Búnaðarfélag Mýrarmanna – takk!

Haraldur Benediktsson

Búnaðarfélag Mýramanna hélt glæsilega Mýrareldahátíð um liðna helgi.  Ég vil sem einn af þúsundum gesta þakka félagsmönnum búnaðarfélagsins fyrir hátíðina. Það gera sér kannski ekki allir ljóst hve mikið afrek það er hjá félaginu að halda slíka hátíð.  Það er aðdáunarvert framtak og við sem nutum stöndum í þakkarskuld.

Mýrareldahátíðin og samkoman í Reiðhöllinni þar sem fór fram skemmtileg landbúnaðarsýning – er frábært dæmi um hvernig félag bænda getur látið til sín taka og opnað innsýn í landbúnað og starf bænda. Opið fjós að Hundastapa, og ekki síst kvöldvakan – allt eru þetta frábærir viðburðir sem vekja mikla athygli.

Bændum lætur stundum margt betur en að sýna gildi sitt og mikilvægi. Fyrir hátíðina dreifði búnaðarfélagið myndbandi og baráttusöng. Hugmynd sem á sér fyrirmynd meðal norskra bænda.  Allt góð og mikilvæg baráttutæki. Ef ekki þarf að berjast núna, hvenær þá?

Það er nú þannig að félög bænda í nágrannalöndum okkar láta meira og meira starf sitt snúast um að opna almenningi aðgengi að starfi bóndans. Kynningar á kjörum sínum og baráttu fyrir að halda hlut sínum í endanlegu söluverði búvörunnar.  Eða og ekki síst að minna á gildi sitt fyrir byggðir og samfélög. Það eiga bændur víðar að láta sig varða. Samfélag sem við lifum í núna þarf á góðum og sterkum skilaboðum að halda – beint frá bændunum sjálfum.  Það vinnur engin slíka baráttu fyrir okkur.

Mýraeldahátíðin er frábært dæmi um hvernig fámennur hópi bænda tókst að sýna sínu samfélagi kraft sinn og mikilvægi.

Þetta er ekki lítið afrek. Búnaðarfélag Mýramanna – hafið þakkir fyrir góða hátíð.

 

Haraldur Benediktsson