Er ekki best að kjósa Framsókn?

Halla Signý Kristjánsdóttir

Í aðdraganda kosninga er gott að fara yfir hið pólitíska svið. Það má auðveldlega færa rök fyrir því að Framsókn er besti kosturinn fyrir okkar kjördæmi í þessum kosningum.

Á kjörtímabilinu hefur Ásmundur Einar staðið við þær breytingar sem hann boðaði í málefnum barna. Ásmundur hefur breytt húsnæðiskerfinu og komið með sveigjanleg úrræði þannig að nú er verið að byggja húsnæði um land allt. Sveigjanleiki í kerfinu verður að vera til staðar til að koma til móts við mismunandi aðstæður í landinu. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur unnið grettistak í menntamálaráðuneytinu. Hin nýi menntasjóður færir lánakerfi námsmanna til nútímans. Baráttumál framsóknarmanna má sjá í því nýja kerfi en það gerir ráð fyrir að ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega sem búsettir eru á svæðum sem erfitt er að fá sérfræðimenntað fólk. Norðvesturkjördæmi hefur orðið vart við veru Sigurðar Inga í samgönguráðuneytinu. Gefin var innspýting í stofnvegi sem lengi hafa beðið úrbóta eins og á Vestfjörðum. Sundabraut er í sjónmáli en ekki draumsýn og hafnar eru framkvæmdir við Vesturlandsveg í átt að Borgarnesi. Það er samt verk að vinna en þetta eru engu að síður risaskref í rétta átt.

Uppboð á kvóta, feigðarflan fyrir sjávarútvegsfyrirtæki í NV

Í Norðvesturkjördæmi eru nánast eingöngu bolfisksútgerðir og sjávarútvegsfyrirtækin eru flokkuð sem lítil-meðalstór fyrirtæki. Uppboð á kvóta eins og sum framboð boða er dauðadómur yfir litlum- og meðalstjórum bolfisksútgerðarfyrirtækjum í Norðvesturkjördæmi sem ættu ekki roð í stærstu sjávarútvegsfyrirtækin sem halda mörg hver á kvóta í uppsjávartegundum líka og njóta þar af leiðandi mikillar arðsemi úr þeirri grein. Það er því vandséð hvernig uppboð á kvóta á að hjálpa hinum dreifðu byggðum. Kvótakerfið er ekki fullkomið en það borgar sig frekar að vinna í annmörkum þess frekar en að færa aflaheimildir úr kjördæminu til stærstu fyrirtækjanna.

Landbúnaður

Í aðdraganda kosninga er vinsælt að vilja umbylta landbúnaðarkerfinu algjörlega en yfirleitt er óútfært hvernig á að auka hag bænda í þeim breytingum. Aukið tollafrelsi á að frelsa bændur en gerir lítið annað en að berskjalda þá gagnvart samkeppni frá öðrum löndum þar sem sýklalyfjanotkun er meiri og kröfur um aðbúnað eru gjarnan allt aðrar. Það skiptir máli að standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi. Það höfum við fundið í þeirri stöðu sem uppi hefur verið undanfarin misseri. Sterkt landbúnaðar- og mætvælaráðuneyti skapar tækifæri í auknum umsvifum og blómstrandi nýsköpun í landbúnaði. Íslenskir matvælaframleiðendur þurfa meiri frelsi til að auka virði framleiðslu sinnar og heimila ætti heimaslátrun og vinnslu, en hún þarf að sjálfsögðu að standast kröfur. Tækifærin eru fjölmörg, við þurfum að sjá þau og vinna með þeim.

Setjum X við B á kjördag

Ég hef undanfarin fjögur ár setið á þingi fyrir Framsókn og er stolt af þeim árangri sem við höfum náð í ríkisstjórn. Framsókn hefur haft samvinnu að leiðarljósi í þriggja flokka ríkisstjórn þar sem ólík sjónarmið koma saman og það þarf að finna bestu lausnina. Framtíðin ræðst á miðjunni. Setjum X við B á kjördag.

 

Halla Signý Kristjánsdóttir.

Höf. er alþingismaður og í framboði fyrir Framsókn í Norðvesturkjördæmi.