Bæjarfulltrúar á Akranesi: Er litið á fatlaða einstaklinga í Fjöliðjunni sem annars flokks þegna?

Andrés Ólafsson

„Þeir eru að brjóta niður húsið okkar,“ sagði afastrákur minn sem vinnur í Fjöliðjunni og vann í Fjöliðjunni á Dalbraut 10 fyrir brunann. Hvað fer um huga manns, þegar við horfum á stórvirkar vinnuvélar brjóta niður vinnustaðinn „Fjöliðjuna“ á Dalbraut 10. Sérstaklega vegna þess hve lítið hefur verið gert úr Fjöliðjufólkinu og hins vegar hve illa er farið með fjármuni okkar bæjarbúa. Þetta minnir á „útrásarvíkinga“ fyrir hrun! Ég vænti að heimilisbókhald bæjarfulltrúar sé á betri stað, en meðferðin á skattpeningum okkar bæjarbúa.

Í um 53 mánuði, eða fjögur ár og 5 mánuði, hefur Fjöliðjufólkið barist fyrir því að fyrrum vinnustaður þeirra yrði endurbyggður og stækkaður á Dalbraut 10, en þau þurftu að yfirgefa hann eftir bruna 7. maí 2019 og fara í leiguhúsnæði. Í 31 mánuð eða tvö ár og sjö mánuði, var hlustað og þau fengu að hafa áhrif á hönnun og hugmyndavinnu á nýjum/gömlum vinnustað. Teikningar nær tilbúnar og kostnaðaráætlun upp á +/- 400 milljónir til fyrri umræðu fjárhagsáætlunar 2022 til og með 2025. Áætlað var að taka húsnæðið í notkun í lok árs 2023.

Þann 14. desember 2021 tekur bæjarstjórn U-beygju, eftir að bæjarstjóri hafði lagt fram „valkostagreiningu“ sem unnin hafði verið af honum milli umræðna um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn, en þar sagði m.a: „Við frekari skoðun í skipulags- og umhverfisráði hafa komið fram efasemdir um fjárhagslegan ávinning af uppbyggingu Fjöliðjunnar á Dalbraut 10 vegna stærðar lóðar og áhrifa á heildarskipulag Dalbrautarreits. Dalbrautarreitur hefur verið gjöfull í tekjuöflun og skiptir verulegu máli í að afla Akraneskaupstað sértekna.

Ákvörðun tekin við síðari umræðu fjárhagsáætlunar, að skipta vinnustaðnum upp og hann yrði staðsettur, annars vegar á neðstu hæð í blokk á Dalbraut 8 og hins vegar með áhaldahúsi og Búkollu á Kalmansvöllum 5. Ákveðið að Fjöliðjufólk fái að vera með í starfshópi um hönnun á Kalmansvöllum 5, en ekki á Dalbraut 8 sem á þó að vera þeirra aðalvinnustaður.

Um þessa kúvendingu/U-beygju og undanfara hennar fjallaði ég m.a. um í tveimur greinum, þann 9. febrúar og 2. mars 2022.

Kosningar voru á miðju ári 2022, nýir bæjarfulltrúar að koma inn í bæjarstjórn. Hluti kúvendingarbæjarstjórnar farinn frá völdum. Nýkjörin bæjarstjórn kom til starfa í júní 2022.

Hógværar væntingar voru gerðar til nýkjörinnar bæjarstjórnar og var þar m.a. horft til „Stefnuyfirlýsingar meirihluta bæjarstjórnar sem lögð var fram á bæjarstjórnarfundi 7. júní árið 2022“. Þar segir m.a. í inngangi á málefnasamningi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks vegna meirihlutasamstarfs í bæjarstjórn Akraness kjörtímabilið 2022 – 2026: „Leitast verður við …að stjórnsýslan snúist um að veita íbúum góða þjónustu með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Lögð verður áhersla á gott samstarf við íbúa ..og þróun á virku íbúalýðræði.“

Endurtekið „virku íbúalýðræði“.  Einnig sagði m.a. í ávarpi á forsíðu kosningabæklings Sjálfstæðisflokksins á Akranesi fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar.: „Kæri íbúi, Við viljum vinna fyrir þig, fyrir bæ sem virkar fyrir fólkið en ekki öfugt.“ Setning hlaðin vilja til að breyta hlutum, má ætla.

