Býð mig fram á lista Sjálfstæðisflokks

Guðmundur Brynjar Júlíusson

Ég heiti Guðmundur Brynjar Júlíusson og er 22 ára Skagamaður. Ég er að sækjast eftir 3.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Alla mína tíð hef ég stefnt að því að bjóða mig fram til þings. Mér finnst stjórnmál áhugaverð og skemmtileg. Ég er í raun og veru algjörlega óreyndur en ég ætla mér að vinna vel fyrir flokkinn í Norðvesturkjördæmi og læra af öðrum reyndari flokksmönnum en einnig ætla ég að fylgja mínu innsæi, láta skoðanir mínar og unga fólksins heyrast og gera það sem mér finnst rétt að gera. Ég er ungur og ætla ég að beita mér fyrir því að fólk á mínum aldri, sem er stór hluti kjósenda, fái meiri áhuga á stjórnmálum hér á Íslandi og komi á kjörstað og kjósi rétt.

Ætla ég líka að sýna með mínu framboði að ungt fólk geti haft áhrif á stjórn og ákvörðunartökur landsins. Til þess að byggð eigi að virka í okkar landi þurfa ákveðin mál að vera í lagi. t.d. heilbrigðismál, menntamál og samgöngumál. Það er mikilvægt að hlúa vel að þessum málum.

Árið er 2016 og netsamband er ekki komið á hvert heimili. Lögreglan í kjördæminu þjáist af miklum fjárskorti og bitnar það á okkur fólkinu. Menntamálin eru líka rosalega stór þáttur í daglegu lífi minnar kynslóðar. Atvinnan í kjördæminu er fjölbreytt og nýjasta stóratvinnugrein okkar Íslendinga er auðvitað mætt hingað í kjördæmið og þurfum við að skoða þau mál vel.

Norðvesturkjördæmi er stórt og mikið og mörg málefni sem brenna á öllum sem búa eða stunda vinnu hér. Ferðaþjónusta er tiltölulega ný á Íslandi og verður að setja stefnur og lög um hana. Þetta eru mál sem snerta alla og þarf að skoða og hlúa vel að. Mætið á kjörstað núna 3. september, setjið mig í 3.-5. sæti og gerum fjölbreyttan og flottan lista saman.

 

Guðmundur Brynjar Júlíusson.

Fleiri aðsendar greinar