Eignarréttur og afnot

Einar Óskarsson

Það er ýmislegt sem hendir á langri ævi og kannski fátt sem ætti að koma mjög á óvart á sjöunda áratug ævinnar en samt detta upp eitt og eitt atriði sem gera mann svolítið hugsi.

Það er þannig að með aldrinum verður maður iðulega stirðlyndur og heimaríkur og þolir verr ágang og átroðslu. Því er það svo að eftir nokkur samskipti við aðalsflokk nokkurn sem kallast hestamenn, að manni finnst gengið fulllangt í seilingum til eigna annarra.

Frá er sagt í Eglu að þá greindi á um notarétt lands, Þorstein Egilsson og Steinar Ánabrekkubónda og kom til átaka vegna þess en við skulum trúa að slíks verði ekki þörf á okkar dögum.

Ég hef nú um allnokkra hríð átt heimili á jörð foreldra minna, Tungulæk hér vestan Borgarness og er jörðin sú með merki að Jarðlangsstöðum að norðan. Á merkjum jarðanna var á sínum tíma gerður skurður til afmörkunar og Tungulækjarmegin við þessi merki var gerður annar skurður og uppgreftri beggja skurða komið fyrir á ræmunni á milli þeirra svo myndaðist þurrari leið til að komast um þarna á merkjum jarða. Einfaldaði t.d. smalanir fjár og þess háttar. Í kringum 1990 kom að máli við okkur þáverandi formaður þáverandi félags hestamanna í Borgarnesi og nágrenni og spurði hvort félagið mætti styrkja og laga slóðann þann arna svo hann hentaði betur til útreiða. Þessu erindi var vel tekið og að auki settu hestamenn upp lítið gerði við Skilklett sem er merkjaklettur á milli áðurnefndra jarða. Allt gert í sátt og með leyfi landeiganda sem þá var móðir mín að föður mínum látnum.  Umræddur slóði nær frá Skilkletti og að merkjum Ánabrekku, Jarðlangsstaða og Tungulækjar sem koma saman í punkti ekki langt frá norðurenda Álfgerðarholts sem liggur með veginum að Jarðlangsstöðum og Stangarholti. Frá Skilkletti og að Háfslæk er gata sem er í eigu Jarðlangsstaða og er eldri en moldargatan sem hér um ræðir. Slóðinn liggur svo reyndar áfram vestur að Langá frá áðurnefndum merkjapunkti.

Síðan 1990 hef ég séð að svolítið hefur verið bætt í viðgerðir á slóðanum en greinilega þetta gamla munnlega leyfi verið látið standa enda svosem engin ástæða til að standa í vegi fyrir þessum slóðabótum.

Síðan skeður það að nú fyrir fáum árum tók ég eftir því að búið var að keyra miklu magni af efni í slóðann og gera úr honum hálfgerða hraðbraut.

Við þetta fór að fara um mann óþægileg tilfinning um að þarna stefndi í vafa um eignarhald eða notendarétt á slóðanum svo ég hafði samband við forsvarsmenn hestamannafélagsins um að út yrði gefin yfirlýsing þess efnis að eignarhald slóðans af hálfu Tungulækjar væri að fullu viðurkennt þó svo að notkun til útreiða væri frjálst sem áður.

Þessi yfirlýsing sá þó ekki dagsins ljós og ég skal viðurkenna að ég gekk ekki stíft á eftir henni fyrr en á síðasta ári að ég setti mig í samband við formann sameinaðs félags hestamanna á svæðinu og vildi að þetta yrði nú gert snarlega. Þetta gerði ég bréflega (rafpóstur þó) því mér fannst að málið væri að verða svo efnismikið (aðallega þó kannski slóðaskömmin) að pappírs eða kílóbæta væri þörf.

Það sem gerðist næst var mér svo eiginlega torskilið. Svar hestamanna var að félag þeirra gæti ekki gefið okkur slíka yfirlýsingu því slóðinn væri orðinn hluti af skipulagi Borgarbyggðar og þá einhvern veginn ekki lengur í hendi hestamannafélagsins að viðurkenna eignarhald Tungulækjar á slóðanum.

Ég verð að viðurkenna að þetta svar kom mér algerlega í opna skjöldu því ekkert hefur komið fram um af hendi Borgarbyggðar að hluti Tungulækjarlands væri komið inná skipulag sveitarfélagsins án vitundar landeigenda.

Ég setti mig í samband við starfsmenn hjá Borgarbyggð og þar fékk ég raunar ekki skýr svör um hvernig þetta gat gerst en þætti afar gaman ef einhver gæti samt svarað því. Landamerki Tungulækjar eru alveg skýr og meira að segja nýlega hnitsett og þinglýst með öllum þeim uppáskriftum og serímóníum sem um slík mál gilda.

Þegar þetta er ritað er enn ekki komin nein yfirlýsing frá hestamönnum varðandi slóðaskömmina en þó hefur komið þaðan ósk um yfirlýsingu landeigenda um notendarétt fyrir hestamenn að slóðanum. Ég efast um það komi til þess af okkar hálfu en ekki stendur til að hindra för þeirra eða annarra um slóðann eftir sem áður enda engin ástæða til a.m.k. ekki fyrirséð. Ég tek fram að umgengni um slóðann hefur verið með ágætum og ekki hægt að kvarta yfir því en hinsvegar hef ég heyrt sagnir af árekstrum hestamanna við aðra umferð hjólandi og hlaupandi þarna á slóðanum og því datt mér þetta í hug um heimaríkið.

Nú hefur mér tekist að fá nokkurskonar loforð frá Borgarbyggð um að þetta slóðagrey verði tekið af skipulaginu hvernig svosem það gat lent þar inn en ég skal viðurkenna að mér finnst svolítið hart að þurfa að verja sig fyrir sveitarfélaginu sínu því ég hef alltaf talið að við værum nokkurnveginn jöfn hér á landi þó eins og Laddi sagði að „markvörðurinn væri þó jafnastur“. Hver vera muni svo markvörðurinn í þessu götuslóðamáli verður að fá að koma í ljós en eins og stendur bíð ég eftir erindi frá hestamannafélaginu og á reyndar frekar von á að það komi fyrr en seinna.

Með bestu kveðjum úr gamla Borgarhreppnum,

Einar Óskarsson