Er Æsland konnekt?

Kjartan S Þorsteinsson

Hluti af því að vera lítil þjóð er að oftast eru fáir sem tala tungumálið sem henni tilheyrir. Annar hluti af því að vera lítil þjóð er óhjákvæmilegur samanburður við stærri þjóðir. Þetta tvennt flækir stundum tilveru okkar. Ekki síst þegar örnefni á borð við Eyjafjallajökul eða kjarnyrt íslensk nöfn á borð við Sigurrós eða Björk verða fræg. Þá er eins og vakni einhver minnimáttarkennd í okkur. Þá verðum við öðruvísi. Tilfinningin er kannski ekki ósvipuð og fyrir ungling að mæta í skólann með bólu á nefinu.

Innst inni finnst okkur kannski eins og allir hljóti að sjá hvað við erum litlir kallar og kerlingar af því við eigum afburða tónlistarfólk og hrikalegt eldfjall sem hljóma svo bara eins og einhvers konar barnahjal eða bull í framburði erlendra þjóða. En svo horfir maður á heimildarmynd um sjaldgæfan ættbálk í Afríku þar sem fólkið dansar á lendarskýlum í hringi, með kjúklingalegg í gegnum nefið og með æpandi rauða andlitsmálningu. Þetta finnst manni framandi og merkilegt og er enginn hlátur í huga. Samt léti maður aldrei nokkurn mann sjá sjálfan sig svona til fara.

Líkt og sumir afrískir ættbálkar var íslenskan að mestu einangruð frá áhrifum annarra menningarstrauma og tungumála í þúsund ár. Það gerði að verkum að hún breyttist miklu hægar en skyldar tungur í kringum okkur. Hún er því mikið sögulegt og menningarlegt verðmæti, ekki bara fyrir okkur Íslendinga heldur líka fyrir aðrar þjóðir sem gætu haft áhuga á að kynna sér hana. Hún er því alls engin ástæða til minnimáttarkenndar. Þvert á móti getum við verið mjög stolt af þessari flottu arfleifð.

Hluti af því að ferðast um önnur lönd er að upplifa tungumálið. Ef allir Jarðarbúar töluðu ensku þá væri vissulega auðveldara að ferðast og eiga samskipti. En væri það jafn skemmtilegt? Tungumál eru sköpuð af ólíkum menningum og eru órjúfanlegur hluti af þeim. Hluti af því að ferðast er því að upplifa ólíka menningu í gegnum tungumálið. Tillitsemi okkar við að þýða hlutina yfir á ensku fyrir erlenda gesti okkar er þannig stundum dálítið misskilin. Kannski langar útlendinga að vita að það sem þeir kalla „restaurant“ sé „veitingastaður“ hjá okkur. Þeim gæti jafnvel þótt gaman að leita þá uppi undir íslenska heitinu.

Flest höfum við sennilega komið inn í ferðamannasjoppur eða veitingastaði á Íslandi þar sem allt er skrifað fyrst á ensku og íslenskan er höfð undirmáls, ef hún er þá höfð með. Þetta er eflaust gert af tillitssemi við gestina okkar. En erum við að gera þeim greiða? Leyfum þeim að komast að því að „samloka“ er það sem við köllum tvær brauðsneiðar með einhverju á milli. Það þarf ekki að skrifa „sandwiches“ á hilluna til að koma því til skila. Rænum ekki þeirri reynslu gjörsamlega frá gestum okkar að upplifa tungumálið okkar.

Nú er svo komið að rótgróið nafn Flugfélags Íslands hefur verið lagt niður og í staðinn var tekið upp enska heitið Air Iceland Connect. Í auglýsingum er „connect“ borið fram með áherslu á öðru atkvæði eins og í ensku (konn‘ekt) í stað fyrsta atkvæðis eins og í íslensku (k‘onnekt). Í íslensku erum við vön því að setning sem byrjar á sögninni „er“ er oftast spurning. Nýja nafnið hljómar þannig eins og einhver skrýtin spurning, samanber titil þessarar greinar. Þetta mun gera það að verkum að merking orðsins „er“ mun taka breytingu í huga okkar Íslendinga. Það verður ekki lengur bara íslenska sögnin „að vera“ heldur byrjum við að tengja það við enska orðið „air“. Enn er stigið eitt skref í því að þynna tungumálið okkar út og að þessu sinni gerir það stórt fyrirtæki með mikil áhrif í menningu okkar. En það skiptir fyrirtækið sennilega minna máli heldur en það að útlendingar viti án nokkurs efa að Flugfélag Íslands er flugfélag.

Hér á Vesturlandi erum við sveitafólkið greinilega aftarlega í þessari þróun. Við erum ennþá með fullt af fyrirtækjanöfnum sem trufla útlendinga örugglega jafn mikið og „Flugfélag Íslands“. Til að hjálpa fávísum gestum okkar þá langar mig að lokum að koma með nokkrar tillögur að nýjum fyrirtækjanöfnum. Þau myndu hjálpa útlendingum að átta sig á því hvað fyrirtækin standa fyrir og koma í veg fyrir misskilning:

Bifreiðastöð Þ.Þ.Þ. verði Th.Th.Th. Cargo Connect.

Kría Guesthouse verði Angry Bird Guesthouse.

Límtré Vírnet verði Glue Tree Wire Net.

Blikksmiðja Guðmundar verði Godhand Blinking Factory.

Og að endingu, Skessuhorn verður Bitch Corner.

 

Vonandi hætta útlendingarnir svo að hlæja að okkur.

 

Kjartan S. Þorsteinsson