Einkunnir – Friðland eða skotæfingasvæði?

Guðsteinn Einarsson

Í nýjustu fundargerð sveitarstjórnar Borgarbyggðar, 178. fundar, er bókun Magnúsar Smára Snorrasonar um ákvæði í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks, VG og Samfylkingar um leyfisveitingu skotæfingasvæðis við Einkunnir og í því landi sem hestamenn nota nú. Í bókunni segir: „Mikilvægt er að reynt sé að draga úr neikvæðum áhrifum með ákveðnum skorðum og að upplýst umræða geti átt sér stað um hana. Hugmyndin er að þegar athugasemdatíma lýkur verði athugasemdir rýndar til þess að hægt sé að greina hverjar áhyggjur íbúa eru af staðsetningunni og starfseminni.“

Draga má þá ályktun af textanum að skotæfingasvæðið muni njóta vafans í skipulagsmálinu, en ekki friðlandið í Einkunnum eða útvistarsvæði almennings og hestamanna.

Hvað varðar þá umsögn í bókuninni að hægt verði að rýna betur athugasemdir þegar þær berast, þá má benda á að nú þegar liggja fyrir á milli 120 og 130 athugasemdir sem gerðar voru síðast þegar þetta aðal-deiliskipulag var auglýst.

Rétt væri fyrir fulltrúa í sveitarstjórn Borgarbyggðar að grafa þær athugasemdir upp og byrja að lesa, óþarft er að bíða með það. Þar geta þeir strax lesið sér til um viðhorf íbúanna til þessara skipulagshugmynda!

Þá væri ekki síður gott fyrir Magnús, fulltrúa Samfylkingar í sveitastjórn, að lesa bókun fulltrúa Samfylkingar í umhverfis,- skipulags,- og landbúnaðarnefnd þegar málið var afgreitt af 2 af 5 fulltrúum í nefndinni þann 9. maí 2018 en þar segir m.a.:

„Björk Jóhannsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun. „Ég hef undrast það að nefndin telji staðsetningu skotæfingasvæðis „góðan kost“ við hliðina á friðlandinu Einkunnum sem er skipulagt sem útivistarsvæði. Svæðið er einnig í nágrenni við hesthúsahverfi Borgarness og daglegar reiðleiðir eru allt í kring og ferðaþjónustan að Lækjarkoti við hliðina sem selur ferðamönnum gistinætur. Mér hefur ekki fundist þetta endurspegla það hlutverk nefndarinnar að skipuleggja landnotkun þannig að aðliggjandi starfsemi fari vel sama, sem er megintilgangur aððalskipulags. 123 íbúar hafa mótmælt staðsetningunni formlega þ.m.t. allir hlutaðeigandi nágrannar. Það er fágætt að svo mörg mótmæli berist í málum skipulagsins.“

Í lokin: Er þessi áhersla að skerða útivistarsvæði, friðlandið við Einkunnir, í samræmi við náttúrverndarstefnu Samfylkingar og VG?

Borgarnesi, 13. janúar 2019

Guðsteinn Einarsson.