Ég kýs á móti hálfkláruðum samningi

Sigurbjörg Ottesen

Síðustu daga hef ég verið afar hugsi yfir þeim endurskoðunarákvæðum sem að ríkisvaldið og Bændasamtök Íslands undirrituðu þann 25. október sl. um starfsskilyrði í nautgriparækt.

Eftir fagurorða kynningu á efnistökum samningsins sem að var í höndum forystu Landssambands kúabænda er ég búin að vera að bögglast með ýmsar pælingar í kollinum sem að mér gengur illa að fá til að ganga upp, öðruvísi en að greinin og margar byggðir landsins hljóti skaða af. Það er mín skoðun.

„Ef-in“ í þessum nýundirritaða samningi eru fyrir það fyrsta að mínu mati of mörg og er það mín tilfinning að ekki hafi verið gefinn sér sá tími sem að til þurfti til að leggja fyrir okkur bændur fullbúinn samning, að mestu lausan við þessi blessuðu „ef“.

Í einum lið samningsins er t.d. minnst á það að eitthvað eigi að gera til að styrkja stöðu minni búanna í landinu. Hvað það er veit enginn. Þessu máli var vísað í nefnd vegna tímaskorts og á nefndin að skila niðurstöðu á vordögum. Hver semur um svona óvissu nema honum sé bara sama um minni búin? Að minnsta kosti held ég að ekki nokkur samninganefnd önnur en bænda léti bjóða sinni stétt upp á annað eins. Auk þess fá verðlagsmál sömu meðferð. Kemur í ljós í vor, takk! Og bara allir sáttir eða?

Atriði eins og fyrirkomulag greiðslumarks markaðar eru einkennilegt og verulega vegið að nýliðum greinarinnar sem skv. þessum nýja samningi hafa forgang að 5% þess greiðslumarks sem er á markaði hverju sinni. Fyrirkomulag greiðslumarks viðskiptanna þykja mér einnig afar umhugsunarverð. Það að setja á markað þar sem að verðið á að ráðast af svokölluðu jafnvægisverði en þó með þeim varnagla að hámarksverð verði sett á ef þurfa þykir. Af hverju er þetta hámarksverð ekki sett á strax? Af hverju í ósköpunum mega viðskipti með greiðslumark ekki bara vera frjáls? Þá getur seljandi ákveðið það sjálfur hvort hann vilji styðja við sína heimabyggð með því að selja greiðslumarkið á umsömdu verði innan héraðs, nú eða hann selur bara þangað sem að hann vill. Þannig er mögulegt að að koma í veg fyrir að greiðslumark safnist að miklu leyti saman á ákveðin svæði, svæði þar sem aðgengi að fjármagni er gott. Svæði eins og Erpsfjörð í íslensku bíómyndinni Héraðinu. Og þá að verðinu. Af hverju er mér sem kúabónda ekki treyst til þess að meta það sjálf, ásamt mínum lánveitanda komi til þess að ég þurfi að leita á náðir hans, á hvaða verði minn búrekstur hefur bolmagn til að kaupa greiðslumark á? Þessi forræðishyggja er mér óskiljanleg. Það er gott á þessum tímapunkti að það komið fram að ég er fylgjandi greiðslumarki og kaus með því fyrr á árinu.

Oft hefur verið talað um að ekki sé uppi rétt mynd á því hver eftirspurn og framboð á greiðslumarki er. Með sanni má segja að frost hafi verið á markaðinum sl. ár. Hvorki kemst fólk út úr greininni sem það vill og svo er ekki mögulegt að komast yfir greiðslumark fyrir þann sem vill kaupa það. Ég hreinlega spyr mig að því hvort að slagurinn um greiðslumark eins og fyrirkomulagið er hugsað í þessum samningi, verði ekki svo harður að þeir sem að nægt fjármagn hafa á bakvið sig og eru jafnan kenndir við ákveðinn fjörð á Íslandi bjóði ekki svo hátt verð að ég verði hreinlega að fara að smala þeim bændum saman sem ekki þurfa eða ætla að kaupa greiðslumark og fá þá til að leggja inn tilboð í þann fjölda lítra sem að sækjast má í hverju sinni og bjóða t.d. 1 kr. á líterinn til að halda verðinu niðri á þessu jafnvægisverði og að greiðslumarkið dreifist sem best um landið? Þetta er allavega ekki að fara að varpa réttu ljósi á markaðsaðstæður hverju sinni. Ef að ég eða hver annar kúabóndi get samið sem seljandi og kaupandi, maður á mann þá hlýtur það að vera einfaldasta leiðin. Ef að það er verið að spá í því að markaður þurfi að vera til að nýliðar hafi forgang að sínum 5% sem að í boði eru hverju sinni þá held ég að það mætti nú bara sleppa því. Það er mín trú að í maður á mann viðskiptum sé nýliðum auðveldaður aðgangur að greiðslumarki miðað við þetta kerfi.

Mig langar að setja dæmið upp á mjög einfaldan hátt.  Í sömu sveit eru tveir framleiðsluaðilar í mjólkurframleiðslu og þeirra tími til að stíga til hliðar er kominn. Öðrum aðilanum er sama um það hvert greiðslumarkið sem að hann er að selja fer. Hinum aðilanum er mjög umhugað um það að greiðslumarkið haldist innan sveitar eða héraðs. Ungir bændur búa á þremur bæjum í nágrenninu við hina tvo og aðstæður eru misjafnar á milli bæja hvað aðstöðu og greiðslumarkseign varðar og vill aðilinn selja þeim sitt greiðslumark, á því verði sem að hann að sjálfsögðu sættir sig við, til að styrkja stöðu ungu bændanna og stöðu samfélagsins um leið. Báðar aðferðir við sölu eru góðar og gildar og gerðar í takt við hugsun hvers seljanda. Af hverju má kerfið okkar ekki vera frjálst?

Dagsetningin 25. október spilar stóra rullu í efnistökum samningsins. Hann var jú undirritaður þennan dag en þar var líka dregin lína sem lokar fyrir tilfærslu greiðslumarks á milli lögbýla í eigu sama aðila. Búið var að taka fyrir þessa flutninga fyrr á árinu en svo var þessi dagsetning fundin til að „skera einhverja kúabændur niður úr snörunni“, eins smekklega og það nú hljómar, og komist var að orði í kynningunni á samningnum. Ég set verulega stórt spurningarmerki við þessa dagsetningu og spyr mig hreinlega að því, eins og örugglega margir aðrir, hvort það sé möguleiki á að stórir greiðslumarkseigendur eigi þar hlut að máli og hafi jafnvel getað haft áhrif á að þessi lína sem að dregin var í júní fyrr á árinu var færð aftur til 25. október og þeim þar af leiðandi gert það kleift að geta gripið til einhverra aðgerða sér og sinni byggð í hag, á bak við luktar dyr. Það er eitthvað verulega loðið við þetta að mínu mati.

Ég hvet alla kúabændur til að íhuga það vandlega hvort að þetta sé virkilega það sem við viljum láta bjóða okkur uppá. Byrjum á því að fá botn í það um hvað er verið að semja.

Ég ætla að segja nei við þessum hálfkláraða samningi í komandi atkvæðagreiðslu.

Sigurbjörg Ottesen

Höf. er kúabóndi á Hjarðarfelli í Eyja- og Miklaholtshreppi