Byggjum upp jákvæðan byggðarbrag í Borgarbyggð

Bjarki Þór Grönfeldt Gunnarsson

Það hefur verið fróðlegt og skemmtilegt að taka þátt í kosningabaráttu fyrir sveitarstjórnarkosningar fyrir ungan mann sem er að flytja heim í Borgarbyggð eftir nokkuð langa útilegu í útlöndum og Reykjavík. Ég hef farið með öðrum frambjóðendum Vinstri grænna víða um sveitarfélagið og átt samtöl við fjölda fólks. Þó sum vandamál séu gömul, og jafnvel uppsöfnuð, kveður við nýjan og jákvæðan tón á mörgum sviðum í samfélaginu. Mér finnst við vera að færast nær hvoru öðru, og Borgarbyggð er smátt og smátt að verða að raunverulega sameinuðu sveitarfélagi. Til að mynda var haldin sameiginleg árshátíð allra starfsmanna sveitarfélagsins um nýliðna helgi (mér var ekki boðið, en kannski næst!), en það er gott dæmi um framtak sem hristir fólk saman af ólíkum svæðum í þessu víðfeðma sveitarfélagi. Stjórnendur sveitarfélagsins eiga að hamra járnið á meðan það er heitt og viðhalda þessari jákvæðu þróun með því að tengja saman ólík byggðarlög innan sveitarfélagsins með viðburðum og samkomum. Það er lykilatriði í jákvæðum byggðarbrag að í hugum íbúanna sé sveitarfélagið ein heild og samgangur sem mestur.

Liður í þessari þróun er líka aukinn samgangur milli nemenda í grunnskólunum í sveitarfélaginu. Það er mikilvægt að krakkarnir kynnist betur og ég tel kjörið að við næstu endurskoðun skólastefnu Borgarbyggðar verði það gert að sérstöku markmiði. Ýmsar leiðir eru færar til þess og hægt að byggja á þeim grunni sem þegar hefur verið byggður í gegnum tómstundir og íþróttastarf. Til að mynda er tómstundarúta sveitarfélagsins frábært framtak sem hefur verið vel nýtt, og kjörið að efla umgjörðina í kringum hana með aukinn samgang grunnskólanema í huga á næsta kjörtímabili. Það er ekki bara uppbyggilegt og þroskandi fyrir krakkana sem einstaklinga að kynnast jafnöldrum í öðrum skólum í héraðinu heldur hefur samfélagið í heild sinni hag af því að það skapist einhvers konar sameiginleg sjálfsmynd í hugum okkar um „Borgarbyggð“, óháð gömlum hreppamörkum, þar sem við þekkjumst öll innbyrðis og tengjumst böndum. Þannig byggjum við upp jákvæðan byggðabrag.

Það á því að halda áfram í því að auka samgang barna og ungmenna í sveitarfélaginu eins og kostur er, ekki síst þar sem stór hluti þessara krakka munu síðan mætast í Menntaskóla Borgarfjarðar. Menntaskóli Borgarfjarðar hefur nú verið starfandi í 15 ár og sannað sig sem ein af grunnstoðum samfélagsins. Framsækni hefur frá upphafi verið aðalsmerki Menntaskólans. Þótt ótrúlegt megi virðast í dag, þegar tölvunotkun er orðin almenn og sjálfsögð á öllum sviðum, var MB fyrsti skólinn til að gera fartölvuna að sjálfsögðu vinnu- og námstæki inni í skólastofunni. Nú er skólinn að endurskoða námsframboð sitt byggt á vinnu starfshóps um „Menntun fyrir störf framtíðarinnar“. Stefnan er að koma upp svokölluðu Framtíðarveri í skólanum þar sem nemendum gefst færi á að tvinna bóknámið við verklegar greinar og skapandi hugsun, eftir áhugasviði hvers og eins. Þessi nýbreytni mun auka sérstöðu Menntaskólans og vekja á honum mikla athygli, og eflaust gera hann að aðlaðandi kosti fyrir verðandi framhaldsskólanema víðar að af landinu. En þá þarf skólinn að vera reiðubúinn að taka á móti auknum fjölda nemenda.

Menntaskólinn hefur verið vítamín-sprauta inn í samfélagið, en það sem hefur skort í gegnum tíðina er framtíðarlausn um fyrirkomulag nemendagarða. Á næsta kjörtímabili þarf sveitarstjórn að setjast niður með stjórnendum Menntaskólans og finna fjárhagslega sjálfbæra leið til þess að reisa slíkt úrræði. Með því að reisa nemendagarða í nýju og vel búnu húsnæði, væri stutt betur við nemendur í uppsveitum og sömuleiðis yrði MB að raunverulegum valkosti fyrir aðra nemendur víða af landinu. Það er auðvelt að tína saman tölulegar staðreyndir um hækkað menntunarstig og ávinning af því fyrir svæðið, en sveitarfélagið er einfaldlega líflegra og skemmtilegra þegar það er fleira ungt fólk á svæðinu. Þá yrðu vel hannaðir nemendagarðar á góðum stað í Borgarnesi til mikillar prýði, svo það er allt að vinna.

Ég, sem og aðrir frambjóðendur Vinstri grænna, er til þjónustu reiðubúinn við að bæta samfélagið okkar. Alls eru fjórir listar í framboði í Borgarbyggð, og þó ég vissulega hvetji alla til að setja X við V, þá er mikilvægast að sem allra flestir mæti og nýti atkvæðisréttinn. Ég hlakka til þess að starfa að málefnum sveitarfélagsins með fulltrúum hinna framboðanna á komandi kjörtímabili, fáum við í VG til þess umboð.

 

Bjarki Þór Grönfeldt Gunnarsson

Höf. er í 5. sæti á lista Vinstri grænna í Borgarbyggð