Endurnýjað umboð

Haraldur Benediktsson

Ég óska eftir stuðningi Sjálfstæðismanna í að leiða áfram framboð Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Undanfarin ár hef ég verið 1. þingmaður kjördæmisins og gert mér far um að vera leiðandi í þingmannahópnum þannig að við séum samstillt í að tala fyrir hagsmunum íbúanna þar. Í nánu samstarfi við íbúa og ekki síst við sveitarstjórnarfólk höfum við áorkað mörgum og mikilvægum verkefnum. Til hagsbóta fyrir fólkið, fyrir byggðina og landið allt.

Það er freistandi að telja upp verk og áfanga sem náðst hafa en pólitíkin er líka kraftur liðsheildar og samvinnu. Enginn vinnur allt einn, enginn einn getur þakkað sér allt. Til að þoka áfram málum þarf að gera málamiðlanir og afla sjónarmiðum stuðnings. Það er kúnst hins mögulega sem ég sannarlega er tilbúinn að glíma við áfram.

Á tíma mínum á Alþingi, allt frá 2013, get ég ánægður og þakklátur litið til baka og sagt – þessu hef ég áorkað og barist fyrir.

Á þessu kjörtímabili hef ég leitt nokkur verkefni sem endurspegla áherslur mínar. Ef tel aðeins nokkur þeirra vil ég nefna; Vinnu vegna jöfnunar dreifikostnaðar raforku á milli sveita og þéttbýlis. Hraðaði uppbyggingu á 3ja fasa rafmagni.

Sem fyrr hef ég leitt mesta byggðamál seinni tíma, sem er ljósleiðarvæðing fjarskipta í sveitum. Verkefni sem skilaði meiri atvinnumöguleikum í dreifðari byggðum og betri búsetuskilyrðum, meiri lífsgæðum og hærri ráðstöfunartekjum íbúa dreifðra byggða.  Þetta er staðfest í könnun sem Fjarskiptasjóður gerði á verkefninu „Ísland ljóstengt“.

Ég leiddi vinnu sem mótar nú nýja nálgun að umræðu um framtíð landbúnaðar á Íslandi og beitti mér fyrir lagabreytingum um skattlagningu á sölu bújarða til að auðvelda kynslóðaskipti.

Ég lagði grunn að næsta stórverkefni í fjarskiptum á Íslandi – með það verkefni í sjónmáli að ráðast næst í sókn til bættra fjarskipta í byggðakjörnum sem ekki hafa enn fengið endurnýjaða fjarskiptainnviði. Því verki vil ég vinna að.

Ég hafði jafnframt forystu um að styðja við sókn til meiri fjölbreytni og efla Grundartangasvæðið.

Það hefur verið rauður þráður að tryggja að framkvæmdir við Sundabraut séu alltaf hluti af öllum aðgerðum í samgöngumálum.  Því hef ég fylgt eftir við afgreiðslu þingsins, m.a. við gerð höfuðborgarsáttmála og stofnun samgöngufélags.

Ég hef lagt ríka áherslu á að þjónusta og rekstur hjúkrunarheimila sé í því horfi að sómi sé að og lagt alla áherslu á í ríkisfjármálum að áætlanagerð og nýting fjármuna sé markviss og uppbyggileg.

Þessi upptalning er ekki tæmandi – en er þráðurinn í pólitík sem ég vil standa fyrir. Þessi verk voru ekki unnin af mér einum – heldur með því að leiða saman fólk til verka.

Þegar ég horfi til næsta kjörtímabils verður reynsla mín mesta aflið. Aflið sem þarf til að gera enn betur.

Fyrir mér er grundvallarmál að aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu sé sett í forgang í dreifðum byggðum landsins.

Glíman við festu í að manna heilsugæslustöðvar er þar lífsgæðamál.  Festan í að eiga aðgengi að lækni sem þekkir til – hefur því miður gefið eftir.

Að allir framhalds- og háskólar landsins eigi að vera aðgengilegir fólki hvar sem það býr. Ekki síst Háskóli Íslands. Á Covid tímum hefur á því sviði margt verið gert sem mun fylgja okkur lengi og verið til framfara, ekki síst með leiftursókn í notkun fjarfundatækni.

Vegagerð er alltaf stórmál í kjördæmi eins og NV-kjördæmi.  Einn angi vegagerðar eru tengivegir sveitanna.  Af miklum umræðum um Borgarlínu, samstilltu samgönguverkefni ríkis og sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins, vil ég draga fram umræðu um „Sveitalínu“.  Sveitalínan er af sama meiði. Er ekki rétt að Sveitalínan verði nýsköpun í átaki um endurbætur á fáfarnari tengivegum sveitanna? Sveitalínan er verkefnið að sækja hratt fram í klæðningu vega sem íbúar sveitanna nýta daglega til að sækja nám og stunda vinnu. Sveitalínan krefst nýrrar nálgunar í vegagerð og fjármögnun hennar.

Með reynslu og ekki síst því að hafa sýnt getu til að  náð árangri, klárað verkefni sem máli skipta – sæki ég um umboð ykkar til áframhaldandi vinnu sem leiðtogi listans.

Ég hef verið oddviti lista Sjálfstæðisflokksins með skýrt umboð eftir prófkjör 2016. Leitt listann í tvennum kosningum og oddviti þingmanna kjördæmisins, sem 1. þingmaður þess.  Það sæti vil ég verja. Takist það ekki er ómögulegt að nýr oddviti hafi fyrrverandi oddvita i neðri sætum listans.

 

Haraldur Benediktsson

Höfundur er 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis og óskar eftir stuðningi til þess áfram.

 

 

Fleiri aðsendar greinar