Er ekki æðislegt að vera bara svona veikur?

Hafsteinn Þórisson

Opið bréf til þeirra er málið varðar

Ástæða þessa bréfs er færsla sem ég setti á facebook statusinn minn fyrir nokkrum dögum: „Það er ekki bara hamslaus gleði og hamingja að vera heilsulaus.“ Upphaf þeirrar færslu er að ég hef tvisvar verið spurður að því undanfarnar vikur hvort það sé ekki bara æðislegt að vera svona veikur? Þá þarftu ekki að vinna og getur bara gert það sem þig langar til! Í alvöru?

Ef ég gæti gert það sem mig langar mest til þá væri það að vera ennþá að kenna, ég hef kennt tónlist í um 30 ár og það er það skemmtilegasta og mest gefandi starf sem ég get hugsað mér, að sjá nemanda sýna framfarir eða skínandi ánægðan eftir að hafa þorað að koma fram á tónleikum fyrir framan fólk og foreldrarnir að springa af stolti. Það er ekkert sem slær þessu við.

En því miður get ég ekki kennt lengur, ástæðuna má rekja til tveggja slæmra höfuðhögga sem ég hef lent í. Fyrra slysið árið 2005 og seinna 2011. Eftir því sem árin líða koma meiri og meiri eftirköst í ljós. Í dag er ég þannig að ég veit ekki hvort ég standi upp úr rúminu á morgun vegna orkuleysis eða hvort ég kipri mig í kuðung og hágráti eins og kornabarn vegna verkja í höfði og hálsi. Ég er ekki að skrifa þetta til að láta vorkenna mér eða kannski lítur út fyrir að ég þurfi að kalla út vælubílinn, málið er þetta; Í mörg ár hafa mínir læknar bent mér á að heilsulega gæti mér liðið mun betur í hlýrra loftslagi. Ég tók ekki mikið mark á því þar til fyrir rúmum tveimur árum að ég ákvað að prófa að vera erlendis í sex mánuði og eftir nokkrar vikur var ég nánast hættur að taka verkjalyf svo það virkar alveg. Þegar maður býr á Íslandinu góða þá kostar það ansi mikið að keyra mörgum sinnum á ári til Reykjavíkur til að hitta sérfræðinga, til að fara í hinar ýmsu myndatökur til að fylgjast með öllum líffærum sem smátt og smátt eyðileggjast vegna lyfjagjafa og svo allur lyfjakosnaðurinn sem fylgir líka. Ég er með sjö mismunandi sjúkdómsgreiningar og tek 14 tegundir af lyfjum á hverjum deg og af sumum lyfjum mesta leyfilega skammta.

Þar sem ég bý núna hef ég það ágætt að öðru leyti en því að ég sakna barnanna minna, fjölskyldu og vina. Þetta hefur sína kosti og galla eins og allt annað í lífinu. Ég var heima á Íslandi í sumar og þar er einfaldlega ekki smuga að ná endum saman á örorkulífeyri. Miklar áhyggjur hef ég svo af framhaldinu. Nú ætlar ríkisstjórnin að taka af okkur persónuafsláttinn um áramótin, þar að segja af okkur sem búum erlendis hluta úr árinu. Það myndi þýða fyrir mig 64.926 krónur á mánuði sem ég fengi minna til að lifa af, eða rúm 16.000 krónur á viku og það munar miklu. Ef allt fer eins og stefnan er í dag þá er ég hræddur um að fjúki í flest skjól hjá mörgum eldri borgurum og aumingjum eins og mér.

 

Með vinsemd og afsakið mig,

Hafsteinn Þórisson

Höf. er fyrrverandi tónlistarkennari