Covid-19, árangur næst ekki af sjálfu sér

Björn Bjarki Þorsteinsson

Senn líður að hausti þetta viðburðaríka ár 2020. Ýmis áföll hafa dunið á þjóðfélaginu, samfélagsleg og efnahagsleg. Alþingi og ríkisstjórn hafa brugðist við með ýmsum hætti og nokkrir eru þeir orðnir „pakkarnir“ sem samþykktir hafa verið í þeim fjáraukalögum sem Alþingi hefur samþykkt. Heilbrigðiskerfið og sá frábæri mannauður sem innan þess geira er hefur staðið vaktina með miklum sóma, horft hefur verið til árangurs á Íslandi af alþjóðavettvangi. Hjúkrunarheimilin á Íslandi standa þar m.a. í stafni, sá árangur sem náðst hefur til þessa er á heimsmælikvarða á hjúkrunarheimilum landsins, þökk sé frábæru starfsfólki.

Í því ljósi má það undrum sæta að enn, þrátt fyrir alla fjáraukana, hafa hjúkrunarheimilin ekki fengið neinn viðurgjörning í fjáraukalögum þeim sem samþykkt hafa verið. Ríkisrekin heilbrigðisþjónusta hefur fengið „innspýtingu“ en ekki þær fjölmörgu öldrunarstofnanir sem langflestar eru annaðhvort reknar af sjálfseignarstofnunum eða sveitarfélögum.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa ítrekað bent á mikilvægi þeirra aðgerða sem hjúkrunarheimilin í landinu gripu til á vormánuðum og einnig nú, þegar Covid 19 bylgja ríður yfir samfélagið að nýju. Aðgerðir hjúkrunarheimilanna og það hvernig brugðist var til varna hafði mikið að segja t.a.m. varðandi álag á sjúkrahúsin í landinu.

Þessi árangur varð ekki til af sjálfu sér og fól í sér aukinn kostnað sem verður á mæta. Aukavaktir komu til vegna sóttkvíar annarra starfsmanna, útbúin voru sóttvarnarhólf og starfsmannahópum skipt upp til að minnka líkur á smitum. Margir starfsmenn þurftu að taka á sig meiri vinnu en þeir eru ráðnir til og lengi mætti telja, eins og fyrr sagði, ekkert gerist af sjálfu sér og allt kostar bæði mikla vinnu og peninga.

Við forsvarsfólk hjúkrunarheimilanna í landinu bindum vonir við fjáraukapakka haustsins og viljum treysta því að heilbrigðisráðherra og Alþingi allt standi með þessum mikilvæga hlekk í samfélaginu sem hjúkrunarheimilin eru.  Eins bindum við vonir við að fjárlaganefnd fylgi eftir áliti sínu um stöðu hjúkrunarheimila, bæði vegna verkerfna sem hafa komið til vegna Covid-19 faraldursins sem og vegna fjárveitinga til þeirra til lengri tíma vegna fjárhagsvanda þeirra nú og undanfarin ár.

Ég skora á Alþingismenn alla að láta nú verkin tala í aðgerðum til að styðja við og styrkja hjúkrunarheimilin í landinu í þágu hagsmuna þeirra sem þar eiga heima og samfélagsins alls.

 

Björn Bjarki Þorsteinsson

Höf. er framkvæmdastjóri Brákarhlíðar í Borgarnesi og varaformaður stjórnar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.