Eitrað vísvitandi fyrir hafarnarpari og ungum þess í Hvalfirði?

Baldur Ketilsson

Óhagnardrifið verkefni í boði utanríkisráðuneytis, Hafrannsóknastofnunar og Rastar

 

Nú er sótt um leyfi til að sturta tugum tonna af vítissóda í Hvalfjörð. Er nú enn á ný verið að fífla ráðuneyti Íslands með faglegum fagurgala um enn eina litla saklausa rannsókn til að bjarga heiminum? Hafa ber í huga að Röst eru sömu aðilar og þekkja til í stjórnkerfinu og vita hvernig best er að koma sínum málum í gegn. Nú eru þeir að berja fast á dyrnar, hreinir á bak við eyrun! Ekki vantar fagurgalann um nauðsyn á verkefninu og að þetta muni ekki hafa neikvæð áhrif á vistkerfi Hvalfjarðar því hann er jú mest rannsakaði fjörðurinn á Íslandi og þá er allt í lagi.

Í umsókn um rannsóknarleyfi Rastar kemur eftirfarandi fram:

Röst sjávarrannsóknasetur sækir hér með um rannsóknarleyfi til lítillar frumrannsóknar á aukinni basavirkni sjávar í Hvalfirði í maí og júlí 2025. Rannsóknarleyfið er sótt til utanríkisráðuneytisins í samræmi við 9. gr. laga nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Í umsókn um rannsóknarleyfi Rastar vegna frumrannsóknar á aukinni basavirkni sjávar í Hvalfirði er sótt um leyfi til að dæla (uppleyst í vatni) 12 tonnum af Vítissóda (NaOH) reiknað yfir í Vítissóda í föstu formi. Þetta eru eins og 20 stórsekkir af áburði. Hins vegar hefur Hrönn Egilsdóttir, sjávarvistfræðingur og sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, greint frá því að um sé að ræða 30 tonn af Vítissóda. Það eru eins og 50 stórsekkir af áburði. Það vekur sérstaka athygli að þegar talsmenn þessarar litlu rannsóknar héldu fund með íbúum Kjósarhrepps var talað um möguleg 20 tonn. Samsvarar 33,3 stórsekkjum af áburði.

Eða er það sem mig grunar að þetta ósamræmi um magn Vítissóda fari eftir mögulegri stærð tilraunasvæðis (þynningarsvæðis) og því magn eiturs sem nota skal því í raun óskrifað blað í þessari litlu rannsókn? Þá mögulegt að það verði notað sem nemur 100 tonnum af óblönduðum Vítissóda, sem þau vilja að dælt sé vatnsblandað út í fjörðinn á 48-96 tímum og það á sama bletti til að ná þeim gildum sem þau vilja sjá? Það er ekkert sem segir að það verði ekki gert. Hvernig er hægt að ætlast til að íbúar við Hvalfjörð geti treyst Hafrannsóknastofnun þegar stofnunin veit ekki sjálf hversu mikið magn af Vítissóda þarf að nota til að ná settum árangri? Það er ekki nægjanlega skýrt hvort búið sé að taka tillit til áhrifa mögulegrar lagskiptingar sjávar á fyrirhuguðu tilraunasvæði á dreifingu og áhrifa Vítissóda.

 

Haförn sem á óðal sitt á þynningarsvæði því sem eitra á. Ljósm. Eyjólfur Matthíasson.

 

Hverjum er ætlað að fara með eftirlit?

Hafrannsóknastofnun hefur þegið yfir 100 milljónir króna í styrk frá auðmönnum fyrir þessari óhagnaðardrifnu mengunartilraun og á svo að hafa eftirlit með sjálfum sér, fyrir og eftir rannsóknir! Við skulum hafa í huga að þeir voru líka eftirlitsaðili með Running Tide. Hreint glæsilegt teymi þar á ferð! Það vekur einnig spurningar um val á efninu, í stað annarra mögulegra basa, svo sem magnesíumhýdroxíðs eða kalksteins (CaCO3). Rökstuðningur fyrir þessu vali er óskýr sem og vantar mat á þoli tegunda á svæðinu gagnvart Vítissóda, þar á meðal á smádýr, fiska og fugla. Verð á efni er mögulega ástæða.

Ekki er samræmi milli rökstuðnings í texta um mögulegt áhrifasvæði (1 km) og áhrifasvæði sem sýnt er á korti (200m). Hvað er hér í gangi? Af hverju er ekki rétt hlutfall af mögulegu áhrifasvæði inni á mynd sem fylgir umsókn til Utanríkisráðuneytisins? „Samkvæmt hermunum úr staðbundnu svæðislíkani er líklegt að svæðið þar sem hægt er að nema mælanlega breytingu á basavirkni sé að hámarki með radíus 1 km frá losunarstað en utan þess er líklegt að aðeins sé hægt að greina sporefni“.

Röst

Það vekur áhyggjur að félagið Röst, sem er umsóknaraðili með rannsókninni, sé einungis að mér skilst með 500.000 krónur í eigið fé. Hverjar eru raunverulegar tryggingar fyrir því að félagið geti staðið við skuldbindingar sínar ef aðstæður þróast óhagstætt og lífríki og afkoma fólks hljóti varanlegan skaða af?

Eins og staðan er nú, er mikilvæg spurning um hvort tilraunir Rastar, sem áætlað er að fari fram nálægt fjarðarbotni, séu skynsamlegar með þessa viðkvæmu náttúru að veði. Til að gæta varúðar fyrir lífríkið myndi venjulegur leikmaður telja það skynsamlegra að framkvæma þessa tilraun með þetta eitur út á opnu hafi þar sem lífríkið er minna um sig. Það er nóg af opnu hafi á þessari jörð. Röst virðist frekar leitast við að ná framgangi tilraunarinnar í nálægð við höfuðborgina og þar af margfalt minni kostnaður við framkvæmd frekar en að gera þetta á opnu hafsvæði. $$ allt fyrir aurinn.

En höfum það ávallt í huga að leikendur í þessum leikþætti eru þeir sömu og í Running Tide. Það átti líka að bjarga heiminum með því að sulla eitri á trjákurl og sturta í Faxaflóa og Hafrannsóknastofnun var eftirlitsaðili þar eins og í þessu tilfelli. Eftir stóð eitt stærsta klúður sögunnar í loftslagsmálum á Íslandi. Ráðherrar sem tryggðu því verkefni brautargengi vildu ekki kannast við eitt né neitt þegar allt var komið í óefni og óþverrinn kom upp á yfirborðið og allir sem komu að því máli „saklausir“. Eignir og fjárfestingar félagsins voru gámahúsnæði og steypuhrærivél, annað var leigt að mér skilst. Ekki mikill trúverðugleiki gagnvart þeim og stjórnvöld hefðu átt og ættu að vita betur nú.

 

Mynd er úr umsókn Rastar til Utanríkisráðuneytis.

 

 

Þetta er það sem talað er um í skýrslunni, en í réttum hlutföllum um mögulegt áhrifasvæði, sem gæti líka verið stærra!

 

Sveitin

Það eru góðar laxveiðiár í Kjósarhreppi og íbúar eðlilega hræddir um möguleg áhrif þessara aðgerða á þeirra nærumhverfi og uppbyggingu sem gæti horfið sporlaust á einu sumri vegna litlu rannsóknarinnar. Ferðaþjónusta, sem hefur byggt allt sitt upp á fallegri náttúru og unnið markvist að uppbyggingu, óttast að orðspor greinarinnar bíði skaða ef slíkar rannsóknir myndu leiða til mengunar og dýradauða.

Það er nauðsynlegt að skýra og skjalfesta áhrif þessara rannsókna áður en fyrirhugaðar aðgerðir fara í framkvæmd, til að tryggja að lífríkinu og náttúrunni verði ekki teflt í hættu en hún á ALLTAF að njóta vafans.

Í heildina eru þær áhyggjur sem vakna vegna þessarar umsóknar um rannsóknarleyfi Rastar ekki aðeins áður en þær aðgerðir fara fram, heldur einnig hvað varðar ábyrgð og gegnsæi í ferlinu. Á meðan samfélagið í sveitinni er að komast að því hvað er verið að sækjast eftir að fá að gera í þeirra sveit og hvaða mögulegu afleiðingar þær gætu haft í för með sér fyrir fjölda fólks og afkomu þeirra. Vernd náttúrunnar er svo sannarlega ekki höfð að leiðarljósi.

Haförninn

Eru stjórnvöld að íhuga að veita leyfi fyrir að eitrað sé fyrir haferninum sem hefur verið með sitt óðal og laup (hreiður) á fyrirhuguðu þynningarsvæði eitrunar Rastar? Þarna á hann sitt óðal og hefur komið upp fjölda unga síðustu árin, einmitt á þessu þynningarsvæði tilraunarinnar. Það er hvergi minnst á það einu orði miðað við allar þessar svokölluðu forrannsóknir á tilrauninni. Hvers vegna ekki? Þarna er helsta fæðuöflunin fyrir haförninn stutt frá laup. Þarna mun hann að öllum líkindum og auðveldlega ná í sjálfdautt, eitrað fæði fyrir sína unga ef illa fer!

Í friðunarákvæði hafarna segir eftirfarandi: „Það er samkvæmt lögum stranglega bannað að koma nær arnarhreiðrum en 500 m án sérstaks leyfis umhverfisráðherra. Ernir eru taldir árlega og fylgst með varpi og fjölda uppkominna unga. Nauðsynlegt er að tryggja að friðunarákvæði séu virt og uppræta ólöglega umgengni við arnarhreiður. Eitruð hræ eru talin helsta ástæða þess að örnum fækkaði fyrrum og er lagt til að eitrun á víðavangi verði alls ekki leyfð, hvorki til að vernda æðarvarp né til fækkunar dýra í öðrum tilgangi.“ Ég vona að Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun sýni fordæmi og tryggi að þessi hegðun annarrar ríkisstofnunar (Hafrannsóknastofnunar Íslands) verði hrundið á bak aftur og afkomu og vernd á konungi og drottningu íslenskra fugla fái sinn lagalega grið frá svokölluðum umhverfissinnum.

Greinahöfundur hafði samband við aðila í Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þar er verið að skoða þetta og búið er að láta Umhverfisstofnun vita um hvað sé fyrirhugað á óðali hafarnarins. Þeir hljóta og verða að koma með innlegg í þetta hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Það er of seint að firra sig ábyrgð að segjast ekki hafa vitað af þessari fyrirætlan Rastar. Haförninn er rétthæsti fugl Íslands og ekki má samkvæmt lögum; „Eitra eða ógna hans tilverurétti.“

Ekkert í viðbragðsáætlun Rastar snýr að dýrum eða meinleysingjum við fyrirhugaðri eitrun þeirra í Hvalfirði og skýrari samráðsáætlun og viðbragðsáætlun þarf fyrir tilraunina.

Hvað ef – það ætti ekki! og heldur ósennilegt! eru orð sem forráðamenn Rastar nota óspart í sinni umsókn. Það er engin viðbragðsáætlun við dauða eða eitrun lífríkis í Hvalfirði t.d. fugla, sela, skeldýra eins og t.d kúskeljar (Arctica islandica) sem ná hæstum aldri allra dýra í heiminum, (yfir 400 ára aldri), sem og fiska sem mögulega fljóta upp dauðir, eða særðir ungar bæði á sjó og landi vegna afleiðinga á þessari fyrirhuguðu eitrunar af mannavöldum. Sennilega á bara að vera nóg að stöðva dælingu eins og alls staðar annarstaðar í þessari svokallaðri viðbragðsáætlun? Það eru töluverðar líkur á að mengaður dauður fugl eða fiskur, krabbi eða skel, endi sem æti fyrir önnur dýr. Þetta er ekki tekið með í jöfnuna „hvað ef.“ Þetta eru því miður skýr skilaboð frá rannsakendum um að þeim gæti ekki verið meira sama um vistkerfi og lífríkið í firðinum, enda þægilegt að segja sem minnst ef þetta fer allt í skrúfuna þar sem „gerandinn“ er hvort eð er að rannsaka sjálfan sig.

