E-deild verði L-deild

Guðjón S. Brjánsson

Jafnaðarmenn hafa sett sér takmark um að bæta heilbrigðisþjónustu á komandi kjörtímabili, m.a. með auknu forvarnarstarfi og styttingu biðlista niður í 3 – 6 mánuði að jafnaði.

Ekki sé nægilegt að bæta inn stórfelldum fjármunum í kerfið, nauðsynlegt sé að endurskoða skipulag allrar heilbrigðisþjónustu, á hvaða stigum hún er veitt og hlutverk hinna einstöku stofnana, bæði hvað varðar heilsugæslu og sjúkrahúsþjónustu. Mikilvægt atriði í þessu sambandi er að hlutverk Landspítala verði skilgreint og að heilbrigðisstofnanir utan Reykjavíkur fái aukið hlutverk og verði betur nýttar.  Með því megi ná betri árangri, hagkvæmni og sátt meðal íbúanna.

Settir hafa verið að undanförnu peningar í átak til styttingar biðlista í nokkrum aðgerðaflokkum. Meðal þeirra eru liðskiptaaðgerðir en líklega bíða nú nær 1200 manns eftir liðsinni á þessu sviði en bið eftir aðgerð hefur verið u.þ.b. eitt ár að jafnaði.  Þessar aðgerðir eru framkvæmdar á þremur sjúkrahúsum í landinu, Akranesi, Akureyri og á Landspítala.

Framkvæmd átaksins gengur eftir atvikum vel miðað við þær forsendur sem gefnar hafa verið. Fjölgun aðgerða á Akranesi nema um 80 á þessu ári og verða því í heild um 180 sem er hvergi nærri nóg.  Engar ákvarðanir hafa verið teknar um framhaldið.

Þótt þessi aukning stytti sennilega tímabundið biðlista í kerfinu, þá dugir þetta skammt.  Gert er ráð fyrir að hægt verði að halda í horfinu þetta ár og hugsanlega fram á það næsta en síðan muni að óbreyttu allt fara í sama horf og áður, biðlistar lengist.  Þetta kemur m.a. fram í mati sex nema við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík í nýlegri meistararitgerð.

Þar kemur fram að ekki takist að koma á sæmilegu jafnvægi í þessari þjónustu með tímabundnu átaki sem þessu. Auka verði afköst í kerfinu til einhverrar framtíðar.  Liðskiptaaðgerðir eru ekki flokkaðar sem bráðaaðgerður, heldur sem valaðgerðir sem skipulagðar eru fyrirfram.  Fagfólk er sammála um að það fari miður vel á því að gera aðgerðir sem þessar í bland við bráðaaðgerðir eins og Landspítala og að hluta til á Sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem oft þarf að aflýsa eða færa til aðgerðir vegna óvæntra atvika, slysa eða bráðatilvika. Þetta veldur sjúklingum óþægindum eins og margir hafa upplifað og er kostnaðarsamt í heildina.

Á Akranesi er starfseminni að mörgu leyti háttað öðruvísi. Valaðgerðir af ýmsu tagi er stærri þáttur.  Þar er sterkur vilji til að koma á fót sérstakri liðskiptadeild með lágmarks tilkostnaði.  Heil legudeild stendur nú tóm og þarfnast ekki endurbóta svo nokkru nemi.  Með skipulags- og áherslubreytingum er hægt að fjölga aðgerðum á þessu sviði og gera árlega a.m.k. 300 aðgerðir með minniháttar innviðabreytingum og 600 – 800 liðskiptaaðgerðir með aukinni sérhæfingu og faglegum umsvifum.  Að þessu þurfum við að vinna ötullega.

Fái ég til þess stuðning í komandi kosningum mun ég beita mér í þessu brýna verkefni.   Kjósum heilbrigðara og réttlátara samfélag fyrir alla.

Guðjón S. Brjánsson.

Höf. skipar 1. sæti á lista Samfylkingar í NV kjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar