Enginn á neitt gefið í stjórnmálum

Ásta Möller

Ástæðan fyrir því að þessar línur eru settar á blað er grein sem birtist í Skessuhorni 30. mars sl. Greinin er frá góðum og gildum sjálfstæðismanni í Norðvesturkjördæmi, Óðni Sigþórssyni. Í greininni tók Óðinn að sér að vera sár fyrir hönd vinar síns, Haraldar Benediktssonar, mætum alþingimanni og núverandi oddvita Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann er móðgaður vegna þess að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Það þarf vart að taka það fram að Haraldur er vel virtur þingmaður og hefur staðið sig með prýði. En hann, ekki frekar en nokkur annar stjórnmálamaður, á nokkuð gefið í stjórnmálum, hvorki sæti né forfrömun. Þar ráða umbjóðendur hans fyrst og fremst.

Hvað er eðlilegra en að metnaðarfullur stjórnmálamaður sem hefur vakið athygli fyrir áræðni, glæsileika, dugnað og hugmyndaríki kalli eftir stuðningi flokksfélaga sinna og bjóði sig fram til forystu á lista í sínu kjördæmi.  Að auki hefur stjórnmálamaðurinn verið valinn og notið trausts samflokksmanna sinna á þingi til að gegna ráðherraembætti á fimmta ár og verið kjörinn varaformaður flokks síns af trúnaðarmönnum flokksins á æðstu samkomu hans, landsfundi Sjálfstæðisflokksins.  Ég velti því fyrir mér hvort einhver hefði við þessa ákvörðun ráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins að athuga væri viðkomandi karl en ekki kona. Spyr sá sem ekki veit, en sem grunar eitt og annað. Ef rétt er þá eru þetta úrelt viðhorf sem ekki eiga heima í Sjálfstæðisflokknum.

Reyndar hefði ég staldrað við og undrast það ef varaformaður flokksins, karl eða kona, hefði ekki sóst eftir forystusæti í kjördæmi sínu. Þar mætti t.d. líta til þess að það er regla fremur en undantekning að varaformenn flokka sækist eftir forystusæti í kjördæmi sínu eða þeim stjórnmálavettvangi sem hann hefur kosið sér. Þarf ekki margra vitnanna við, lítið bara í kringum ykkur, til allra flokka.

Í grein Óðins kemur fram að Haraldur hefði „ákveðið af drengskap sínum að víkja til hliðar og lýsti stuðningi við að Þórdís Kolbrún yrði ráðherra í ríkisstjórn“ þegar sú staða kom upp eftir síðustu kosningar.  Það er gott og blessað. Ég vil hins vegar benda á að hefðin að velja fyrsta þingmann kjördæmis í ráðherraembætti hefur látið undan síðustu ár. Leitað hefur verið eftir hæfu fólki til að gegna þessum embættum sem á sæti neðar á lista og jafnvel utan þings.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn fer í ríkisstjórn er það formaður flokksins sem gerir tillögu til þingflokksins um val á ráðherra.  Hin síðari ár hafa sjónarmið eins og fjölbreytileiki, sérstakir eiginleikar og dugnaður viðkomandi fengið aukið vægi. Því ber að fagna enda mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að höfða til breiðs hóps kjósenda og standa fyrir ferskleika og fjölbreytni í hugmyndum og mannavali.

Í mínum huga er mikilvægt að veita varaformanni Sjálfstæðisflokksins brautargengi til að leiða lista flokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar næsta haust. Það er mikilvægur aukabónus fyrir flokkinn að þá myndi kona leiða listann.

 

Ásta Möller

Höf. er fyrrverandi þingmaður Reykvíkinga fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og núverandi kjósandi í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar