Dílatangi-Kveldúlfsgata

Guðsteinn Einarsson

Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022

Nýverið var auglýst; „Tillaga að breytingu fyrir Dílatanga og Borgarvog, Borgarnesi.“ Þegar þessi tillaga er lesin yfir vekur fyrst athygli að verið er að fara í aðalskipulagsbreytingar á takmörkuðum hlutum bæjarins á skipulagi sem aðeins er áætlað til 2022 þ.e. í tvö ár.  Hitt sem vekur athygli er að í skipulagslýsingunni er hrært saman upplýsingum og tillögum fyrir tvö aðskild svæði í stað þess að taka fyrir hvort svæði fyrir sig, sem gerði það einfaldara fyrir lesendur að átta sig á hvert er verið að fara, og hvaða breytingar er raunverulega verið að gera tillögur um.

Á blaðsíðu 2 í tillögunum þá segir að Íbúðasvæði, Kveldúlfsgata, Kjartansgata, Þorsteinsgata sé 7,8 ha. sé fullbyggt og tilvitnaði í uppdrátt Í4.  Sama gildir um Íbúasvæði Kveldúlfsgata 1,8 ha. sé fullbyggt og tilvitnað í uppdrátt Í5.

Þegar kemur að blaðsíðu 4 þá er fjallað um „Fyrirhugað deiliskipulag fyrir Dílatanga.“ Þar segir meðal annars: „Skoða á hvort mögulegt er að bæta við byggingarlóðum og jafnframt þarf að lagfæra lóðamörk í kringum hjúkrunarheimili og heilsugæslu.“ Þar er líklega kominn hinn raunverulegi tilgangur með skipulagsvinnunni, að bæta á við nokkrum lóðum á svæðið.

Á blaðsíðu 5 kemur þetta: „Við Kveldúlfsgötu er gert ráð fyrir tveimur nýjum fjölbýlishúsum.“ Samkvæmt teikningum og texta á að troða þeim niður á milli núverandi fjölbýlsihúsa (18-22 og 24-28) og við endann á nr. 28.  Til þess að gera þetta mögulegt á að skerða opin svæði og skerða lóðir þeirra húsa sem þarna standa, skerða þinglýst lóðaréttindi eigenda íbúða í húsunum 18-28, án nokkurs samráðs við þá.

Þá á að sameina lóðirnar á Borgarbraut 61 og Kveldúlfsgötu 2B þannig að þar verði hægt að byggja stórhýsi í stíl við Hótel B59, sem um leið gerir umferð af Kveldúlfsgötu inná Borgarbraut enn hættulegri en nú er.

Þegar þetta er skoðað þá virðist það alveg gleymt að sveitarstjórn og skipulagsyfirvöld voru gerð afturreka með skipulagsbreytingar á árinu 2017 því íbúar við Kveldúlfsgötu vildu ekki fjölgun íbúða á svæðið.

Á kynningarfundi í Menntaskólanum 4. júní 2019 kom skýrt fram að enginn áhugi er meðal íbúa á þessari þéttingu byggðar. Eftir spjall við nokkra nágranna mína við Kveldúlfsgötu þá verður áhuga á þéttingu byggðar á svæðinu ekki vart nú frekar en áður.

Líklega má telja að þeir sem kjósa að búa í Borgarnesi hafi frekar áhuga á þorpsbrag, dreifðari og rýmri byggð, frekar en þröngri háhýsabyggð þar sem útsýnið er innum glugga hjá nágrönnunum.

Það má því segja, að fyrir utan að ramma inn lóðir Dvalarheimilsins, þá sé þessi skipulagsvinna algjörlega óþörf, séð frá sjónarhóli íbúa svæðisins.

En líklega er hún ekki hugsuð með hagsmuni íbúa við Kveldúlfsgötuna að leiðarljósi, heldur með hagsmuni byggingaverktaka og fasteignabraskara í huga.

Að auki mundi bygging þessara fjölbýlishúsa fylgja mikil rask, óþægindi og hætta vegna þungaumferðar á byggingartímanum í og um fullbyggt íbúðarsvæði.

Frestur til þess að skila inn athugasemdum við þetta er til 14. febrúar 2020.

Ég hvet íbúa sem eru þessum áformum mótfallnir að skila inn athugasemdum og mótmælum!

Borgarnesi, 2. febrúar 2020.

Guðsteinn Einarsson, Kveldúlfsgötu, Borgarnesi.