Eggin og karfan

Sigurlaug Gísladóttir

Eitt mikilvægasta mál landbyggðarinnar er algjör uppstokkun í sjávarútvegi. Sú auðlind okkar, og já hún er enn okkar, er nú undir stjórn örfárra kvótakónga sem hugsa um það eitt að græða sem mest. Og sá gróði er alfarið á kostnað þjóðarinnar. Við getum ekki liðið það lengur. Stórútgerðin þarf að fara eftir lögum um fiskveiðar þ.e. kvótaþakið. Útgerðin verður að fara eftir skattalögum og greiða 20% tekjuskatt af þeim hlunnindum sem útgerðinni er afhent árlega. Stoppa verður hringamyndun stórútgerðar í fyrirtækjarekstri.

Handfæraveiðar eiga að vera frjálsar og leyfa á sölu „Beint frá báti.“  Brottkast á afla verður að stöðva með hvötum. Útræðisrétt sjávarjarða verði virtur á ný og staðfestur í lögum um stjórn fiskveiða. Allur fiskur kæmi að landi og það sem fer venjulega í brottkast verður einnig að koma að landi án viðurlaga/sekta og selt á markaði og sá söluágóði yrði notaður við rekstur Hafrannsóknarstofnunar, Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar. Viðurlög við umframveiði og brottkasti verði hert.  Eigendur og áhafnir íslenskra fiskveiðiskipa og fyrirtæki sem hafa veiðirétt í sameiginlegri auðlind þjóðarinnar skulu eiga lögheimili á Íslandi og borga hér skatta og skyldur. Gerð verði skýlaus krafa til fyrirtækja í sjávarútvegi að upplýsa um raunverulega eigendur fyrirtækjanna og kaupendur. Þarna liggja þeir fjármunir sem þarf inn í okkar samfélag hringinn um landið, sumir nota fín orð eins og innviðir og það má svo sem alveg kalla það svo.

Þeir innviðir í samfélagi okkar sem ég er að tala um er heilbrigðis og velferðarkerfið okkar.  Við þurfum að hætta að troða öllum okkar eggjum í sömu körfuna og hafa vit á því að halda því þannig svo við lendum ekki enn á ný í þeirri stöðu eins og núna á Covidtímum, en þá komust við að því að of mörg eggin voru á sama stað = ferðaþjónustan.

Þorpin í kringum landið komust að því á sínum tíma þegar kvótinn safnaðist á fárra hendur og skyldi sum byggðarlög eftir nánast í rúst. Loðdýraræktin átti á sínum tíma að bjarga bændum, við vitum hvernig það fór. Það er þessi endalausa árátta okkar að safna öllu í sömu körfuna því allir ætla að græða svo og svo mikið.

Við höfum undanfarinm áratug og trúlega lengur byrjað að fara með heilbrigðiskerfið allt í sömu körfuna. Nánast allt skal gera á Akureyri eða Reykjavík. Ekki beint gáfulegt á okkar litla landi elds og ísa, hvað gerist ef gosið færist nær Reykjavík? Hvað þá? Bara Covid sýndi okkur að þetta er langt frá því að vera gáfulegt. Að setja alla okkar sérfræðinga á sama punktinn er einfaldlega röng stefna og hættuleg sérstaklega þegar litið er til hvar á landinu þeir eru staddir.

Eftir allar mínar verur á sjúkrahúsum höfuðborgarinnar og samtöl við sérfræðinga þá veit ég að þeir vilja vinna í teymi, en þessi teymi geta verið fleiri en eitt og þau þurfa ekki að vera öll á sama punktinum.

Við þurfum að skipuleggja okkar miklu betur, það þarf ekki endilega að vera dýrara og gæti jafnvel verið hagkvæmara.

XO Lífið er núna, gerum eitthvað í þessu.

 

Sigurlaug Gísladóttir Blönduósi

Höf. er oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í NV