
Enska deildin, bók og knattspyrnubærinn
Gísli, Gunnar, Haraldur, Jón og Þröstur.
Knattspyrnubærinn er hugtak sem svo sannarlega á við um Akranes. Um það vitnar mögnuð saga síðustu 100 ára. Árið 2022 var Skagafólki vissulega þungt þegar árangur karla og kvenna á knattspyrnuvellinum er skoðaður, en það kemur ár eftir þetta ár. Vert er þó að nefna tvennt sem ætti að vera til hvatningar og stuðnings knattspyrnunni á Skaganum.
„Knattspyrnubærinn“
Fyrst skal nefna að nú eru liðin 100 ár frá stofnun Knattspyrnufélagsins Kára, en litlu yngra er Knattspyrnufélag Akraness (KA). Þó svo að í árdaga á þriðja áratug síðustu aldar hafi fleiri knattspyrnufélög verið stofnuð á Akranesi, þá urðu þessi tvö félög lífseigust og lögðu grunninn að sigursælum Skagaliðum, ómetanlegu æskulýðsstarfi, stolti bæjarbúa og einstakri bæjarsögu. Knattspyrnan var og er alþýðumenning fólksins í bænum. Þessum tímamótum knattspyrnunnar hefur í sjálfu sér ekki verið minnst sérstaklega. Því er þó rækilega bjargað með ritverki Björns Þór Börnssonar, sagnfræðings, Knattspyrnubærinn, sem er saga knattspyrnunnar á Akranesi og kemur út nú í nóvember. Það er ástæða til þess að vekja sérstaka athygli á þessu framtaki Björns, því bók hans fangar vel áhrif knattspyrnunnar á bæjarlífið, áhrif hennar víða um land og reyndar út fyrir landssteinana. Það er svo sannarlega ástæða til að minnast þessarar merkilegu sögu, sem um leið ætti að vera áskorun um að varðveita og efla þá sterku ímynd Akraness sem knattspyrnan er.
Enska deildin
Þá skal nefna að nýlega var í sjónvarpi sýndur þáttur sem enskt þáttagerðarfólk gerði um þá einstöku afreksmenn og atvinnumenn í knattspyrnu sem komið hafa frá Akranesi og spilað í Englandi. Sú staðreynd að tugir leikmanna frá Akranesi hafa leikið sem atvinnumenn í sterkum deildum í Evrópu hefur reyndar áður vakið athygli sjónvarpsfólks erlendis, en þessi umfjöllun, sem sýnd var á Sky sport og seld til á annað hundrað sjónvarpsstöðva, ber augljóslega með sér að hér er eitthvað sérstakt á ferðinni. Okkar menn í þættinum stóðu vaktina af prýði og bættu vel í þá kynningu og jákvæði auglýsingu, sem fótboltinn á Skaganum hefur skilað samfélaginu. Verðmæti þessarar kynningar verður ekki í fjárhæðum mælt, en ef reiknað væri þá yrði talnarunan löng.
Hvert skal halda?
Þótt á móti blási á vellinum þessa dagana, þá dylst engum að knattspyrnan er og verður bæjarsómi, en til þess að styðja við sjálfboðastarf Knattspyrnufélagsins, aðbúnað ungra sem eldri iðkenda og til þess að viðhalda þeirri jákvæðu ímynd og stolti sem knattspyrnan hefur skilað samfélaginu, þarf að gera betur. Nú eru liðin 16 ár frá opnun Akraneshallarinnar, sem nýst hefur vel, en á þeim tíma sem liðinn er hefur knattspyrnuvöllurinn, mannvirkin og félagsaðstaðan á Jaðarsbökkum rýrnað að gæðum og útliti. Á sama tíma hafa keppinautar okkar víða um land bætt stöðu sína samhliða því að hafa rýmri auraráð til reksturs. Það verður eflaust áfram þungur róður að keppa við stærri félög um fjármuni, en aðstaðan verður að taka breytingum þannig að félagsheildin verði í anda þeirra sem áður gerðu garðinn frægan. Afrek á íþróttavellinum gerast ekki fyrir tilviljun heldur þrotlausa vinnu og ástundun. Til þess að vel takist til þarf aðstöðu sem styður við félagsvitund og áhuga allra. Aðstaðan á Jaðarsbökkum mætir ekki þeim kröfum. Til þess að stuðla að áframhaldandi sterkri ímynd Akraness sem íþrótta- og knattspyrnubæjar er bæjarfélaginu og íþróttahreyfingunni brýnt að sameinast um bætta aðstöðu knattspyrnufélagsins á Jaðarsbökkum. Að glata sterkri ímynd og öflugu æskulýðs- og afreksstarfi er ekki valkostur.
Gísli Gíslason
Gunnar Sigurðsson
Haraldur Sturlaugsson
Jón Gunnlaugsson
Þröstur Stefánsson.