Enn um E efnin allt um kring

Karen Jónsdóttir

Þetta er fjórði pistilinn um E efni og ætla mætti að þá væri búið að fjalla um alla flokkana. En eins og númerin segja til um þá erum við rétt að byrja því flokksheitin í dag fara frá 100 í 1500. Já, kæri lesandi, E efna-flóran er óhuggulega mikil og maður spyr sig hvernig fórum við að hér áður fyrr, hvernig var hægt að baka kökur eða brauð án allra þessara efna? Þetta var allt hægt en einungis á þeim forsendum að bakað væri fyrir næsta nágrenni og matvaran borðuð á næstu dögum. Með auknum kröfum um lengri líftíma, ákveðið útlit, áferð og lægra verð þá hefur matvælageirinn brugðist við kröfum neytandans. En því miður þá eru lausnir matvælageirans heldur neikvæðar fyrir umhverfi og menn. Lausnirnar felast oft í aukinni eiturefnanotkun og svo E efna- og fylliefna notkun. Fæstir vilja kókomjólk sem þarf að hrista mjög mikið og fæstir mega vita að maionesið inniheldur vatn en það er akkúrat það sem þessi flokkur E efna gerir, það er að binda saman efni sem ekki eiga saman af náttúrulegum ástæðum. Ef við kíkjum á vef MAST þá segir um E efna flokkinn E400 til E499:

„Bindiefni, ýruefni, þykkingarefni o.fl. Bindiefni er flokksheiti sem lengi hefur verið notað sem samheiti fyrir efnasambönd sem hafa ýmis áhrif á stöðugleika matvæla og þá um leið útlit þeirra. Með nýjum reglum um aukefni var flokknum bindiefni skipt upp í marga aukefnaflokka sem skýra betur hver tilgangur með notkun efnanna er. Hins vegar er hætt við að neytendur eigi erfitt með að skilja sum þessara heita þar sem þau eru ýmist ný af nálinni eða tengd tæknilegum þáttum í matvælaframleiðslu. Nú er litið á bindiefni (stabilizer) sem þau efni sem koma í veg fyrir að efnisþættir í vöru eins og smjörlíki skilji sig eða að botnfall myndist í kakómjólk. Ýruefni (emulsifier) eru notuð þegar blanda þarf saman vatni og fitu eins og við framleiðslu á majonesi og þykkingarefni (thickener) eru efni sem binda vökva og þykkja þannig vörur eins og sultur, hlaup og marmelaði. Hleypiefni (gelling agent) hafa svipaða eiginleika.

Ef við kíkum á síðuna http://www.food-info.net/uk/e/e400.htm   þá kemur í ljós að þessi flokkur E efna inniheldur 63 mismunandi heiti en einungis 22 eru unnin úr náttúrulegum efnum.  Helsta náttúrulega þykkingarefnið eru fjölsykrur sem ýmist eru unnar úr þörungum, trjákvoðu eða með hjálp baktería.  En þegar hvert og eitt verksmiðjuunna efnið er skoðað kemur í ljós að flest efnin hafa það sameiginlegt að aukaverkanir séu ekki þekktar ef þeirra er neytt í matvælum. En hvað þá ef þeirra er neitt með beinni inntöku. Myndu þá koma í ljós mögulegar aukaverkanir? Ítrekað eru einstaklingar að fá ofnæmisviðbrögð við neyslu á hinum ýmsu matvælum án þess að geta rakið orsökina því ekkert af innihalds efnunum hefur aukaverkanir svo vitað sé!  Einnig situr eftir sú spurning hvort þessi efni séu nægjanlega vel rannsökuð og hvaða langtíma áhrif þau hafa á okkur, því eins og á vef MAST segir þá eru sum þeirra ný!

Því miður þá leggja allt of margir traust sitt á matvælageirann; „auðvitað er þetta rannsakað nægjanlega vel annars væri þetta ekki í notkun“.  Nei gott fólk, staðreyndirnar tala sínu máli. Verið er að endurskoða notkun á hinum ýmsu E efnum því þau liggja undir grun um að hafa neikvæð áhrif á heilsuna. Verksmiðjuunnin litarefni sem hafa verið í umferð síðastliðin ár eru komin á bannlista. Þetta gefur sterklega í skyn að verksmiðjuunnin E efni eru ekki traustsins verð. Tökum ábyrgð á eigin heilsu, lesum innihaldslýsingar, kynnum okkur málin og síðan en ekki síst ef þú vilt fara öruggu leiðina borðaðu þá lífrænt vottað!

Undirrituð mun láta þetta duga um E efni að sinni, komin með vott af óþoli!

 

Lífrænar kveðjur,

Kaja