Ég er glæpakvendi
Jónína Björg Magnúsdóttir
Ég þarf að játa fyrir þér kjósandi góður að ég er glæpakvendi. Ég hef gerst sek um það að vinna yfir mig og að hlusta ekki á viðvörunarbjöllur í sjálfri mér.
Í kjölfar vinnuslyss 2016 hef ég á 1-2 ára fresti fundið fyrir einkennum sem að beinast að höfðinu. Bells Palsy í hægri andlitstaug, ristill í vinstri andlitstaug og kristallaflakk en í lok júlí 2023 framdi ég þann glæp að vinna yfir mig.
Í 1 ½ ár hafði ég unnið við að handflaka fisk og hafði einstaklega gaman af. Allt í einu var fótunum kippt undan mér og ég fékk heiftarlegan svima sem að ég hef barist við síðan í mismiklu mæli þó. Svimi sem kom útfrá vöðvabólgu en ekki kristöllum á flakki í höfðinu á mér. Sífelld sjúkraþjálfun hefur mikið hjálpað en alltaf hélt ég þó í prjónana. Ég framleiddi lopapeysur eins og ég gat og prjónarnir styttu mér stundir í veikindunum og síðar í atvinnuleysinu þegar að ég ætlaði að reyna að komast þangað aftur þó með miklum takmörkunum.
Í byrjun árs 2024 gat ég nælt í nokkur verkefni sem aukaleikari einn og einn dag og má sjá árangurinn t.d. í Ráðherran 2 en þar lék ég alþingismann.
Í sumar gat ég sinnt afleysingum í Akranesvita en gat hringt í ættingja til að hlaupa í skarðið þá daga sem að heilsan gaf sig. Ég hélt áfram að prjóna og náði að selja 4-6 peysur í vitanum. En svo kom haustið.
Í byrjun september vaknaði ég upp við mikinn svima og glæpaferillinn hófst fyrir alvöru. Það var í kjölfar prjónaæðis sem á mig sveif því auðugt ímyndunarafl mitt gerir það að verkum að ég fæ sífellt hugmyndir að litavali og mynstri og ég verð að framkvæma hugmyndirnar. Ég fór ekki strax til læknis og var það að áeggjan hjúkrunarfræðings sem taldi þetta vera kristallaflakk en ég sagði að þetta væri vegna vöðvabólgu eins og í lok júlí 2023. Til læknis fór ég þó um 17.september sem staðfesti vöðvabólguna og sagði að ekkert hjálpaði að taka bólgueyðandi töflur af því að vöðvabólga væri ekki bólga í vöðvum og æfingar við kristallaflakki og mikil inntaka íbúfen því til einskis, ráðið væri að ég hreyfði mig og gerði teygjur.
Ég fór að læknisráði og það hjálpaði, fór meira að segja til hnykkjara og þá leið mér svo vel að ég gætti ekki að mér og prjónaði heilan dag í beit. Svimakast kom yfir mig eins og aldrei fyrr.
Hinn mikli glæpur minn raungerðist og fólst í því að ég hafði ekki heilsu til að líta í tölvu eða síma í einn og hálfan sólarhring. Af þeim völdum missti ég af boðun frá Vinnumálastofnun um upplýsingafund. Boðið kom kl. 11 á mánudagsmorgni um fund sem að átti að eiga sér stað kl. 11 á þriðjudagsmorgni daginn eftir. Sem atvinnulaus aumingi á ég bara að sitja við símann og bíða eftir boði frá kerfinu EN þar sem að sviminn hjá mér olli því að ég var ekki líkamlega fær um að kíkja í tölvu eða síma fyrr en rúmlega 12 á hádegi á þriðjudegi þá missti ég af fundarboðinu. Ég var ekki líkamlega fær um að snúa höfðinu til hliðanna án þess að finna fyrir svima og kíkja í snjalltæki.
Ég hafði strax samband við Vinnumálastofnun og tilkynnti veikindin en fékk eftir nokkra daga þau svör að af því að ég tilkynnti ekki veikindi fyrr en eftir fundinn þá ætluðu þeir að taka af mér 2 mánuði af atvinnuleysisbótum. Mér þótti þetta ansi harkalegt að þetta væri refsingin en fékk þá þau viðbrögð að ég gæti alltaf sent inn læknisvottorð sem ég og gerði. Það hafði hinsvegar ekki nein áhrif önnur en þau að í bréfi frá VMST var tilvitnun í reglur breytt og ákvörðun þeirra stæði.
Glæpakvendinu féll allur ketill í eld. Hin miklu laun og mörgu krónur sem nema í mínu tilfelli 198 þ. Á mánuði skildu afnumin í 2 mánuði. Hátt í hálf miljón sem að tekin eru af mér af því að ég framdi þann glæp að vera veik.
Sem betur fer eru til stofnanir sem eiga að hjálpa okkur á móti hinum stofnununum og ég leitaði að sjálfsögðu til VLFA og Vilhjálms Birgissonar og komst í samband við lögfræðinga félagsins sem að hafa hjálpað mér að útbúa kæru á hendur Vinnumálastofnunar að refsingin sé hörð og að ekkert tillit sé tekið til veikindanna sem voru virkilega fyrir hendi í mínu tilviki.
Það er helvíti hart að taka 2 mánaða laun af einstakling fyrir slík veikindi, ég segi laun því að þetta er minn réttur sem að ég og atvinnurekandi minn höfum borgað í. Tryggingargjald og atvinnutryggingargjald er greitt og er ætlað til að grípa fólk við atvinnuleysi.
Ef að ég væri í raun slíkt glæpakvendi að ég nennti ekki á fund með Vinnumálastofnun þá er það í raun mitt mál og mínir dagar í sjóði VMST klárast fyrr og kemur niður á sjálfri mér. EN ég er ekki þannig gerð að ég svindli en kerfið vill taka af mér minn rétt í 2 mánuði.
Ég er svo heppin að vera í sambúð og eiga maka sem að er með tekjur svo að við skrimtum. Ef að glæpakvendið væri einstæð móðir eða öryrki eða ellilífeyrisþegi þá væri ég komin algerlega á félagslega kerfið. Ég ætla hinsvegar ekki að gefast upp og framboð mitt í XJ hefur bara veitt mér styrk þó svo að heilsunni hafi verið ógnað að ferðast um Vestfirði í vatnsveðri og aurskriðum og um heiðar sem betur mættu vera gerðar þó margt hafi batnað síðan í síðustu kosningum.
Ég ætla ekki að gefa mig og þó að ekkert komi út úr mínum barningi nema það að ég fái lögum breytt hjá VMST að þeim beri að boða fundi með ákveðnum fyrirvara. Ég vil að Vinnumálastofnun, sem er annars ágæt að mörgu leiti, líti ekki á þjónustuþega sína sem stöðuga síbrotamenn sem vilji bara hangsa heima og þiggja bætur.
VIÐ SKÖPUÐUM KERFIÐ OG VIÐ GETUM BREYTT ÞVÍ. Ekki vera kjósandinn sem að alltaf kvartar og gerir svo aldrei neitt. Vertu kjósandinn sem að stendur upp fyrir sjálfum sér eða þeim sem að ekki hafa kraftana til þess.
Kjósum XJ fyrir jöfnuð og réttlæti í samfélaginu
Glæpakvendið er í 2. sæti á Sósíalistaflokksins í NV kjördæmi.
Gúanósetlpan og prjónafíkillinn; Jónína Björg Magnúsdóttir