Enn af „samkeppnisást“

Halldór Jónsson

Á dögunum ritaði ég grein í Skessuhorn um mögulega endurkomu Apótekarans í viðskiptalífið á Akranesi og meinta samkeppnisást forráðamanna fyrirtækisins Lyfja og heilsu sem á og rekur Apótekarann.

Þrátt fyrir að ekki hafi mikið vatn runnið til sjávar á Akranesi frá því að greinin birtist hafa tveir úrskurðir og dómar litið dagsins ljós sem rétt er að vekja athygli á.

„Samkeppninsástin“ í Mosfellsbæ

Þann 18. október ógilti Samkeppniseftirlitið fyrirhugaðan samruna Lyfja og heilsu hf. og Opna ehf. sem á og rekur Apótek MOS í Mosfellsbæ. Apótek MOS var stofnað í júlí 2016 og hóf samkeppni við verslun Apótekarans í Mosfellsbæ. Fram kom í fréttum á þeim tíma að hið nýja apótek bauð ýmsar nýjungar í þjónustu við viðskiptavini, sem vel var tekið. Hófst þá gamalkunnug atburðarás, ef marka má úrskurð Samkeppniseftirlitsins. Framlög til markaðsmála Apótekarans í Mosfellsbæ margfölduðust og beindust auðvitað öll að því að koma í veg fyrir viðskipti við Apótek MOS. Að lokum keypti Lyf og heilsa Apótek MOS og vildi í framhaldinu sameina fyrirtækin og kom með því í veg fyrir samkeppni á lyfjamarkaði í Mosfellsbæ. Rétt er að nefna að íbúar í Mosfellsbæ voru þann 15. apríl 10.730 talsins. Sá fjöldi dugði ekki að mati forráðamanna Lyfja og heilsu til þess að standa undir rekstri tveggja lyfjaverslana. Íbúafjöldi á Akranesi var á sama tíma 7.299 talsins. Þar telja sömu menn kjöraðstæður til aukinnar samkeppni. Ég læt lesendum eftir að meta trúverðugleika málsins.

Dómur Hæstaréttar

Hæstiréttur Íslands dæmdi, sama dag og Samkeppniseftirlitið birti sinn úrskurð, Lyf og heilsu hf. til þess að greiða Apóteki Vesturlands 4,5 milljónir króna í bætur, auk vaxta og málskostnaðar vegna tjóns af völdum samkeppnisbrota fyrrnefnda fyrirtækisins á sínum tíma og getið var um í fyrri grein minni. Lauk þar áralöngum, kostnaðarsömum og tímafrekum málaferlum vegna margvíslegra og alvarlegra brota Lyfja og heilsu. Þegar horft er á málið í heild vekur það óneitanlega athygli að Lyf og heilsa þarf að greiða mun minni bætur til þess fyrirtækis er það braut gegn heldur en sektin sem fyrirtækiinu var gert að greiða til ríkissjóðs vegna sömu brota.

Hver verður lokadómurinn?

Eins og áður sagði læt ég lesendum um að meta trúverðugleika eigenda Apótekarans sem nú hyggja á endurkomu í viðskiptalífið á Akranesi. Ég minni hins vegar lesendur á að það er í þeirra höndum sem neytenda að fella lokadóminn í þessari löngu sögu. Dómurinn felst í því hvar þeir kjósa að eiga viðskipti, verði af opnun Apótekarans.

 

Halldór Jónsson

Höfundur er áhugamaður um frjálsa samkeppni