þjóðskjalasafni vegna ættfærslna á Þernunesfé og fékk þá í hendurnar sýningabók úr Hraungerðishreppi frá þeim árum þegar Mergur var og hét. Fór að fletta. Sá strax að Mergur hafði fengið að mæta á sýningu eins og flestir aðrir hrútar í sveitinni. Hann hafði hins vegar verið flokkaður til annarra verðlauna. Skýringin var skrifuð á línu Mergs í sýningabókinni. „Bítur skakkt“. Mergur er í dag ættfaðir alls fjár á Íslandi. Þetta geta allir notendur FJARVIS sannreynt. Nái ættfærslur gripanna til þess tíma þá finna þeir Merg þar nema svo ótrúlega vilji til að þeirra fé hafi aldrei komið nálægt sæðingum sem mun vandfundið. Eina féð sem ég verð þarna að undanskilja er forystuféð.

Nýjasta dæmi um þessa galla veit ég úr afkvæmarannsókninni fyrir stöðvarnar í Borgarfelli haustið 2022 þar sem besti hrúturinn var felldur frá stöðvaferð vegna 6,5 dóms fyrir haus. Hvers vegna var hann settur í rannsókn með þennan dóm? Sigfús á Borgarfelli sem á hrútinn segir mér að þetta sé rakin kynbótakind og dómurinn sem felldi hrútinn eigi því miður ekki rétt á sér. Furðanlegt að ráðunautar viðurkenni ekki mistök sín og velji slíka afreksgripi ekki sem stöðvahrút. Ég veit að Sigfús trúði á Hjalta og ég trúi líka mati Sigfúsar á eiginleikanum.

Það kann að vekja athygli að tveir hrútanna sem nefndir eru að framan, Mergur og Lítillátur, voru talsvert notaðir til sæðinga með glæsilegum árangri. Ég veit að Hjalti Gestsson bar öðrum fremur ábyrgð á vali á þessum hrútum til sæðinga. Hjalti var ódrepandi bjartsýnismaður fyrir málstað íslensku sauðkindarinnar og vissu að áðurræddir eiginleikar hrútanna mundu ekki valda heimsenda í íslenskri sauðfjárrækt. Þetta var áður en sauðfjársæðingar féllu undir ægivald Sigurðar Sigurðarsonar sem rætt er í byrjun greinarinnar og síðan ríkti um áratuga skeið.

Eins og ég sagði áður þá vinna Norðmenn talsvert öðruvísi með þessa eiginleika hjá lambhrútum en við gerum. Þeir dæma samt lambhrúta meðal annars alla sem fara í æðsta dóm, afkvæmarannsóknir. Þetta kerfi þeirra er þrælmúrað og þeir hafa notað það um áratugaskeið. Enginn hrútur fer á sæðingastöð nema fara gegnum mörg nálaraugu m.a. lambadóm og afkvæmarannsóknir, engin frávik eins og hjá okkur. Ég mæli alls ekki með slíku stífu kerfi fyrir okkar fjárrækt.

Í lambadómum Norðmanna eru hrútarnir aldrei lækkaðir í stigum fyrir eignleikana sem hér eru ræddir. Þess í stað þá eru skráðar athugasemdir um eiginleikann og athygli umráðamanns lambsins vakin á þeim. Það er síðan umráðamanns hvaða tillit hann tekur til athugasemda þegar ákvörðun er tekin um ásetning lambhrútsins eða förgun hans.

Það er tillaga mín að bændur og ráðunautar taki þessi mál til rökrænnar umræðu og geri þar á mögulegar að mínu viti löngu tímabærar breytingar. Vinnubrögð Norðmanna held ég geti orðið að góðu liði í umræðu um slíkar breytingar.

Að endingu vil ég taka það skýrt fram að ég mæli alls ekki með því að setja sértaklega á hrútlömb með þessa eiginleika. Hins vegar á það ekki að vera dauðadómur yfir einstökum úrvalsgripum. Fyrst og fremst þarf aðeins breytt viðhorf og skráningu eiginleikanna þarf að breyta þannig að fáist gögn til að gera marktækar rannsóknir hjá íslensku sauðfé á þessum tveim eignleikum.

 

Jón Viðar Jónmundsson

 

Athugasemd höfundar:

Einhverjir lesendur hafa mögulega veitt athygli að í á þriðja ár hafa greinar eftir mig ekki birst í Bændablaðinu. Þá var ég settur í ritbann af þáverandi ritstjóra sem ég aðeins hef haft samband við með tölvupósti. Tilkynnti mér að vísu ekki og veit því ekki ástæðuna. Skilaboðin fékk ég frá Sigurði Má í símtali sem kvaðst ekki hafa grænan grun um ástæðuna. Þetta ritbann hefur núverandi ritstjóri staðfest án þess að tilgreina nokkra ástæðu í greinunum. Mér þykir þetta leitt í ljósi þess að svona vinnubrögð finnst mér stjórnarskrárbrot og mannréttindabrot. Sérstaklega þegar það er lesið með hliðjón af svona vinnubrögðum hjá Pútín sem Morgunblaðið birtir margt um og því vel þekkt.

Til að þú lesandi góður getir betur dæmt um þetta sjálfur birti ég þetta greinarkorn. Þetta var ein greinin, síðan voru fleiri t.d. framhald upprifjunar á litaerfðum, sem ég hafði orðið var við að vakti áhuga margra lesanda og trúi einu sinni ekki að Pútín hefði bannað.

Ég vek athygli á þessu því að svona vinnubrögð hafa leitt af sér að heimurinn stendur nú á barmi allsherjarstríðs. Mér þykir mjög leitt að minn gamli vinnuveitandi BÍ lendi í slíku og bið stjórn þess að endurskoða stefnu málgagns síns.

Að lokum beini ég til Daða Más gamals starfsfélaga hjá BÍ að spara almannafé með að ausa ekki lengur blaðastyrkjum í þá sem brjóta stjórnarskrá og fleiri landslög eins og ég hef lýst. Það væri tímabær tiltekt.