
EES og ESB – spurningar um hagsmunamat
Jóhannes Finnur Halldórsson
Þrettánda nóvember skrifaði Ólafur Adolfsson, fyrsti þingmaður Vesturlands, á Facebooksíðu sína: „Boðaði þingmenn Norðvesturkjördæmis á fund í hádeginu til að ræða þá staðreynd að Evrópusambandið ætlar að setja tolla á kísilmálm frá Íslandi og setja með því EES samninginn í fullkomið uppnám.“
Þingmenn kjördæmis eiga eflaust nokkra sameiginlegan fundi og gott að vita, ekki síst þegar mikið liggur við. Það voru skrifaðar nokkrar athugasemdir af lesendum við færslu þingmannsins og snertu ýmis atriði og m.a. kom fram hjá nokkrum að Ísland ætti að vera hluti af Evrópusambandinu, t.d. skrifaði Guðmundur Valdimarsson: „Þurfum að sameinast þeim sleppa ruglinu í kvótaflokkunum.“ Ólafur svaraði því; „aldeilis ekki einfalt hagsmunamat segir okkur annað.“ Það fannst mér athyglisvert, því ég hef ekki séð slíkt hagsmunamat, þó einfalt sé talið og óskað eftir að fá að sjá það. Það væri áhugavert að fá heildstætt hagsmunamat þeirra, sem eru mótfallnir nánara evrópusamstarfi, enda mikilvægt framlag í komandi umræðum. Frá því að ég gerði upp við mig, að skynsamlegt væri fyrir okkur að gerast aðilar að ESB, þá hef ég ekki séð slíkt hagsmunamat, meira svona orðaleiki. En til frekari umhugsunar, þá vil ég bæta við.
Af hverju á Ísland á heima í Evrópusambandinu?
Það hefur lengi verið áberandi í íslenskri umræðu að andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu vísa til einhvers „hagsmunamats“ sem á að réttlæta afstöðu þeirra. En þegar eftir slíku mati er leitað, þá er ekkert lagt fram. Þetta er ekki röksemdafærsla, heldur orðaleikur sem á að skapa tortryggni án þess að sýna raunveruleg gögn.
Hagsmunir Íslands liggja í fullri samvinnu, þó EES hafi gefið okkur ótrúlega mikið.
- Efnahagslegur ávinningur: Aðild að ESB myndi tryggja íslenskum fyrirtækjum aðgang að stærsta innri markaði heims, án tollmúra og með auknum stöðugleika í viðskiptum.
- Stöðugleiki gjaldmiðils: Með evru sem gjaldmiðli myndi Ísland losna undan sveiflum sem krónan hefur valdið, sem hefur bitnað á heimilum og fyrirtækjum.
- Öryggi og áhrif: Ísland fengi sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar sem nú þegar hafa bein áhrif á okkur í gegnum EES-samninginn. Að vera aðili er að hafa rödd, ekki aðeins að fylgja reglum sem aðrir setja.
Orðaleikir
Þegar sagt er að „hagsmunamat“ liggi að baki, en ekkert er lagt fram, þá er það í raun tilraun til að hylja skort á rökum. Ef hagsmunamat væri til, væri eðlilegt að birta það og ræða það opinberlega. Að halda því fram án þess að sýna gögn er ekki málefnaleg umræða, heldur pólitísk tækni.
Tími til að taka afstöðu
Íslendingar hafa lengi verið hluti af evrópsku samfélagi í gegnum EES, Schengen og fjölmörg samstarfsverkefni. Aðild að ESB er rökrétt framhald þessarar vegferðar. Hún myndi styrkja stöðu Íslands, tryggja framtíð okkar í alþjóðlegu samstarfi og skapa betri grundvöll fyrir unga kynslóð sem vill lifa í stöðugu og opnu samfélagi.
Þegar tekin var ákvörðun að verða aðili að EES samningnum, var það að vísu ekki á grundvelli hagsmunamats, heldur vegna þess að við myndum „Viðeyjarstjórnarinnar“ var það hluti af samningi um myndun þeirrar ríkisstjórnar. Nú vildu allir þá „Lilju kveðið hafa“.
Við eigum ekki að láta orðaleiki ráða för. Ef andstæðingar aðildar hafa raunverulegt hagsmunamat, þá eiga þeir að leggja fram slíkt heildstætt mat. Þar til það gerist er ljóst að rök fyrir aðild Íslands að ESB eru sterkari, gagnsærri og byggja á framtíðarsýn sem þjónar hagsmunum þjóðarinnar.
Orihuela Costa á Spáni, 25. nóvember 2025,
Jóhannes Finnur Halldórsson