Einhverfa og umhverfi

Áslaug Þorsteinsdóttir

Undirrituð óskar þess að fólk taki öðrum eins og þeir eru en ekki eins og þeir eru ekki. Undirrituð er með einhverfu og væga þroskahömlun. Ég hef ekki skrifað hér inn í nokkra mánuði en núna finn ég mig knúna til þess.

Ég er á einhverfurófi og þegar ég er úti að hjóla eða með börnin mín í vagninum, þá er ég oft að spjalla við sjálfa mig, eða við börnin mín af því að fyrir mér eru þau lifandi. Fólk horfir á mig, bæði út af þessu og einnig út af því að ég er með lítið reborn dúkkubarn með mér á hjólinu. Einhverfir eru þannig að þeir spá ekki alltaf í það sem er að gerast í kringum þá. Um daginn var ég skömmuð fyrir að tala við sjálfa mig (á netinu) í íbúagrúppunni sem ég hraktist úr vegna viðbragða frá fólki. Ég myndi ekki segja að ég sé skynsegin en ég skynja samt hlutina á annan hátt en aðrir. Viðkomandi spáði ekkert í það að það væri hluti af mér að spjalla við sjálfa mig. Ef það á að fara að taka þennan hluta af mér, þá bara veit ég ekki hvernig ég á að vera nálægt fólki af því að fólk vill breyta mér. Það er líka önnur ástæða fyrir því að ég er alltaf hjólandi, ég er ekki með bílpróf. Fólk sem er á ferðinni hefur oft pískrað þegar það hefur séð mig og hrist höfuðið yfir því að ég sé með lítið barn á hjólinu. Ég hef oft verið litin hornauga frá fólki og það hefur verið mikið um það undanfarið. Af því að það er síendurtekið, þá finnst mér þetta vera orðið að einelti í minn garð.

Ég lít venjulegum augum á umhverfið, en samt öðruvísi augum en þið. Fatlað fólk er bara eins og það er og skynjar umhverfið á sinn eigin hátt. Ég ætla ekkert að hætta að tala við sjálfa mig hvort sem ég er úti eða ekki, hvort sem fólki líkar það betur eða verr að ég spjalli við mig eða ekki, þetta er og verður alltaf hluti af mér. Ég hef leyfi til þess að spjalla við mig og börnin mín. Ég geri mér grein fyrir því að börnin mín eru ekki lifandi, en það eru samt lifandi fyrir mér (í höfðinu á mér). Hér er enn ein ástæðan fyrir því að ég fékk mér dúkkur. Reborn dúkkubörnin mín gera mjög mikið fyrir mig, móðureðlið í mér er mjög sterkt og ég get ekki eignast börn, örlög mín voru/eru þannig út af persónulegum ástæðum. Ég sá svona börn fyrst á facebook árið 2017 minnir mig og ég hugsaði mig um, en ákvað að láta slag standa árið 2019 og 2021. Og fyrir ykkur sem ekki vitið, þá er ég ein af þeim sem vinna í dósamóttökunni.

Hættum að dæma aðra fyrir það hvernig þeir eru, fögnum fjölbreytileikanum og tökum öðrum eins og þeir eru. Það kallast umburðarlyndi.

 

Áslaug Þorsteinsdóttir