EQ þerapistar vinna með tilfinningagreind
Kristín Magdalena Ágústsdóttir
Sæl verið þið!
Mig langar til að kynna mig fyrir Vesturlandi, því ég tel mig vera með þjónustu sem gæti nýst mörgum og ólíkum hópum. Eftir 9 ára búsetu í Noregi hef ég flutt aftur heim í í Borgarnes. Ég er menntuð sem leik- og grunnskóla sérkennari og EQ-þerapisti. Ég lauk námi sem leikskólakennari 2003, sérkennari 2011 og sem EQ þerapisti í mars á þessu ári.
EQ stendur fyrir Emotional Intelligent sem útleggst á íslensku sem tilfinningagreind. EQ Institute í Ósló er eini skólinn í heiminum sem kennir þessa tegund af þerapíu. EQ-þerapíuformið er hannað af Herdísi Pálsdóttur fjölskylduráðgjafa og stofnanda EQ-Institute í Osló. Hún og dóttir hennar Dóra Thorhallsdóttir stofnuðu EQ Institute árið 2006. Á heimsíðu EQ skólans er sagt frá tilurð og aðdraganda hans https://eqi.no/kontakt/var-historie/ Höfuðstöðvar skólans eru í Osló en einnig eru skólar bæði í Bergen og Stavanger. Þetta er þriggja ára nám og að mestu leyti verklegt.
EQ þerapía er ákveðið form meðferðar, þar sem þerapistinn styður þann sem fær þerapíu, í að ná sambandi við erfiðar tilfinningar sem hafa verið viðkomandi faldar af einhverjum ástæðum. Unnið er úr áföllum sem viðkomandi hefur orðið fyrir um ævina, styðja hann við að ná sambandi við litla barnið sem býr innra með hverjum og einum.
Markmið með EQ meðferð og meðferðarforminu er m.a. að líða betur í eigin skinni og sættast við það sem er liðið. Það er gert til að opna á tengingu við það liðna og búa til nýtt öryggisnet fyrir litla barnið sem varð hrætt eða óöruggt af einhverjum ástæðum.
Þetta er nýtt og ákaflega spennandi þerapíu form. Mig langar því til að opna á umræðu um tilfinningar og hver þeirra þáttur er, í hvernig samfélag við búum og hvers vegna okkur líður eins og okkur líður, hvort sem það er vel eða illa.
Ég er sérfræðingur í áföllum og hvernig þau hafa áhrif á allt líf okkar, hvar áföllin byrjuðu, hvernig þau þróuðust í að vera hamlandi og stýra okkur jafnvel í aðra átt en við sjálf viljum fara. Þykir mér samtímis mikilvægt að leiðrétta þann misskilning að áföll séu eitthvað sem gerist.
Áföll eru afleiðing atburða sem ekki hefur verið unnið með, veitt áfallahjálp eða önnur sálræn þjónusta til að vinna úr því sem gerðist. Misjafnt er milli manna hversu vel fólk getur leyst úr því sem gerist, það fer eftir því hvernig barnæskan þeirra var og hvernig þeim var mætt af þeim fullorðnu. Hægt er að vitna í Dr. Gabor Maté sem er sérfræðingur í meðferð við áföllum, inni á Youtube er að finna fjöldann allan af myndböndum þar sem hann útskýrir hvernig börn verða fyrir áföllum.
Mörg okkar í dag eru alin upp við; harkaðu af þér, hættu þessu væli, þetta er ekkert til að gráta yfir, hættu þessari geðvonsku og farðu inn í herbergið þitt og fleira í þessum dúr. Foreldrar eru vel meinandi og halda að það sé barninu fyrir bestu að loka á tilfinningar í stað þess að vinna með þær. Algengur misskilningur sem þeirra foreldrar höfðu við þeirra uppeldi.
Sem betur fer erum við farin að sjá barnið og barnæskuna í öðru ljósi en hér forðum. Börn voru jafnvel álitin sem litlir fullorðnir sem fengu ábyrgð sem börn á þeirra aldri ættu ekki að bera. Eins var á tímabili talið að öll börn væru sjálfselsk og frek og fengu þau tilhlýðilega meðhöndlun til að losa þau við þann ósómann.
Ekki er allt upp talið enda af nægu að taka, sem getur útskýrt hvers vegna við berum okkar birgðir, oft þegjandi og einmana.
Til að kynna mig og EQ- þerapíu formið, langar mig til að bjóða fyrirtækjum, fèlagasamtökum og stofnunum, upp á fyrirlestra og vinnustofur. Fyrirlestrar og vinnustofur eru sniðnar að þörfum hvers og eins. Hvort sem þið eruð starfandi í skólastofnunum eða í öðrum stofnunum og langar að fræðast um nýtt sjónarhorn á hver þið eruð, til að þjappa samstarfsmönnum betur saman eða til að móta stefnu fyrir nám yngri og eldri barna, er hugmyndafræðin sem ég vinn með, nytsamleg fyrir alla.
Kveðja,
Kristín Magdalena Ágústsdóttir
Höf. er EQ þerapisti, Leiðin til að elska mig. Hægt að ná samband við mig í kristinmagdalena72@gmail.com og síma 774-5964