Einfaldar breytingar til verðmætasköpunar

Sigurjón Þórðarson

Enginn ætti að vera svo skyni skroppinn að sjá það ekki í hendi sér að núverandi kvótakerfi hefur haft mjög neikvæðar afleiðingar.

Lokað hefur verið að miklu leyti á gagnrýna umræðu um kerfið, hvort sem um er að ræða líffræðilegar forsendur þess eða þá efnahagslegu hamfarir sem kerfið hefur leitt af sér. Ástæðan fyrir því, er fyrst og fremst þau heljartök sem fámenn hagsmunasamtök hafa á þjóðfélaginu. Þetta gengur svo langt að í nýlegum fréttum af fyrirhuguðum aðgerðum Vestfjarðarnefndar, þá var ekki einu orði vikið að sjávarútvegi. Með öðrum orðum kerfi sem aldrei hefur mjólkað fyrir almenning, virðist vera orðin að heilagri kú!

Ef næsti sjávarútvegsráðherra hefur vilja til breytinga, þá er lítið mál að hrinda í framkvæmd einföldum og sanngjörnum breytingum sem myndu strax stórbæta kerfið. Hér eru tillögur sem Dögun hefur sett á oddinn:

  1. a) Fiskur verði verðlagður á fiskmarkaði – Það eitt myndi auka öryggi byggðanna og hækka laun sjómanna.

Stöðugt aðgengi að hráefni á fiskmarkaði mun tryggja fiskvinnslum aðgang að hráefni á jafnræðisgrunni.

  1. b) Gera krókaveiðar frjálsar á landróðrabátum á grunnslóð – Ekki er nokkur lifandi leið að ofnytja fiskistofna með trillum.
  2. c) Leyfa grásleppuveiðimönnum að fénýta þorsk og aðrar tegundir sem veiðast í grásleppunetin.
  3. d) Leyfa frjálsar veiðar á tegundum sem ekki eru fullnýttar samkvæmt núverandi úthlutun sbr. að kvóti á löngu og blálöngu, er ekki fullnýttur.
  4. e) Leyfa sjómönnum að fénýta lúðuna.

 

Ofangreindar breytingar eru einföld og sanngjörn fyrstu skref, sem kæmu atvinnulífinu strax til góða. Tillögurnar leiddu strax af sér meiri sátt og verðmætaaukningu í greininni og skiluðu því ríkissjóði milljarða króna tekjuaukningu.

Hætt er við að umræðan um sjávarútvegsmál nú fyrir kosningarnar lendi á villigötum flókinna tæknilegra útfærslna um; uppboð, veiðigjöld, og byggðakvóta.  Reynslan af síðustu vinstri stjórn sýnir að þeir sem göluðu hve hæst, höfðu ekki raunverulegan vilja til breytinga. Núverandi hægri stjórn landsins hefur viljað viðhalda núverandi kerfi og reynt að binda það enn fastari böndum.

Í næstu kosningum reynir á raunverulegan vilja kjósenda, ef vilji er til, þá er hægt að hrinda öllum ofangreindum tillögunum í framkvæmd, nokkrum vikum eftir næstu Alþingiskosningar.

Vísasta leiðin til þess er að kjósa Dögun í kosningunum.

 

Sigurjón Þórðarson.

Höf. er frambjóðandi Dögunar í Norðuvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar