Byggjum upp á góðum grunni

Magnús Smári Snorrason

Samfylking og óháð bjóða fram lista í sveitarstjórnarkosningum í Borgarbyggð. Þar er á ferðinni einbeittur hópur sem sér hag í því að sveitarfélagið nýti þau miklu og fjölbreyttu tækifæri sem blasa við. Það eru tækifæri til að bæta þjónustu og búsetuskilyrði, byggja upp innviði og mannauð og ekki síst til að efla samtal og samvinnu í Borgarbyggð.

Áherslur framboðsins verða á ráðdeild í fjármálum, bætta þjónustu og uppbyggingu í sinni víðustu mynd. Með skýrri markmiðasetningu í anda þess sem gert var á síðasta kjörtímabili í sameiginlegu verkefni sveitarstjórnar sem kallað var „Brúin til framtíðar“, aðhaldi og sókn er hægt að styrkja enn frekar fjárhag Borgarbyggðar. Jafnframt þyrfti að taka varfærin en ákveðin skref í að draga úr gjöldum, lækka fasteignaskatta og gera þannig Borgarbyggð alla að enn álitlegri búsetukosti. Í því samhengi er nauðsynlegt að efla stjórnsýsluna til þess að takast á við aukin og flóknari verkefni tengd skipulagsmálum. Það er hægt að gera með áherslu á mannauðs- og gæðamál, skilgreina og bæta verkferla ásamt því að innleiða umbótamiðað verklag innan stjórnsýslunnar. Vaxandi þörf fyrir afgreiðsluhraða og flókin úrlausnarefni eru langt frá því að vera einskorðuð við Borgarbyggð og því væri áhugavert að kanna möguleikann á því að stofnað verði stoðsvið skipulagsmála á Vesturlandi í gegnum Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, SSV. Þannig væri hægt að efla þjónustu í skipulagsmálum á hagkvæmari hátt sem og að efla enn frekar samvinnu sveitarfélagana.

Við þurfum að leggja ofurkapp á uppbyggingu húsnæðis við sem flestra hæfi og laða til okkar fólk sem vill taka þátt í uppbyggingu samfélagsins. Sem samfélag þurfum við að setja okkur markmið varðandi íbúafjölgun, fjölgun atvinnutækifæra, móttöku ferðamanna og ánægju íbúa. Það þarf ekki einungis að auka kraftinn í skipulagsmálum eða fegra umhverfi, heldur þarf að leggja áherslu á upplýsinga- og kynningarmál. Við þurfum að efla upplýsingagjöf sveitarfélagsins inn á við og útá við og varpa ljósi á þau lífsgæði sem við íbúar í Borgarbyggð þekkjum svo vel. Við eigum að standa stolt þegar við kynnum öðrum þau tækifæri sem felast í búsetu í Borgarbyggð allri. Með því að fjölga nýjum íbúum, aukum við tekjur og getum staðið undir bættri þjónustu á fleiri sviðum.

Eitt mikilvægasta verkefni Borgarbyggðar er lærdómssamfélagið, skólarnir. Í skólastefnu sem unnið er eftir til ársins 2020 er undirstrikuð nauðsyn þess að þeir hafi frelsi og tækifæri til nýsköpunar í skólastarfi og til að efla sitt innra starf. Við bakið á þeirri stefnu þurfum við að standa.  Það er ekki síður mikilvægt að bæta aðstöðu bæði nemenda og starfsfólks. Þess vegna viljum við að standa vel að þeim framkvæmdum sem nú eru að hefjast, byggingu á fjölnota sal við Grunnskólann í Borgarnesi og leikskóla á Kleppjárnsreykjum.  Huga þarf að viðhaldi og endurbótum í öðrum skólum, skólalóðum og íþróttamannvirkjum um allt sveitarfélagið.  Með skýru samtali, markmiðasetningu og framtíðarsýn getum við farið í uppbyggingu í Borgarbyggð allri því tækifærin eru sannarlega til staðar.

 

Magnús Smári Snorrason

Höfundur skipar oddvitasætið fyrir Samfylkinguna og óháð í komandi sveitarstjórnarkosningum í Borgarbyggð.

Fleiri aðsendar greinar