Er Akranes blómstrandi bær?

Steinunn Eva Þórðardóttir

Tja, hvað er blómstrandi bær er þá eðlileg næsta spurning, sem mig langar að svara út frá jákvæðu sálfræðinni. Það fyrsta sem kemur í huga minn þegar ég velti þessu fyrir mér er bókstaflega bær þar sem er mikið af gróðri og fallegum svæðum. Svæði sem eru litrík og gróðursæl tala beint við frumstæðar stöðvar heilans og gefa tilfinningu fyrir gnægð, andstæðunni við skort sem vekur kvíða og áhyggjur. Gnægð, hinsvegar gefur tilfinningu fyrir öryggi og gleði. Líttu í kringum þig á þitt umhverfi og spáðu í hvort það segir. Það skiptir ekki síst máli að umhverfi sjúklinga, aldraðra og barna sé uppörvandi.

Þegar ég horfi út um gluggann á vinnustað mínum yfir Akratorg finnst mér að bærinn minn sé nær því að blómstra en hann hefur verið í mörg ár. Breytingarnar á torginu hafa heppnast vel, þar er alltaf líf, gosbrunnur, fallegur gróður, fólk ekki bara á þönum heldur sem staldrar við og nýtur sólar eða spjallar við aðra. Kaffihúsið skapar stað til að hitta fólk og rækta tengsl, krakkarnir leika sér og príla á Sjómanninum sem vakir yfir öllu, traustið uppmálað. Bak við hann glittir í vinnustofu listamannsins sem setur mikinn svip á miðbæinn og sumir staldra þar við í hverri ferð til að gleðja augun. Við torgið eru mörg gömul hús og það gleður mig sérstaklega sem áhugakonu um að varðveita gamlar fallegar byggingar hve vel hefur tekist til með Sunnuhvol og að sjá að bæði við Akratorg og víðar um bæinn er fólk að taka við sér og ekki bara sinna nauðsynlegasta viðhaldi heldur fegra húsin og garðana sína. Það sýnir líka að fjárhagur virðist á uppleið sem er gott.

Annað sem einkennir blómstrandi samfélag er að þar er samstaða og lítið um átök eða glæpi, fólk er vingjarnlegt og hjálpast að. Best er ef fólk nær að vinna saman eins og að nágrannar taka sig saman um að annast leikvelli, garða eða þess háttar. Götugrill kemur upp í hugann, fyrir marga er það bestu hluti Írsku daganna.

Með því versta fyrir hamingju fólks er að vera í fjárhagserfiðleikum, þannig að til að bær blómstri þarf auðvitað að vera atvinna og ekki bara atvinna, það væri snilld að veita öfluga fjármálafræðslu því vinnandi fólk með blússandi tekjur getur líka átt í fjárhagserfiðleikum. Kannski eru skuldir yfirhöfuð það versta? Annað sem vinnur ekki bara gegn hamingju heldur hreinlega heilsu fólks er ójöfnuður. Eftir því sem er meiri ójöfnuður í samfélagi því verri er heilsa fólks. Það er ekki bara fátækt sem er virkilega slæm fyrir heilsuna, við vitum börn sem alast upp í fátækt eru við verri heilsu alla ævi, heldur er það þannig að eftir því sem bilið milli ríkustu og fátækustu þegnanna stækkar, eykst vanheilsa og vanlíðan í samfélaginu.Við þurfum varla að hafa áhyggjur af því hér, öll jafn skítblönk, ekki satt?

Þetta er engin allsherjar úttekt á blómstrandi samfélagi en ég má til að nefna tvennt í viðbót. Hér er frábær aðstaða til að hreyfa sig úti, það eru göngustígar meðfram sjónum næstum alveg í kringum bæinn og út frá bænum í báðar áttir má bæði ganga og dáðst að útsýni en einnig listaverkum. Hvoru tveggja grunar mig að sé vanmetinn hluti af vellíðan okkar. Það að horfa á eitthvað fallegt, nú eða hlusta, er mikilvæg undirstaða undir vellíðan. Hreyfing er hinsvegar mikilsmetin og frábær undirstaða heilsu og við skulum bara tala um heilsu, ekki skipta henni í líkamlega eða andlega því það er bara óþarfa flækja. Perlurnar okkar, Langisandur sem bráðum skartar Guðlaugu, er á við það sem best gerist erlendis, Skógræktin er bæði falleg og býður upp á margar gönguleiðir og staði til að hittast og leika sér eða að snæða saman, Elínarhöfðinn er dýrðleg gönguleið, og síðast en ekki síst Akrafjallið sem er ótrúlega fallegt og fjölbreytilegt fjall, bara fyrir okkur!

Eitt í blálokin, sem skiptir líka máli er sjálfsmynd okkar sem bæjarbúa.  Allt þetta sem talið er upp að ofan leggst inn í hana, að auki vegnar fótboltafólkinu okkar sérlega vel akkúrat núna. Er þá ekki niðurstaðan sú að við getum kynnt okkur með sjálfsöryggi sem Skagamenn? Það held ég.

 

Steinunn Eva Þórðardóttir

Fleiri aðsendar greinar