Viðbragðsáætlun Rastar:

Viðbragðsáætlun Rastar

Þarf að endurskoða starfsleyfi Olíubirgðarstöðvarinnar í Hvalfirði? Mikilvægt er að skoða starfsleyfi og aðkomu Olíubirgðastöðvarinnar í Hvalfirði að þessu máli þar sem þeir virðast ætla að láta Röst hafa sína aðstöðu til að framkalla mengun á þeirra starfssvæði og þá væntanlega með þeirra starfsleyfi.

Samkvæmt ákvæðum í starfsleyfinu er tiltekið að starfsleyfið skuli endurskoðað að jafnaði á fjögurra ára fresti, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Þá er einnig skylt að endurskoða starfsleyfið ef forsendur rekstursins breytast, sérstaklega í eftirfarandi tilvikum:

  • Ef rekstraraðili breytir rekstrinum með þeim hætti að tilkynningaskylt er skv. gr. 1.4.
  • Ef öryggi við rekstur krefst þess að önnur tækni sé notuð en upphaflega var miðað við í starfsleyfinu.
  • Ef mengun af völdum rekstrarins er meiri en búast mátti við þegar starfsleyfið var gefið út, eða ef vart verður mengunar sem ekki var gert ráð fyrir í útgáfu leyfisins.
  • Ef breytingar verða á bestu fáanlegu tækni sem gerir það kleift að draga umtalsvert úr losun mengunarefna.

Ef breytingar verða á viðmiði um bestu fáanlegu tækni, er rekstraraðila skylt að senda útgefanda starfsleyfisins, skv. beiðni útgefandans, tímasetta áætlun um hvernig hann hyggist taka upp hina nýju  tækni, eða rökstyðja ef það er ekki mögulegt.

Auk þess er rekstraraðila ætíð skylt að fara að gildandi lögum og reglugerðum, sbr. gr. 1.1, jafnvel þótt starfsleyfi hafi ekki verið endurskoðað.

Olíudreifing ehf. er bundin því að tryggja mengunarvarnir, og því er mögulega ekki heimilt að leyfa þriðja aðila að nýta aðstöðu þeirra til að framkvæma tilraunir sem vísvitandi menga og ógna lífríki á því svæði sem starfsleyfið um mengunarvarnir eru vísvitandi brotnar.

Það vekur furðu og töluvert umtal heimamanna hvers vegna fyrirtæki, sem hefur starfað í áratugi í sátt við íbúa í Hvalfjarðarsveit, skuli heimila svona gjörning.

Það væri fróðlegt að fá lögfræðiálit um hvort starfsleyfið gefi heimild til að lána aðstöðu til annarra aðila, sem vísvitandi ætla að menga þeirra svæði og stofna lífríkinu þar með í hættu sem og álit frá Umhverfisstofnun að skoða hvort verið sé að brjóta starfsleyfi Olíudreifingar ehf., kt. 660695 – 2069, vegna olíubirgðastöðvar á Litla-Sandi og Digralæk 1 (Miðsandi) í Hvalfirði.

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar

Það er algerlega óásættanlegt að sjá hvernig sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur haft aðkomu að málinu og ekki sýnt neitt frumkvæði í að verja sína sveit eða varpað fram neinum efa um fyrirhugaða tilraun. Bara flott að eitra markvisst Hvalfjörðinn – enda nær hann víst bara inn að Hagamel? Umhverfisvernd virðist bara hafa farið niður í skúffu og verið þar lengi. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar virðist hins vegar hafa tekið vægast sagt umdeildar ákvarðanir um hvað væri gott fyrir sveitarfélagið, án nægilegrar vitneskju um málin né leitað eftir fagáliti til að fá skýra mynd á því sem málið snýst um. Er þeim bara alveg sama? (Ég bara trúi því ekki).

Í boði Rastar, með einróma samþykki allra í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar, var samþykkt þátttaka oddvita sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar í stjórn Rastar. Þar fór endanlega allur trúverðugleiki á þeirra störf og þau settu sig í óhóflega viðkvæma stöðu með því að þiggja þetta boð. (Var verið að kaupa sér góðvild og aðgang að kjörnum fulltrúum sveitarfélagsins?) Á hvaða vegferð þau eru er stórundarlegt svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Þetta gefur til kynna að það sé mikill skortur á ábyrgð hjá sveitarstjórn og þau átti sig ekki á hvað þau eru með í höndunum sem gæti leitt til alvarlegra afleiðinga fyrir íbúa og náttúru Hvalfjarðar og orðspor. Er búið að gleyma fyrir hverja þeir eiga að vinna? Er einhver þarna í sveitarstjórn sem dregur vagninn og leiðir fólk út í svona vitleysu þar sem lögmálið „ég á þetta, ég má þetta“ er viðhaft?

Í samanburði virðist sveitarstjórn Kjósarhrepps sýna meiri ábyrgð í málefnum umhverfisins, þar sem hún leitar markvist svara við óskum og áhyggjum íbúanna.

Það er óþolandi að við skulum þurfa að horfa upp á mögulegan óafturkræfan skaða á náttúrunni okkar undir formerkjum „kolefnisjöfnunar“, í krafti auðmanna sem segjast vera að „bjarga heiminum með því að eitra hann.“ Það er verið að ógna eiginlegum náttúruauðlindum okkar og leika sér með eldinn. Slíkt er ekki aðeins skref í ranga átt, heldur er það einnig í andstöðu við okkar skyldu til að vernda umhverfið fyrir komandi kynslóðir.

Er ekki nafnið Running Tide nægilega stór viðvörun fyrir okkur og þeirra saga? Ég ítreka að þetta eru sömu aðilar sem standa að fyrirhugaðri eitrun fjarðarins einnig að Hafrannsóknastofnun framkvæmir eftirlit eins og síðast þegar þúsundum tonna af trjákurli var sturtað í Faxaflóa sælla minninga?

Hefur samskonar tilraunum verið hafnað í Evrópu og víðar? Ef svo: Hefur verið kannað á hvaða forsendum það var gert? Var leitað álits t.d. frá European Environmental Bureau (EEB) varðandi þesskonar tilraunir og mögulegar afleiðingar?

Smá google leit sem ætti að kveikja flest viðvörunarljós:

„Náttúrusamtök Evrópu hafa komið á framfæri skýrri andstöðu við tilraunir sem fela í sér notkun Vítissóda (NaOH) í sjávarrannsóknum. Þessi súrefnisríku kemísku efni, þekkt fyrir sína skaðlegu eiginleika, geta haft alvarleg áhrif á lífríki hafsins og valdið skaða á dýra- og plöntulífi.

Samtökin varpa ljósi á þá áhættu sem fylgir því að dæla NaOH í sjávarumhverfið, þar sem slíkar aðgerðir geta leitt til sýrustigsrofs í vatni og haft skaðleg áhrif á lífríkið. Sú áhrifasaga eru margoft skráð í rannsóknum og úttektum sem fjalla um áhrif efna á náttúruna, sérstaklega í viðkvæmum vistkerfum.

Náttúrusamtök Evrópu krefjast þess að yfirvöld sem og rannsóknaraðilar virði viðvaranir þeirra og framkvæmi tölfræðilegar niðurstöður áður en slíkar hættulegar tilraunir fara fram. Þau kalla eftir skýrari reglum og ströngu eftirliti með öllum efnum sem notuð eru í rannsóknir, til þess að tryggja verndun  lífríkisins og aðlögun umhverfisins.

Í ljósi þessara aðstæðna er mikilvægt að hafna leyfisveitingu vegna tilrauna með efni, líkt og NaOH, á viðkvæmum vistkerfum. Náttúrusamtök Evrópu munu áfram berjast fyrir meiri vernd á náttúruauðlindum og leyfisveitingum á því að tilraunum með eiturefni sem valdið geta skaða sé hafnað.“

Það er spurning hvort Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir telji að starfsfólk EBB fari með rétt mál. Ég vona að hún taki sterka afstöðu með náttúrunni og lífríki Hvalfjarðar.

 

Baldur Ketilsson

Höf. er íbúi á Hvalfjarðarströnd sem er annt um sína sveit.