Brúin til framtíðar hefur reynst vel

Björn Bjarki Þorsteinsson

Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2017 sýnir að fjárhagsstaða sveitarfélagsins hefur sjaldan verið eins sterk og nú. Hann sýnir líka með skýrum hætti að aðgerðaáætlunin „Brúin til framtíðar,“ sem samþykkt var af allri sveitarstjórn árið 2014 og fól í sér endurskoðun á rekstri sveitarfélagsins, hefur skilað verulegum árangri.

Helstu niðurstöðutölur ársreiknings 2017 eru þær að veltufé frá rekstri er hjá samstæðunni allri 536,6 m.kr. (A-hluta sveitarsjóðs ásamt B-hluta fyrirtækjum). Langtímalán eru greidd niður um 237 m.kr hjá A hluta og 284 m.kr. hjá A og B hluta. Handbært fé í árslok var 848 m.kr. í samstæðureikningi. Engin ný langtímalán hafa verið tekin undanfarin þrjú ár. Hlutfall veltufjár frá rekstri er 13,7% af rekstrartekjum fyrir A hluta sveitarsjóðs. Veltufjárhlutfall er rétt um 2,0 sem segir að lausafé er helmingi hærra en skammtímaskuldir. Langtímaskuldir A-hluta eru um 1,2 ma.kr. en langtímaskuldir samstæðu eru um 3,0 ma.kr. Skuldahlutfall A-hluta er 72% en skuldahlutfall samstæðu er 111,7%. Hluti Borgarbyggðar í uppgjöri sveitarfélaganna við lífeyrissjóðinn Brú var 244 m.kr. en þær voru greiddar upp í febrúar sl. og sparast um 60 milljónir króna sem voru fyrirséðar í vaxtagreiðslur ef Borgarbyggð hefði þurft að fjármagna það uppgjör með lántöku eins og flest sveitarfélög þurfa. Eignir voru seldar fyrir um 40 m.kr. á árinu 2017 sem er mun lægri fjárhæð en á fyrra ári.  Rekstrarniðurstaða í ársreikning var jákvæð um 298,5 m.kr.

Skuldahlutfall Borgarbyggðar hefur lækkað verulega undanfarin ár og er nú komið langt undir þau mörk sem sett eru í reglum um fjármál sveitarfélaga, sjá hér mynd:

Þessi árangur talar sínu máli.  Á sama tíma og góður árangur hefur náðst í rekstri sveitarfélagsins þá hefur ekki verið skert þjónustustig, miklu frekar hefur það hækkað.  Þar má nefna að inntaka leikskólabarna miðast nú við 12 mánaða aldur almennt í stað 18 mánaða, grunnskólarnir okkar hafa eflst, í velferðarmálum hefur verið gert stórátak í atvinnumálum fatlaðra og áfram mætti telja. Við íbúar Borgarbyggðar megum vera stolt af ýmsum þáttum í okkar samfélagi og er hér aðeins nefnd örfá atriði því til sönnunar.

Á árinu 2018 og á næstu fjórum árum eru fyrirhugaðar töluvert miklar framkvæmdir, bæði við skólamannvirki og svo í kjölfar þeirra langþráð upphaf að framkvæmdum við íþróttamannvirki. Í heild hljóðar núgildandi framkvæmdaáætlun til ársins 2021 upp á um 1,8 milljarð króna sem er verulega hærri fjárhæð en undanfarin ár.  Þrátt fyrir það er ekki fyrirsjáanlegt, ef tekjur og önnur þróun í rekstrarumhverfi Borgarbyggðar ná að halda í horfi, að taka þurfi lán til að fjármagna þessar framkvæmdir, rekstrargrunnur Borgarbyggðar er orðin það traustur.  Það er ánægjuefni hve góður árangur hefur náðst og má það þakka mikilli samstöðu sveitarstjórnar allrar, traustrar stjórnunar embættismanna í ráðhúsi, forstöðumanna stofnana sem og allra starfsmanna Borgarbyggðar.

Það eru bjartir og spennandi tímar í Borgarbyggð. Atvinnulíf blómstrar, íbúum er að fjölga og sú þróun hjálpar til við að halda uppi öflugu þjónustustigi. Það er von mín og trú að Borgarbyggð haldi áfram að dafna, því er mikilvægt að við íbúar stöndum saman og njótum þess að vera stolt af okkar nærsamfélagi og umhverfi.  Við eigum að láta okkur varða um málefnin margvíslegu og ekki síður þurfum við að leggja okkar af mörkum við að halda umhverfinu næst okkur hreinu og snyrtilegu, saman getum við heilan helling í þeim efnum.

Eins og fram hefur komið þá er undirritaður að draga sig í hlé frá störfum í sveitarstjórn Borgarbyggðar nú í vor og skipa ég 18. sætið á kraftmiklum framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar. Undanfarin 16 ár hafa verið viðburðarrík á þessum vettvangi, skipst hafa á skin og skúrir eins og gengur, en ýmislegt hefur áunnist. Það er vonandi að komandi kosningabarátta og síðan í kjölfarið samstarf í sveitarstjórn Borgarbyggðar verði málefnalegt og gott og að samstaða náist um þau stóru mál sem framundan eru.  Með þessu er ég ekki að segja að allir eigi alltaf að vera sammála, en þegar að ákvörðun og útfærsla liggja fyrir, þá þurfa kjörnir fulltrúar að einhenda sér í verkefnin og láta ekki stundarhagsmuni og stundarathygli ráða för.

Áfram Borgarbyggð!

Björn Bjarki Þorsteinsson