Búsetumál eldri borgara

Helga og Rúnar

Á undanförnum árum hefur þróun Dvalarheimilisins Höfða verið í þá átt að sjúkra- og hjúkrunarrýmum hefur jafnt og þétt fjölgað á kostnað dvalarrýma.  Nú er svo komið að Höfði er einkum hjúkrunarheimili þótt þar séu enn nokkur dvalarrými.

Eðlilega vekur þetta upp áhyggjur hjá Skagamönnum sem höfðu hugsað sér að njóta þess að búa í okkar góða bæ, þó árin færðust yfir.  Áhyggjurnar eru ekki minni hjá aðstandendum, sem hugsanlega sjá fram á að foreldrar eða nákomnir ættingjar þurfi að flytja í burt þegar þjónustuþörfin færist yfir.

Það er ótæk staða að eldri borgarar bæjarins þurfi nú að horfa til lausna utan bæjar, eins og til dæmis þeirra sem boðið er upp á í Mörkinni, við Suðurlandsbraut og sambærilegra.

Miðflokkurinn ætlar að setja búsetumál aldraðra á dagskrá.  Það er nauðsynlegt að bæjaryfirvöld beiti öllum sínum þrýstingi til að koma uppbyggingu hér á Akranesi inn í plön stjórnvalda.  Ef bæjarstjórn sinnir ekki því verkefni að þrýsta á viðeigandi ráðuneyti, þá fer hvert sveitarfélagið af öðru fram úr okkur á framkvæmdalistanum.

Það eru sjálfsögð réttindi fólks að bæjarfélagið haldi þannig á málum að eldri borgarar bæjarins geti horft til þess að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að verða að flytja á brott þegar árin færast yfir.  Gerum bæinn betri hvað þetta varðar.  Fullorðna fólkið okkar á það skilið.

 

Helga K. Jónsdóttir

Rúnar Ólason

Höfundar skipa 1. og 2. sætið á lista Miðflokksins

 

Fleiri aðsendar greinar