Bugað fólk eða lífsreynt

Steinunn Eva Þórðardóttir

Við fullorðna fólkið getum bugast þegar erfiðleikar verða of miklir. Hvar bugunarþröskuldur hvers og eins liggur er mismunandi. Það fer bæði eftir einstaklingunum og því hvernig við erum á okkur komin að takast á við það einmitt þegar það gerist. Ef áfall hittir þig þegar þú ert t.d. búin að sofa illa í langan tíma eða sinna langveikum maka, þá ertu verr í stakk búin en ella. Ef það sama gerist þegar þú ert í góðu líkamlegu og andlegu formi þolir þú meira. Þar sem við vitum aldrei hvað næsta manneskja er að fást við er ekki gagnlegt að hugsa: „Ég hef nú séð það miklu svartara en þessi og ekki brotnaði ég.“ En hvað er þá gagnlegt þegar erfiðleikar steðja að?  (Svaraðu því í huganum eða á blað, því það getur einmitt verið hagnýtt að hafa íhugað það fyrirfram hvað hefur hjálpað þér áður).

Aðspurt nefnir fólk oft hugarfar. Það að hafa þrautseigju, von og hafa áður sigrast á erfiðleikum. Það sem er erfitt er oft mikilvægt og ógnvænlegt en ekki endilega óyfirstíganlegt né hættulegt. Ef við endurskilgreinum álag og streitu sem áskorun en ekki ógn gjörbreytir það upplifuninni. Til dæmis að reyna að sjá það að missa vinnuna og fara á bætur sem tækifæri til að breyta til, frekar en heimsendi, þó að það sé auðvitað skítt.

Fólk nefnir líka alltaf mikilvægi þess að hafa einhvern sem styður þig, fjölskyldu, vini, samstarfsfólk eða góðan þerapista. Það segir sig sjálft en samt er ekki nóg að hafa tengsl við fólk. Þú þarft líka að vera tilbúinn að viðurkenna að þú ráðir ekki við aðstæður, nokkuð sem mörgum fullorðnum og jafnvel börnum, vex í augum. Sumum finnst það skömm að leita sér hjálpar. Þeir bera sína þjáningu í hljóði þar til þeir bresta. Afleiðingarnar geta verið heilsubrestur, kulnun, jafnvel sjálfsvíg. Dæmi um erfiðleika sem flestum finnst erfitt að viðurkenna að þeir ráði ekki við eru skuldir. Því að það er stöðutákn í okkar samfélagi að skorta aldrei peninga. Erlendis kom í ljós að í 40% tilvika þegar fullorðið fólk framdi sjálfsvíg voru fjárhagserfiðleikar til staðar. Þannig er það grafalvarlegt að við höfum gert það skammarlegt tabú að ræða þessi mál. Til að geta fengið hjálp þurfum við að berskjalda okkur gagnvart einhverjum, sem er erfitt og krefst hugrekkis og trausts.

Að lokum er gott að vita af því að margir sem upplifa áföll og jafnvel brotna við það, koma til baka, ekki bara jafngóðir, heldur upplifa svokallaðan áfallaþroska við það að vinna úr hlutunum. Fólk endurmetur líf sitt. Það skilur á annan hátt hvað er mikilvægt, upplifir meira þakklæti og nýtur lífsins á annan, dýpri hátt en áður. Bara að vita að þetta getur gerst er líka gagnlegt fyrir okkur.

Steinunn Eva Þórðardóttir

Fleiri aðsendar greinar