Eitruð blanda: 97% á móti 3%

Steinar Berg Ísleifsson

Á íbúafundi fyrir Vesturland sem haldinn var í Menntaskólanum í Borgarnesi árið 2010 var lögð sérstök áhersla á að tenging Vesturlands og Suðurlands með bundnu slitlagi á Uxahryggjaleið væri mikilvæg samgöngubót. Ég hygg að þessi áhersla sé enn ríkjandi hjá íbúum svæðisins. Ferðamálasamtök Vesturlands hafa og margítrekað mikilvægi þessarar vegtengingar, sem liggur um 60 km. frá Borgarfjarðarbraut (miðjum Borgarfirði) eftir Lundarreykjardal, um Uxahyggi og Þjóðgarðinn í Þingvöllum. Ákveðið var í samgönguáætlun árið 2011 að vinna að þessari vegagerð, leggja bundið slitlag í áföngum og fullklára á árunum 2019/20.

Aðeins til að skýra verkefnið og stöðuna: Búið er að leggja bundið slitlag frá vegamótunum Borgarfjarðarbrautar að Brautartungu í Lundarreykjardal og frá Uxahryggjarvegamótum að Þingvöllum. Eftir á að leggja bundið slitlag frá Brautartungu að Uxahryggjarvegamótum og innan Þjóðgarðsins á Þingvöllum.

Í samgönguáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi hefur sú breyting átt sér stað að framkvæmdin frá Brautartungu að Uxahryggjarvegamótum er færð til 2024/28 en vegagerðin innan Þjóðgarðsins á Þingvöllum, tengingin við Þingvallaveg, er ekki að finna í áætluninni.

Rökin eru næg

Helstu forsendur frá sjónarhorni Vestlendinga fyrir endurbótum og lagningu bundins slitlags á umrædda leið sem í daglegu tali er nefnd Uxahryggjaleið, eru:

  • að vegalengdin frá miðju Vesturlandi yfir til Þingvalla verður 60 km greiðfær, heilsárs leið sem tengir saman þá landshluta sem næst liggja höfuðboragarsvæðinu.
  • í stað þess að beina allri umferð af Vesturlandi til Suðurlands eftir Vesturlandsvegi í átt til Reykjavíkur er hægt að þvera landið og þannig er leiðin til Þingvalla 60 km í stað 110.
  • með fullklárun þessarar vegagerðar opnast möguleiki á dags- hringferðum út frá höfðuborgarsvæðinu til Vesturlands.
  • með fullklárun skapast samgöngubót fyrir íbúa og fyrirtæki beggja landshlutanna.
  • gott aðgengi opnast á afar fallega leið sem gefur ferðafólki möguleika á að njóta einstakrar námundunar við íslenska náttúru.
  • Uxahryggjarleið með bundnu slitlagi gæti leitt til þess að umferð léttist verulega á hámarksannatímum á Vesturlandsvegi.

Það stingur í augun, að fyrirliggjandi tillaga í samgönguáætun um að fresta lagningu vegarins frá Brautartungu að Uxahryggjarvegamótum og slá af vegagerð innan Þjóðgarðsins á Þingvöllum, gengur algjörlega á móti yfirlýstum forsendum áætlunarinnar.  Samgönguráðherra hefur klifað á því viðtal eftir viðtal að meginforsenda samgönguáætlunar sé; öryggissjónarmið. Mikilvægasti þáttur öryggis í samgöngugerð er að dreifa umferðinni. Það er einmitt aðall Uxahryggjarleiðarinnar. Náist það markmið má t.d. örugglega endurmeta gerð nýrra Hvalfjarðargangna sem koma til með að kosta gríðarlega mikið fé.

Vanræksla bætir upp vanrækslu

Í samgönguáætlun er falin ákvörðun um stórfellda endurbót á Vestfjörðum. Öll höfum við fylgst með deilunum og öll viljum við sjá góða vegi á Vestfjörðum.  En í samgönguáætlun er líka falin algjört ákvörðunar- og framkvæmdaleysi í samgöngum á Vesturlandi. Tölurnar tala sínu máli. Heildarkostnaður fyrsta áfanga fyrir það sem kallað er Vestursvæði er 17.880 milljarðar og skiptist þannig: Vesturland (Hvalfjarðarsveit, Borgarfjörður, Snæfellsnes, Dalir) 550 milljónir eða 3%. Vesfirðir 17.330 milljarðar eða 97%. Svakaleg slagsíða á útdeilingu fjármagns, sem hýtur að vekja upp spurningu. Er sanngjarnt að bæta vanrækslu samgöngumála  á Vestfjörðum upp með vanrækslu á Vesturlandi?

Uxahryggjaleið spannar tvö kjördæmi

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Vesturlandi undanfarið og hefur verið litið til þess að Uxahryggjaleið opni viðbótarmöguleika þegar hún kláraðist 2019/20 eins og gildandi samgönguáætlun gerir ráð fyrir. Það kemur því á óvart að eftir að verkið er hálfnað skuli vera uppi hugmyndir um að klára það ekki. Það eru einfaldlega öll rök fyrir því að ljúka því sem hafið er og engin rök fyrir því að gera það ekki. Málið snýst ekki um fjárhagslega getu heldur hugarfarslega. Staðreyndin er sú að að samgöngulegar áherslur og útdeilingar eru kjördæmapólitískar. Uxahryggjaleið spannar tvö kjördæmi. Eftir að hafa fylgt þessu máli í rúman áratug veit ég að áhuginn er margfallt meiri á Vesturlandi en Suðurlandi. Nú liggur fyrir í nýrri samgönguáætlun að ekki stendur til að klára þann hluta vegagerðarinnar sem eftir er á Suðulandi og fresta á Vesturlandi um 10 ár.  Frestunin gæti alveg eins verið upptakturinn af því að slá þann kafla alveg af því þau sjónarmið eru vel kunn að miklu betra sé að halda traffíkinni á Suðurlandi og óþarfi að tappa henni af til vesturs. Sunnlenskur ráðherra hefur séð um að brugga samgöngukokteilinn og vestlenskir fulltrúar íbúanna súpa meðvirkir á. Eða hvað?

 

Steinar Berg Ísleifsson.

Höfundur er ferðaþjónustubóndi í Fossatúni og áhugamaður um bættar vegasamgöngur á Vesturlandi.

Fleiri aðsendar greinar