Eldhúsdagsumræður og megrunarkúrar

Pálína Jóhannsdóttir

Hvað eiga stjórnmál í dag sameiginlegt með megrunarkúrum eða aðhaldi? Þessi samlíking kom upp í huga minn þegar ég horfði á eldhúsdagsumræður. Umræðurnar lituðust nánast að öllu leyti af komandi kosningabaráttu. Loforðin endurvörpuðust úr einum munni í annan eins og loforðabjúgverpill væri á fleygiferð um sal Alþingis. Það var áberandi að tveir stærstu flokkarnir samkvæmt skoðanakönnunum, Sjálfstæðisflokkur og Píratar, skáru sig örlítið úr.

Sjálfstæðismenn stóðu kokhraustir í pontu, fannst þeim hafa unnið verkin vel og væru á góðri leið. Boðuðu bara blússandi ferð áfram. Þingmenn Sjálfstæðisflokks aðhyllast ekki megrunarkúra eða skyndilausnir, því allt gengur vel ef bara sumir sleppa því að borða því þá er meira fyrir suma. Þeir verða seint saddir en verði þeir sælir og glaðir henda þeir auðmjúkir af gjafmildi og rausnarskap brauðmolum í alþýðuna og peningum í hagkerfið. Þannig halda þeir hagkerfinu uppi og það ber að launa þeim. Þeir vilja því ekki þrengja að sínum með gjöldum eða hærri sköttum á hátekjufólk. Alþýðan skal bíða eftir þeirra náð og miskunn og þá munu brauðmolarnir rata í ginið.

Píratar voru nánast orðlausir og í auðmýkt var þakkað fyrir síendurtekið hvað margir hefðu lýst því yfir í skoðanakönnunum að þeir væru alveg til í að fara eftir þeirra megrunarkúr. En það er ekkert furðulegt að hafa áhuga á að fara eftir megrúnarkúr sem hljómar eins og þú þurfir eiginlega ekki að gera neitt sérstakt og megir jafnvel gera það sem þér hentar. Að mörgu leyti óljós megrunarkúr sem er enn á hugmyndastigi, bara örfáir sem kunna hann og virðast vera andlit hans út á við. Síðan á eftir að koma í ljós ef satt reynist og fleiri Píratar koma inn á Alþingi hverjir það eru, hvort þau geti komið sér saman um hvernig kúrinn er og hvað ætli margir geti farið eftir honum og mun hann henta öllum?

Framsóknarmenn froðufelldu yfir besta kúrnum, kúrinn virkar ef allir trúa á hann, efast aldrei um árangur þó að blákaldar staðreyndir blasi við. Reyndar var einn og einn Framsóknarmaður sem ræddi um hvað gæti gerst í kjölfarið á besta kúrnum, þ.e. þegar besti kúrinn og allir sem á hann trúa myndu horfast í augu við staðreyndir og sjá hvað þyrfti í raun og veru að gera og vinna að til að allir gætu nú haft það gott. Líklega þurfa þeir Framsóknarmenn sem halda því fram að átta sig á því fljótlega að hugmyndir þeirra um skynsamlegt aðhald sem gæti hentað öllum er hugmyndafræði jafnaðarmanna og á enga samleið með besta kúrnum. Það liggur í augum uppi að kosningabarátta þeirra líkt og áður verður hlaðin popúlisma – loforðum til að ganga í augu kjósenda.

Björt framtíð, Samfylkingin og Vinstri grænir reyndu að gera ríkisstjórnarflokkunum grein fyrir því af hverju við værum að fara að kjósa ári fyrr en stóð til. Þau rifjuðu upp að besti kúrinn virki alls ekki fyrir alla því þegar forystumaður besta kúrsins fylgir ekki þeim leikreglum sem eru í landinu og sér hag sinn í því að komast undan því að borga í kökusjóð ásamt nærri 600 öðrum þá væru sumir sem fengju bara enga köku eða a.m.k minni sneið en þeir þyrftu. Samfylkingin byggir sína hugmyndafræði á jöfnuði og jafnrétti. Bæði Vinstri grænir og Björt framtíð hafa einnig svipaða hugmyndafræði í sinni stefnu.

Svo skjótast nú flokkar upp eins og gorkúlur að hausti, umvafnir í sama mygli og aðrir flokkar, nærast á öðrum flokkum eins og sníkjudýr þar sem hugmyndafræði rótgróinna flokka er prentuð á glanspappír og popúlisminn allsráðandi. Viðreisn  – frjálshyggjuafl með kosningaslagorðið almannahagsmunir framar sérhagsmunum, er til meiri tvískinnungur í einu kosningaslagorði. Viðreisn er nýr megrunarkúr og virðist ætla að lofa kolvetnalausu mataræði með fullt af kolvetnum. Það er ekki bæði sleppt og haldið.

 

Af hverju jafnaðarmenn? Af hverju jafnaðarstefna? Af hverju Samfylkingin?

Græðgi og óráðsía fylgir frjálshyggjunni hvar sem hún er framkvæmd. Hún nærir auðvaldið og elur á stéttaskiptingu og hellings meðvirkni og þó þú eigir ekki nóg, þá áttu bara að lúkka eins og þú eigir nóg. Jafnaðarmenn hafna græðgi og stéttaskiptingu. Jafnaðarmenn fylgja engri sérhagsmunastétt. Jafnaðarstefna hefur það að markmiði að tryggja að allir hafi það sem þeir þurfa, þó þeir fái ekki endilega allt það sem þeir krefjast. Samfylkingin byggir á traustum grunni og hefur á að skipa fólki innan sinna raða sem trúir á að velferðarsamfélag sé raunhæfur möguleiki þegar jöfnuður er hafður að leiðarljósi við skiptingu á kökunni. Engar skyndilausnir, enginn popúlismi kosningaloforða, engir megrúnarkúrar eða græðgi… þá fá allir sneið en enginn of mikið!

 

Pálína Jóhannsdóttir.

Höfundur skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar