Ég vil brautina burt en brosandi gesti

Signý Jóhannesdóttir

Undirrituð hefur átt þetta slagorð í slagorðabankanum í nokkuð mörg ár. Núna tel ég rétta tímann til að kasta því fram.

Þannig er að fyrir 14 árum keyptum við hjónin parhús við Kvíaholt í Borgarnesi. Sá sem seldi okkur húsið upplýsti okkur um það að til stæði að flytja þjóðveginn út fyrir bæjarmörkin og hefði það staðið til í nokkuð mörg ár. Svo hafa árin liðið og sveitarstjórnarmenn hafa frekar unnið gegn því að þessi tilflutningur yrði frekar en hitt. Margt hefur verið um málið sagt í ræðu og riti og ekki allt gáfulegt.

Mér hefur komið mjög á óvart hversu margir Borgnesingar eru því mótfallnir að vegurinn verði fluttur. Sumir eru mjög heiftúðugir og telja að ef vegurinn fari út fyrir bæjarmörkin komi enginn til að sækja þjónustu í Nesinu. Hvaða skilaboð eru þetta frá heimafólki? Eftir því sem árin líða hef ég komist að þeirri niðurstöðu að mjög margir heimamenn þjáist af alvarlegri vanmáttarkennd.

Í mínum huga er það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi umferðaröryggi. Sem íbúi í Kvíaholtinu, sem liggur samsíða þjóðvegi 1, með gott útsýni yfir veginn og hringtorgið þar sem vegurinn greinist norður og vestur, get ég fullyrt að umferðin bara vex og vex. Þungaflutningar sem nánast allir eru komnir á þjóðveginn eru gríðarlegir. Umferð fólksflutningabíla og fólksbifreiða hefur margfaldast á þessum 14 árum, sem og allskyns farartæki með vagna og hýsi. Ég hef oft þakkað mínum sæla fyrir að eiga ekki hér á staðnum barnabörn sem þyrftu að vera þarna á ferðinni. Sunnudagskvöld að sumarlagi eru ákveðin upplifun við stofugluggann minn, þegar stöðugur straumur er að norðan og vestan í átt til borgarinnar.

Ég bjó áður á Siglufirði og þurfti oft að fara til Reykjavíkur vinnu minnar vegna. Stundum lágu flugsamgöngur niðri og þá var ekki um annað að ræða en að keyra. Ef ég var spurð hvað ég væri lengi að aka þessa tæpu 400 km. þá gaf ég tímann upp með kjötsúpu í Borgarnesi. Kjötsúpan hennar Unnar var vel þess virði að stoppa og gerði ég það nær undantekningalaust.

Þannig er að ef í boði er góð þjónusta, áhugaverðir staðir að skoða og viðmót sem manni líkar, þá stoppar maður. Því áhugaverðari og betra viðmót því oftar kemur maður.

Það að leiða þungaflutningana og gegnumstreymið út fyrir bæjarmörkin, bætir aðgengi þeirra sem vilja sækja þjónustuna í bæjarkjarnanum. Það verður auðvitað að sjá svo um að aðreinar og afreinar séu þægilegar og þjóni vel flæði umferðarinnar.

Það sem getur svo verið viðbótarávinningur með vegalagningu úti í firðinum er nýtt land. Byggingarland fyrir innan veginn. Hér er oft kvartað yfir skorti á lóðum í neðri bænum og helstu hugmyndir að teygja á byggðinni langt upp eftir Bjargslandinu og vestur yfir Borgarvoginn. Landfylling sitthvoru megin við Digranesið, að ég tali nú ekki um að endurskoða skipulag Brákareyjar (sem væri efni í annan pistil) væri lausn sem vert er að skoða.

Þeir aðilar sem bjóða þjónustu í Borgarnesi og halda að engir komi til þeirra nema tilneyddir, ættu að finna sér eitthvað annað að gera. Þeir hljóta að vera lélegir markaðsmenn, lítt áhugaverðir að heimsækja og með sjálfsmat af verstu sort.

Ég ítreka, tökum brosandi á móti gestunum sem velja að koma til okkar að sækja fallegt bæjarstæði heim, skoða allt það áhugaverða sem í boði er og kaupa þjónustuna sem veitt er fúslega og með gleði.

 

Signý Jóhannesdóttir