Einfalt val á laugardag

Haraldur Benediktsson

Í kosningum á laugardaginn eru valkostir skýrir.  Valið er um hvort við viljum halda áfram á réttri leið.  Réttri leið aukins kaupmáttar, lægri skatta, meiri atvinnu og stöðugleika í umhverfi okkar.

Hin leiðin er óvissuferð, þar sem enn er boðin fram ESB aðild að bandalagi sem er að liðast í sundur.  Enn og aftur ætlar VG að svíkja stefnu sína um andstöðu við ESB aðild.  Það hefur hún núna gert í fordæmalausum stjórnarmyndunarviðræðum,  sem hafa verið sviðsettar.

Alvarlegast er þó sú óvissa og óstöðugleiki sem fylgir vinstri óreiðunni.  Það er ömurlegt að vita til þess að taka okkar bestu atvinnugrein, sjávarútveg, og ógna tilveru hans og þeirra byggðarlaga sem hann starfar í.  Uppboðsleið aflaheimilda er ógn við starfsöryggi sjómanna, er vís leið til að veikja lítil og meðalstór fyrirtæki í útgerð.  Á móti er sagt að fjármunir eigi að renna aftur til byggðanna eftir ákvörðun þeirra sem sitja við völd.  Það er nauðsynlegt að hafna slíku tilræði.

Um aðra atvinnuvegi er líka fjallað af léttúð.  Landbúnaður þarf kerfisbreytingu.  Enginn er samt spurður um hvað það þýðir.  Iðnaður og allt atvinnulífið er núna farið að líða fyrir skort á rafmagni.  Núverandi stjórnarandstöðu  tókst að stöðva frekari virkjanaframkvæmdir.

Við höfum hafið eindurreisn heilbrigðisþjónustunnar.  Í tíð síðustu ríkistjórnar fækkaði starfsmönnum í heilbrigðisþjónustu um 7% en meðaltalsfækkun ríkisstarfsmanna var á sínum tíma 4%.  Það eru áherslur þeirra sem þá sátu að völdum og reyna nú að taka aftur yfir.  Af þeirri leið hefur verið snúið og gott betur.

Valkostirnir eru því einfaldir á laugardaginn.  Ég heiti stuðningi við ábyrga og uppbyggjandi stjórnarstefnu. Veljum réttu leiðina áfram.

 

Haraldur Benediktsson.

Höf. er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar