Enn um fyrirætlanir vindorkuveravíkinga

Gunnlaugur A Júlíusson

Eftir kynningarfund um fyrirhugaða uppbyggingu vindorkuvera á Vesturlandi, sem haldinn var í Borgarnesi þann 19. september sl., hef ég reynt að setja mig betur inn í ýmsar forsendur þeirra tröllauknu fyrirætlana sem kynntar voru á fundinum. Samkvæmt þeim var ekki að sjá annað en að erlend fyrirtæki hafi sett sér þau markmið að ná undirtökum í orkuframleiðslu á Íslandi með því að reisa allt að 1000 risavaxin vindorkuver um heiðar og hálsa vítt og breitt um landið. Afköst vindorkuveranna eiga að minnsta kosti að vera jafnmikil, ef ekki meiri, en allra þeirra virkjana sem reistar hafa verið á Íslandi til þessa. Þá eru ótaldar hugmyndir um risavaxna vindorkuversgarða á hafi úti. Það mun ekki aðeins þýða óafturkræfa breytingu á ásýnd landsins heldur einnig óafturkræfa breytingu á eðli orkuframleiðslu í landinu. Fram til þessa hefur það verið gæfa Íslendinga að grunnfyrirtæki í orkuframleiðslu í landinu og dreifingu orkunnar hafa að langmestu leyti verið í eigu ríkis og sveitarfélaga. Þannig hefur bæði verið tryggt að verðmyndun orkunnar taki mið af almannahagsmunum og arður fyrirtækjanna hafi runnið til notanda, annað hvort beint eða óbeint. Það myndi margur vilja vera í þessari stöðu í okkar nágrannalöndum þegar almenningur þar stendur frammi fyrir margföldun orkuverðs á örfáum misserum.

Afla eins mikilla upplýsinga og frekast er unnt

Að mínu mati er það mikilvægt fyrir alla þá, sem láta sig þetta mál varða á einn eða annan hátt, að kynna sér þau eins vel og hægt er meðan tími er til. Nauðsynlegt er að fá innsýn inn í hvað fyrrgreindar fyrirætlanir fela í sér og hvaða afleiðingar þær geta haft fyrir land og lýð áður en almenningur í landinu stendur frammi fyrir orðnum hlut. Í því sambandi er eðlilegt að læra af reynslu annarra í þessum efnum eins og fært er áður en það er um seinan. Til að mynda má ekki líta fram hjá hver áhrif gjörbreyttrar ásýndar landsins gætu haft á ferðaþjónustu í landinu á marga vegu. Hún hefur á nýjan leik vaxið á örskömmum tíma í að vera ein af öflugustu og mest gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum landsins.

Nýlega átti ég þess kost að taka þátt í alþjóðlegum fjarfundi um þetta efni. Fulltrúar frá Norður Írlandi, Shetlandseyjum, Kanada, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi tóku þátt í fundinum. Á honum voru haldin þrjú erindi. Í þeim var fjallað um almenn áhrif stórfelldrar uppbyggingar vindorkuvera á raforkuverð, samskipti fyrirtækja sem byggja upp vindorkuver við nærsamfélagið, og mengun frá vindorkuverum.

Á fundinum kom margt áhugavert fram sem varðar samskipti vindorkufyrirtækja við sveitarstjórnir á undirbúningstíma framkvæmda og hvernig ýmislegt breytist þegar öll leyfi eru í höfn. Meðal annars var tiltekið að framkvæmdir hafa yfirleitt orðið umfangsmeiri og mannvirki stærri en lagt var upp með í upphafi þegar fyrirætlanir voru kynntar fyrir almenningi.

Samspil vindorkuvera og vatnsaflsvirkjana

Fram kom að grundvallarforsenda fyrir rekstri vindorkuvera er að það sé tryggur aðgangur að raforku frá vatnsorkuverum þannig að hægt sé að tryggja kaupendum stöðuga orku. Orku þá sem vindorkuver framleiða er ekki hægt að geyma með núverandi tækni. Það þýðir að það verða að vera til staðar vatnsorkuver sem bakhjarl fyrir vindorkuverin sem tryggir aðgengi að orku þegar vindorkuverin ná ekki að afgreiða umsamda orku vegna hægviðris. Tölulegar upplýsingar frá Svíþjóð hafa leitt í ljós að nýtingartími vatnsorkuvera, sem eru í hlutverki slíkra bakhjarla, er einungis um 30-50% af því sem mögulegt væri ef þau seldu raforkuna án aðkomu vindorkuvera. Það sem eftir er ársins afla þau ekki tekna. Það þýðir einfaldlega hærra raforkuverð þegar fjárfesting í vatnsorkuverum, sem eru einungis nýtt sem bakhjarlar vindorkuvera, nýtist einungis hluta ársins. Því stærri hluti heildarraforkuframleiðslu sem framleidd er með vindorkuverum, því meir hækkar almennt raforkuverð af þessum sökum.

Á það má minna í þessu sambandi að á sumrin, þegar hægviðri er oft mest en úrkoma mest, þá safna hefðbundin vatnsorkuver vatnsforða (orku) í uppistöðulón til að nýta yfir veturinn þegar úrkoma er minni.

Mengun vegna veðrunar örplasts

Rannsóknir hafa leitt í ljós að eftir því sem spaðar vindorkuvera eru lengri, því hraðar slitna þeir og endingartími þeirra styttist. Slit á spöðum vindorkuvera eykst í veldisvexti eftir því sem spaðarnir verða lengri. Hraði ystu enda á löngum spöðum er mun meiri en á styttri spöðum og þar af leiðir að þeir slitna meira. Úrkoma svo sem rigning, snjókoma og hagl hefur einnig veruleg áhrif á veðrun spaðanna. Efni það sem veðrast úr spöðum vindorkuvera kallast Bisphenol A sem er epoxy efni. Það er svo eitrað að líkur hafa verið leiddar að því að eitt kíló af slíku efni getur gert 10 billjón lítra vatns ónothæft. Það hefur meðal annars veruleg áhrif á allar vatna- og sjávarlífverur (t.d. lax og silung) ásamt því að það hefur m.a. áhrif á frjósemi lífvera með heitt blóð (mannsins, húsdýra og villtra dýra).

Mikil umræða er í Noregi um þessi mál og ber mikið á milli aðila. Um 400 vindorkuver eru í Noregi þar sem þvermál spaðanna er meira en 130 metrar. Það hafa verið færð rök fyrir því að frá þessum 400 vindorkuverum veðrist um 24,8 tonn af örfíberefni á ári. Á sama tíma fullyrðir NORWEA (Samtök vindorkuvera í Noregi) að veðrunin frá spöðum vindorkuvera nemi einungis 150 gr á ári af hverju vindorkuveri eða samtals um 60 kg á ári. Þarna ber mikið á milli en óumdeilt er að veðrunin er til staðar. Farið er að gefa mengun frá vindorkuverum, sem staðsett eru á hafi úti, meiri gaum en áður. Örplastmengun í hafinu veldur vaxandi áhyggjun svo og áhrif þeirra gríðarlegu háspennukapla, sem liggja frá vindorkuverum neðansjávar, á lífríki sjávarins. Nýlega var vart við mengunaráhrif í kúm á vesturströnd Jótlands sem talin er tengjast vindorkuverum úti fyrir ströndinni.

Hver ber ábyrgð á hreinsun landsins að líftíma vindorkuvera loknum?

Eitt af því sem farið var sérstaklega yfir á fyrrgreindum fundi var að reynslan sýnir, að eftir því sem vindorkuverin eru hærri og þvermál spaðanna meira, því styttri verður líftími þeirra. Rekstrarlegur líftími stærstu vindorkuvera virðist þannig víða vera kominn niður í 12-15 ár. Í Noregi var gerð fyrir nokkrum misserum sérstök könnun á eignarhaldi vindorkuvera, m.a. til að ganga úr skugga um hver væri ábyrgur fyrir hreinsun landsins að loknum rekstrartíma þeirra. Fram kom að ekki var mögulegt að fá upplýsingar um eignarhald á um 40% norskra vindorkuvera, fyrst og fremst vegna tíðra og að því virtist skipulegra eigendaskipta. Slóðin endaði yfirleitt í skattaparadísum hér og þar í heiminum. Í mörgum tilvikum reyndist ekki heldur mögulegt að ná fram upplýsingum um hver var í forsvari fyrir fyrirtækin. Í því sambandi kom fram að landeigandi er í hverju tilviki ábyrgur fyrir hreinsun þeirra landsvæða sem lögð hafa verið undir vindorkuver að líftíma þeirra loknum. Það segir sig sjálft að einstakir landeigendur, sem hafa leigt land undir slíkar framkvæmdir, hafa enga möguleika á að takast á við slík risaverkefni. Mikil óvissa ríkir því um hver komi til með að vera ábyrgur fyrir hreinsun landsins, eða verður það yfir höfuð nokkur? Eitt er víst að eftir munu standa ónothæfir vindorkurisar, kannski um óráðna framtíð. Á þeim tíma sem kynning og undirbúningur stendur yfir eru viðkomandi landeigendur aftur á móti iðulega í hlutverki talsmanna vindorkufyrirtækja, þar sem þeir róma kosti þeirra og þau áhrif, sem væntanlegar framkvæmdir komi til með að hafa fyrir nærsamfélagið. Á því stigi undirbúningsins er yfirleitt mikið talað um græna orku og nauðsyn þess að bregðast við loftslagsbreytingum af ábyrgð.

Að lokum

Íslendingar standa frammi fyrir nýjum veruleika þegar sett er upp heildarmynd af hinum gríðarlegu fyrirætlunum erlendra vindorkufyrirtækja um uppbyggingu risavaxinna vindorkuvera vítt og breitt um landið, og jafnvel á hafi úti. Nefnt hefur verið að það þurfi að reisa allt að 1000 vindorkuver, sem hvert og eitt getur verið 250 – 300 metra hátt, til að geta uppfyllt fyrirætlanir stjórnvalda um svokölluð orkuskipti. Sá nýi veruleiki, sem myndi skapast ef þær fyrirætlanir myndu ganga eftir, mun varða ásýnd landsins til allrar framtíðar. Hann varðar einnig áhrif mengunar af örfíberefnum sem veðrast frá vængjum vindorkuveranna, í hve miklu magni þau dreifast um landið og hvaða áhrif þau hafa á lífríkið. Hann varðar raforkuverð í landinu og hvaða áhrif breyttur veruleiki muni hafa á lífskjör almennings og stöðu fyrirtækja í landinu. Hver verða áhrif þeirra tröllauknu mannvirkja, sem fyrirhugað er að reisa um allt land, á fuglalíf í landinu? Þessi nýi veruleiki myndi síðast en ekki síst varða áhrif breyttrar ásýndar landsins til allra hluta á aðrar atvinnugreinar. Þar má til dæmis nefna stöðu Íslands sem matvælaframleiðslulands og stöðu Íslands sem ferðamannalands til allrar framtíðar. Það hefur verið haft á orði að oft sé betra að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Það skyldi þó ekki eiga við í þessu sambandi?

 

Gunnlaugur A Júlíusson