Byltingin – étur hún ekki börnin sín?

Signý Jóhannesdóttir

Þessa dagana heyrum við hljóma úr ýmsum áttum gamalkunnug orð og orðasambönd sem jafnvel gleðja alþingismenn íhaldsins svo að þeir halda að Kalda stríðið hafi verið sært upp frá dauðum.  Orð eins og: arðrán, auðvald, kapítalistar, vor í verkó, óvinir alþýðunnar og fleira í þeim dúr.

Þetta eru auðvitað allt gamlir kunningjar, ekki síst hjá mér sem alin er upp af verkalýðsleiðtogum sem í raun voru gamaldags kreppukommar. Ég hef aftur og aftur á þeim 40 árum sem ég hef tekið þátt í starfi verkalýðshreyfingarinnar þurft að skóla sjálfa mig til. Þær vinnuaðferðir sem dugðu þegar leiðtogarnir helltu niður mjólk, grýttu lögregluna, eða jafnvel börðu lögreglumenn í hausinn með hömrum í slagsmálum um málefnin, duga ekki til árangurs í dag. Mér var til dæmis innrætt að hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur réði íhaldið og verslunarráðið, á Akureyri væru bara Framsóknarmenn sem væru leiðitamir Sambandinu, en það væri í lagi að vinna með Húsvíkingum því þar væru framsæknir foringjar, Gvendur Jaki hefði verið góður leikari og fleira í þeim dúr. Þetta er veganestið sem ég fékk í þeim verkalýðsháskóla sem ég stundaði nám við í gömlu kommahöllinni á Siglufirði.

Síðan líða árin, samfélagið tekur breytingum, nýtt fólk kemur fram á sjónarsviðið og baráttuaðferðirnar sem dugðu vel á árunum fyrir stríð heyra nú sögunni til. Það er hollt að þekkja söguna og getað horft til baka og metið hvað af því sem maður lærði af gömlu meisturunum er sígilt og hvað var beinlínis rangt, eða stenst ekki tímans tönn.

Starf í forystu lítils stéttarfélags er oftast vinna 24 x 7 ekki 9-5 vinna og frí um helgar.

Allan þann tíma sem ég hef starfað fyrir verkalýðshreyfinguna hefur það verið ákveðið ströggl að fá fólk til starfa. Nákvæmlega þessa dagana er ég að leita að trúnaðarmönnum fyrir félagið mitt og gengur ekkert alltof vel. Það er ákveðinn þröskuldur sem þarf að toga fólk yfir, en oftast eru þeir einstaklingar sem koma til starfa á endanum mjög ánægðir, þegar þeir kynnast síðan starfinu. Ég hef líka kynnst einstaklingum sem koma með látum og vilja endilega gerast trúnaðarmenn, því það þurfi sko að breyta og bæta ýmislegt. Visslulega þarf mörgu að breyta og margt að bæta, en það gerist sjaldnast með látum. Þeir sem halda að það sé nóg að arga og stappa niður fæti einu sinni, endast sjaldan lengi í þessum störfum, gera jafnvel meira ógang en gagn.

Lífið er langhlaup

Alþýðusamband Íslands, sem er samband landssambanda og félaga með beina aðild, fetar nú fyrstu árin á sínu öðru hundraði. Sigrar samstöðunnar hafa verið margir og merkilegir. Þeir sem tilheyra 21. öldinni eru t.d. fræðslusjóðir almenns verkafólks og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Eins mætti nefna Virk starfsenduhæfingu og alla þá starfsemi sem þar fer fram. Nýjasta stórvirkið sem er í burðarliðnum er Bjarg íbúðafélag, þar sem unnið er með BSRB og er að danskri fyrirmynd. Okkur verkamönnum þessarar hreyfingar hættir stundum til að vera ekki nægilega meðvituð um hversu stór þau mál eru sem unnið er að hverju sinni, meðan við erum á kafi í vinnunni.

Ef einhver vinur minn er enn að lesa, þá gæti verið að sá hinn sami spyrji sig: Hvert er konan að fara? Jú, ég hef áhyggjur af nýbreytni í þessari hreyfingu. Nýbreytni sem þó er gamalt vín á nýjum belgjum.

Upp eru risnir nýir frelsarar, einstaklingar sem telja sig geta frelsað verkafólk á Íslandi frá óvinum alþýðunnar. Hvar eru svo þessir óvinir? Jú, þeir eru víst í miðstjórn ASÍ með forsetann í fararbroddi. Þeir eru víst líka í eftirlaunasjóðunum okkar, þar grasserar gróðahyggja og geymsluþrá, sjóðasöfnun sem er af hinu illa. Eins þarf að bjarga okkur frá verðtyggingunni, sem að mati frelsaranna er upphaf og endir alls óláns verkafólks, nærir verðbólguna og er orsök hárra vaxta. Þessa síðustu fullyrðingu get ég með engu móti skilið.

Undirrituð hóf ung búskap og tók lán á árunum áður en verðtryggingin var fundin upp. Þau lán báru 46% vexti og það margborgaði sig að taka þau, því verðbólgan var yfir 80%. Þessa tíma sakna ég þó ekki. Ég geri ekki ráð fyrir að í bankaviðskiptum nútímans verði lánað á neikvæðum vöxtum, en ég er víst hvorki byltingarsinni né frelsari og langt frá því að vera sérfræðingur í peningamálum.

Hvers vegna óttast gömul kerling róttækar frelsishetjur?

Hetjurnar hafa tamið sér að tala hátt og fara mikinn, tala illa um ákveðna leiðtoga og enginn spyr hvort eitthvað sé satt í því sem sagt er. Ný aðferð í fjölmiðlum: Skjóta, en spyrja ekki! Sá sem er skotinn kemur sjaldnast vörnum við.

Lýðræðið er yndislegt, en þegar lýðurinn, fólkið, félagsmennirnir taka ekki þátt, verða það örfáir af heildinni sem fara með völdin. Þá hefur lýðræðið snúist upp í andhverfu sína. Vita t.d. margir hversu stór hluti íbúa BNA kusu Trump sem forseta? Hversu stór hluti í stærsta stéttarfélagi landsins hefur í raun kosið síðustu fjóra formenn? Hversu margir Reykvíkingar kusu flugvöllinn burt og hversu í raun það var lítið brot af þeim sem nota völlinn?

Þetta eru bara þrjú dæmi af mörgum þar sem meirihlutinn lætur mjög fámennan minnihluta ráða ferðinni og afleiðingarnar eru ófyrirséðar að ekki sé meira sagt.

Það sem ég hef ekki síður áhyggjur af er að stundum er það svo að þeir sem telja sig vera róttæka eru það alls ekki, en tekst með hjálp samfélagsmiðla og nettrölla að sannfæra aðra um að þeir séu best til þess fallnir að gera allt fyrir alla og það kosti ekki neitt. Það að „hinir“ séu ekki búnir að redda málunum sé bara af því að „hinir“ eru svo lélegir!

Var ekki birt

Þetta sem hér að ofan er ritað er ein af þessum greinum sem ég hef skrifað en ekki birt. Var skrifað í Borgarnesi 28.02.2018. Oft finnst mér gott að setja hugsanir mínar á blað, en ég hef enga sérstaka þörf fyrir að senda það allt frá mér. Það sem breytir því að ég ákvað að birta þetta er að nú er svo komið að hetjurnar eru komnar til valda og við hin hljótum að bíða spennt eftir betri tíð með blómum í haga.

Hér á Vesturlandinu hafa hetjurnar smitað út frá sér og nú er komið mótframboð til stjórnar Stéttarfélags Vesturlands. Eitthvað sem mér er sagt að hafi síðast gerst hjá Verkalýðsfélagi Borgnesinga árið 1964. Nú verða félagsmenn að gera það upp við sig hvort þeir eftirláta mjög litlum hluta félagsmanna að velja sér forystu og ekki síður hvort þeir velja þá, sem dást að stjórnarháttum sem eiga rætur að rekja í úreltum slagorðum krepputímans, gulum vestum og ofbeldi að hætti Frakka.

Þeir geta líka valið að treysta því að með þekkingu, þrautseigju og þrotlausri vinnu muni verkalýðshreyfingunni takast áfram að bæta kjör okkar allra.

Hvort vilja félagsmenn aukinn kaupmátt og betri lífskjör í hægum skrefum – eða kollsteypur, með aðferðafræði sem var stunduð fyrir 1990 áður en menn fundu upp þjóðarsáttina?

 

Signý Jóhannesdóttir.

Höf. er formannsefni á A-lista trúnaðarráðs Stéttarfélags Vesturlands.