Ég geri ráð fyrir að leiðbeinendur í Fjöliðjunni hafi viljað láta reyna á stefnuyfirlýsinguna og kosningaloforð stjórnmálaflokkanna, þegar þau buðu hverjum og einum bæjarfulltrúa til fundar, þar sem farið var yfir upplifun þeirra, sögu og hugmyndafræði Fjöliðjunnar. Þar sem áréttað var, að með ákvörðun um samfélagsmiðstöð verða miklar breytingar á þeim þáttum m.a. með uppskiptingu á starfsemi Fjöliðjunnar á tvo staði.

Flestir nýju bæjarfulltrúanna þáðu boðið, enda blekið ekki svo löngu þornað af stefnuyfirlýsingu meirihlutans. En fór þessi kynning leiðbeinenda inn um annað eyrað og strax út um hitt? Allavega leiddi það ekki af sér frekari umræðu í bæjarstjórn, né í nefndum bæjarins.

Leiðbeinendur í Fjöliðjunni skrifuðu grein í Skessuhorn þann 30. nóvember 2022 sem bar yfirskirftina: „Vekjum athygli – Bæjarstjórn Akraness – Er ekki kominn tími til að hlusta.“ Þar mátti m.a. lesa eftirfarandi setningar:

  • HVAÐ SKIPTIR YKKUR MÁLI – ER ÞAÐ VELFERÐ FÓLKS OG VILJI? HVAÐ STJÓRNAR YKKAR FÖR?
  • Þið hafið svikið loforð – þið misnotið vald með hroka – þið talið niður til og hundsið skoðanir fólks!
  • Þið spyrjið ekki og takið ekki tillit til vilja og skoðana þeirra sem málið varðar. SAMNINGUR SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA.
  • Þið segið leiðbeinendum Fjöliðjunnar að hlýða ákvörðun stjórnvalds eða finna sér aðra vinnu.
  • Fjöliðjan: Sinnir magnaðri starfsemi – er fyrirmynd annarra vinnustaða á landsvísu – er eftirsótt.

 

Hér er vitnað í nokkrar setningar í vandaðri og góðri grein. Ég skora á íbúa að fara inn á heimsíðu Skessuhorns, lesa greinina og þær fjölmörgu setningar sem þar eru settar fram til bæjarstjórnar.

Hafði þessi grein einhver áhrif hjá bæjarfulltrúum sem sögðu m.a.í kosningabaráttu: „Kæri íbúi, Við viljum vinna fyrir þig, fyrir bæ sem virkar fyrir fólkið en ekki öfugt“?

Eða áttu orð föður fatlaðrar stúlku í sjónvarpinu 11.05.2023 er hann sagði: „Upplifi að litið sé á fatlaða einstaklinga sem annars flokks þegna í samfélaginu“ og bætti við; „er það samfélag sem við viljum búa í“ við um Fjöliðjuna? Það er mín upplifun, leiðbeinenda í Fjöliðjunni og margra þeirra er látið hafa sig málið varða. Ástæða þess að faðirinn lét þessi orð falla, var að hann kom allsstaðar að lokuðum dyrum, þegar hann ætlaði að sækja um aðgang að heilsuveru fyrir dóttur sína við 16 ára aldur. Dóttir hans hafði ekki getu til að sækja um rafræn skilríki sjálf og ekki mátti aðstoða hana. Þessi setning föðursins á við um Fjöliðjuna og fleiri ákvarðanir bæjarstjórnar. Það er ekki „hlustað“.

Einn af 9 bæjarfulltrúum sá sig knúinn til að svara grein leiðbeinenda í Skessuhorni þann 7. desember 2022 og þar sem hvorki hósti né stuna hefur heyrst, né verið skrifuð af öðrum bæjarfulltrúum, þá er ekki hægt annað en að líta á svar bæjarfulltrúans/talsmannsins sem opinbert svar allra bæjarfulltrúa.

Í grein talsmanns bæjarfulltrúa kom m.a. eftirfarandi fram: „Framúrskarandi Fjöliðja frekar en fortíðar“.  Fyrirsögn á svari talmanns við grein leiðbeinenda í Fjöliðjunni.  Ég ætla ekki að draga í efa að bæjarfulltrúar álíti sig það mikið betur gefna og hæfa, en þeir leiðbeinendur sem vinna dags daglega í Fjöliðjunni til að koma með slíka fullyrðingu. Að fullyrða að vinnustaður á neðstu hæð í blokk sé framúrskarandi vinnustaður, sem var ákveðin og skipulagður án aðkomu Fjöliðjustarfsmanna. Heldur en sjálfstæður vinnustaður með sínu umhverfi sem unnið hafði verið að í rúm tvö ár að skipuleggja á Dalbraut 10 með aðkomu leiðbeinenda og starfsmanna í Fjöliðjunni. Fjöliðja „fortíðar“ hefur verið fyrirmynd annarra vinnustaða á landsvísu – er eftirsótt.

Gert er lítið úr því fólki sem var í vinnuhópnum fyrir U-beygju. Fullyrt að þau ætli að nota 15 ára gamlar teikningar! Vinnuhópnum er ekki hægt að treysta fyrir „Framúrskarandi“ nýrri Fjöliðju. Lykilatriði var að losna við Fjöliðjufólkið úr vinnuhópnum, því þeirra hugmyndir eru gamaldags með gömlum teikningum!

Margar rangfærslur koma fram í greininni sem tilefni væri til að leiðrétta með tilvísunum í staðreyndir. Ég mun ekki fjalla frekar um þær, þar sem rými í Skessuhorni er takmarkað. Nýjum bæjarfulltrúum ráðlegg ég þó, að lesa fundargerðir, tillögur úr fyrri hönnun (Dalbraut 10), samþykktir og fleira frá 7. maí 2019 til 9. nóvember 2021.

Rétt var þó í grein talsmanns bæjarfulltrúa að „Endanleg ákvörðun í málinu og ábyrgð var í höndum bæjarstjórnar.“ Hvers vegna að setja Fjöliðjufólkið úr liðinu? Því þau voru að þvælast fyrir, horfðu ekki til sértekna bæjarsjóðs.

Ástæður, ósjálfbær rekstur Akraneskaupstaðar og „væntir peningar“ af þéttingu byggðar í eldri hluta bæjarins eins og kom fram hér fyrr í greininni. Ósjálfbær rekstur bæjarfélagsins kallaði eftir meiri tekjum, ekki er pláss fyrir lágreista byggð á Dalbrautarreit. Reiturinn er „gjöfull í tekjuöflun“ með frekari háhýsabyggð.

 

Yfirlýsing var birt í Skessuhorni 14. desember 2023 frá fjórtán leiðbeinendum í Fjöliðjunni, vegna ummæla talsmanns bæjarfulltrúa, en þar sagði m.a:

  • Að baki Fjöliðjunnar er öflugur hópur starfsmanna sem hafa sjálfstæðar skoðanir. Fjöliðjan hefur einnig öflugan hóp leiðbeinanda sem vinnur ötullega að stuðningi starfsmanna. Leiðbeinendur vita að þeirra hlutverk er að styrkja og styðja, vera málsvari þess sem þarfnast aðstoðar.
  • Virðing er dyggð sem Fjöliðjan stolt fer eftir. Traust er mikilvægt í starfi leiðbeinenda og mikilvægt að starfsmenn finni að traustið bregst ekki, þrátt fyrir skiptar skoðanir, ákvarðanir og verk annarra.
  • Bæjarstjórn og bæjarbúum má vera ljóst að skoðanir leiðbeinenda byggja á skoðunum og hugmyndum starfsmanna.
  • Þar er aldrei gott að ætla sér að vinna til framtíðar ef skoðanir annarra mega ekki heyrast.
  • Aðstandendur fatlaðra ættu að geta verið sáttir og öruggir, því svo sannarlega eru hagsmunir og skoðanafrelsi í hávegum haft í öllu starfi Fjöliðjunnar.

 

Þann 15. desember 2022 gengu fatlaðir starfsmenn Fjöliðjunnar í mótmælagöngu m.a. undir kjörorðinu „Hlustið á okkur“ að bæjarskrifstofum Dalbraut 4, ásamt leiðbeinendum í Fjöliðjunni og stuðningsfólki. Þar var m.a. mótmælt að Fjöliðjunni væri skipt upp og ekki væri „hlustað“ á þau. Hvar eru félagasamtök þessara einstaklinga? Hvar hefur t.d. Þroskahjálp verið? Hvar er notendaráð um málefni fatlaðs fólks á Akranesi? Síðasti skráði fundur 16.01.23. Var/Er ekki tilefni fyrir talsmanninn og aðra bæjarfulltrúa „að hlusta“ á starfsmenn og leiðbeinendur í Fjöliðjunni. Bæjarfulltrúar gætu t.d. byrjað alla morgna á að segja við sig í speglinum  „Ég mun hlusta í dag“.

Við vígslu nýja leikskólans Garðasels 21. júní 2023 vakti athygli mína ræða skólastjóra leikskólans, sem birt var á heimasíðu Akraneskaupstaðar, en þar sagði m.a.:

„Að hanna og skila af sér glæsilegum og vel heppnuðum leikskóla er verkefni sem er forréttindi að hafa fengið traust til að taka þátt í . Batteríið, Landslag, Umhverfis – og skipulagssvið og skóla og frístundaráð Akraneskaupstaðar leyfði okkur að vera með, það var hlustað á okkur og tillögum okkar tekið af fagmennsku og lausnum.“

Á fundi í bæjarstjórn áttu fulltrúar varla lýsingarorð um hve allt samráð starfsmanna og framkvæmdaraðila hafi skilað af sér góðri og fallegri byggingu.

Þessi orð gáfu tilefni til að fagna og hugsa til málsháttarins „batnandi mönnum er best að lifa“.

En hefur eitthvað breyst, eru bæjarfulltrúar farnir að „hlusta“? Það er takmarkað, varla með öðru eyranu.

Hvers vegna eru ekki birtar fundargerðir stýrihópa og skýrsla kynningar og samráðs um samfélagsmiðstöð? Er hér verið að fjalla um einkamál bæjarfulltrúa og/eða nefndarmanna, sem þola ekki birtingu! Birtið fundargerðir og skýrslu, hættið þessum feluleik.

Fleira er í felulitunum, þar er hægt að nefna m.a: Skipulagsmál, íþróttasvæðið, viðhald bygginga og margt fleira sem gefur tilefni til frekari skrifa.

Þegar vísað er í ósjálfbæran rekstur kaupstaðarins, þá var halli á A-hluta reiknings Akraneskaupstaðar fyrir fjármagnsliði á árinu 2022 um 450 milljónir króna. Akraneskaupstaður eitt fárra sveitarfélaga með þessa stöðu neikvæða. Til bjargar niðurstöðu ársreiknings þarf, arðgreiðslur frá Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahöfnum og einhverjar krónur í þéttingu byggðar í gömlum hverfum.

En hvert er Akraneskaupstaður að stefna á árinu 2023, niðurrif á Fjöliðjuhúsi að verðmæti um 200 milljónir (háttur útrásarvíkinga), í stað þess á að byggja og kaupa tvær eignir sem gætu kostað um 3,5 milljarða. Á sama tíma er verið byggja nýtt íþróttahús, viðhald og uppbygging við Grundaskóla, lagfæringar á íþróttahúsi við Vesturgötu, framkvæmdir á Jaðarsbakkasvæði svo eitthvað sé nefnt. Peningar að láni sem bærinn þarfnast til allra þessara framkvæmda eru dýrir.

Bæjarfulltrúar er ekki komin tími til að „hlusta“?

Við okkur Akurnesinga segi ég; er ekki kominn tími til að stofna „Íbúasamtök“ sem gæta hagsmuna okkar bæjarbúa, því ekki gera bæjarfulltrúar það? Hvernig farið er með skattpeninga okkar skiptir okkur öll máli.

 

Skrifað 18.10.2023

Andrés Ólafsson