Er ekki komið nóg með gjaldtöku í Hvalfjarðargöng?

Sigrún Ríkharðsdóttir og Ólafur Ingi Guðmundsson

Í hartnær tvo áratugi hafa þeir sem ferðast til höfuðborgarinnar frá Norðvesturlandi með bíl einir landsmanna þurft að greiða sérstakt gangagjald í Hvalfjarðargöng. Fólk sem fæddist eftir byggingu ganganna er núna að fara að kjósa í fyrsta sinn í alþingiskosningum.

Ríkissjóður Íslands hefur sparað sér milljarða sem notendur Hvalfjarðarganga hafa þurft að greiða fullu verði. Ríkissjóður hætti niðurgreiðslu á rekstri Akraborgar og hefur sloppið við afar kostnaðarsamar endurbætur í Hvalfirði. Að auki hafa notendur Hvalfjarðarganga borgað allt viðhald á þjóðvegi eitt sem liggur undir Hvalfjörð.

Það myndi ekki vera látið viðgangast að taka aftur upp gjaldheimtu á Reykjanesbraut eða yfir Hellisheiði. Yfir vetrarmánuðina er ekkert val fyrir íbúa á Norðvesturlandi. Í þeirra huga er Hvalfjörðurinn ekki lengur þjóðvegur eitt og honum er ekki sinnt nema að takmörkuðu leyti.

Á álagstímum eru Hvalfjarðargöngin nánast fullnýtt og ekki líður á löngu áður en þau fara yfir þau öryggismörk sem rætt er um að göng af þessari stærðargráðu beri á sólarhring. Því er komið í umræðuna að tvöfalda verði göngin og að öllum líkindum viðhalda gjaldtökunni næstu áratugi. Ef sú röksemdafærsla fær að halda munu íbúar Norðvesturlands líklega þurfa að horfa upp á gjaldtöku um ókomna framtíð.

Ríkisvaldið og Vegagerðin þurfa að byrja á því að undirbúa yfirtöku ganganna og nauðsynlegar breytingar á Vesturlandsvegi svo að öryggi vegfarenda sé í forgangi. Ekki er hægt að setja málið í nefnd og setja skýrsluna svo ofan í skúffu þegar allir hafa gleymt umræðunni.

Það er kominn tími til að ríkisvaldið hætti að mismuna bifreiðaeigendum og íbúum þessa lands eftir búsetu. Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi vill leggja sitt af mörkum svo það megi verða hið fyrsta.

 

Sigrún Ríkharðsdóttir og Ólafur Ingi Guðmundsson.

Höfundar eru kjósendur Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

Fleiri aðsendar greinar