Dalabyggð – brothætt byggð?

Þorgrímur Einar og Bjarnheiður

Í vetur gerði Byggðastofnun samning við Dalabyggð um verkefnið Brotthættar byggðir. Markmiðið er að aðstoða okkur sem Dali byggja, til að bæta mannlíf á svæðinu, með frumkvæði íbúanna í stafni. Skipuð hefur verið verkefnisstjórn, með fulltrúum frá Byggðastofnun, SSV, sveitarfélaginu og íbúum, en það erum við Bjarnheiður og Þorgrímur, sem vorum skipuð af sveitarstjórn. Verkefnið er til fjögurra ára.

Núna með vorinu ýtum við úr vör verkefninu í Dalabyggð með því að blása til íbúaþings í lok mars, þar sem stefna verkefnisins verður ákveðin á lýðræðislegan hátt. Einn styrkleika Brothættra byggða er klárlega sú staðreynd að hér er ekki verið að huga að einsleitri atvinnuuppbyggingu og ekki endilega atvinnuuppbyggingu yfirleitt, heldur verður skoðað í víðu samhengi hvað þarf til að gera framtíðina góða í Dalabyggð. Hvernig getum við sem samfélag hlúð að okkur og hvort öðru? Hvernig gerum við Dalabyggð áhugaverða fyrir yngri borgara og eldri borgara? Hvernig hlúum við að börnum og nýbúum, hvað gerum við okkur til gamans og hvernig viljum við að heimurinn sjái Dalabyggð?

Svo skemmtilega vill til að enginn er að fara að troða einhverju upp á íbúana sem þeir vilja ekki. Því það eru íbúar sem leggja línur og forgangsraða verkefnum. EN… bara þeir íbúar sem mæta á íbúafundinn. Spjall við eldhúsborðið heima veitir því miður engin völd. Því er mikilvægt að ef fólk vill hafa áhrif á einhverju um framtíð Dalabyggðar, þá ætti það að fría helgina 26. og 27. mars og mæta til þings. Til að gera íbúaþingið markvissara þá ætlum við undirrituð að halda kjafti og hlusta, í stað þess að skipta okkur of mikið af því hvernig þið sjáið fyrir ykkur framtíðina í Dalabyggð. Það er nú tilbreyting sem verður seint endurtekin og mikilvægt að verða vitni af því!

En að öllu gamni slepptu þá leitum við til hins almenna íbúa og velunnara Dalabyggðar til að koma og hafa mótandi áhrif á framtíð samfélagsins í Dalabyggð. Til þess að svo megi verða langar okkur að hvetja ykkur til að byrja nú þegar að undirbúa ykkur fyrir íbúafundinn, ræðið málin í ykkar hópi, skannið landslagið og upphugsið ykkar drauma samfélag. Endilega drífið alla vini og vandamenn með ykkur á íbúaþingið, því fleiri, þeim mun meira hafa íbúar og velunnarar að segja.

Vonandi getur verkefnið af sér bjartsýni og þann kraft sem gerir Dalabyggð höggþolna og sterka, í stað þess að vera skilgreind brothætt byggð. Við sem sitjum í stjórn verkefnisins fyrir hönd íbúa í Dalabyggð, hlökkum til að takast á við verkefnið og vinna með ykkur að útfærslu þeirra verkefna sem íbúar ákveða að fara í.

 

Þorgrímur Einar Guðbjartsson, Erpsstöðum

Bjarnheiður Jóhannsdóttir, Jörva