Bríet er skref í rétta átt á landsbyggðinni

Ásmundur Einar Daðason

Víða þar sem ég hef komið um landið síðustu vikur og mánuði hefur eitt mál brunnið á öllum þeim sveitarstjórnarmönnum, atvinnurekendum og íbúum almennt sem ég hef rætt við á þessum svæðum. Það eru húsnæðismálin. Mikill húsnæðisskortur hefur hamlað vexti og viðgangi þessara sveitarfélaga þar sem lítið sem ekkert hefur verið byggt á landsbyggðinni undanfarinn áratug. Fyrirtæki hafa ekki getað stækkað eins mikið og aukin eftirspurn hefur kallað á og sjálfur hef ég heyrt um fjölmörg dæmi þess fólk vilji flytja út á land en geti það ekki þar sem viðunandi húsnæði sé ekki í boði. Það er því þarft að bregðast við af krafti.

Eitt af því sem gert hefur verið er að hleypa af stokkunum tilraunaverkefni með sjö sveitarfélögum víðsvegar um landið. Íbúðalánasjóður auglýsti eftir þáttakendum í tilraunaverkefninu í haust. Starfshópur skipaður fulltrúum frá Íbúðalánasjóði, Byggðastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga valdi Dalabyggð, Vesturbyggð, Snæfellsbæ, Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Norðurþing, Hörgársveit og Seyðisfjarðarkaupstað til að vera fyrstu sveitarfélögin til að taka þátt. Valið tók mið af því að áskoranirnar sem þau standa frammi fyrir séu mismunandi og á ólíkum landsvæðum. Þannig verður til breiðara framboð lausna í húsnæðimálum sem nýst getur til að koma hreyfingu á fasteignamarkaðinn um land allt.

Vandinn er mikill og hann er víða. Alls lögðu 33 sveitarfélög frá öllum landshlutum inn umsóknir, sem samsvarar helmingi sveitarfélaga á landsbyggðinni. Þessi fjöldi kristallar hvað uppbygging utan höfuðborgarsvæðisins hefur setið á hakanum. Tilraunaverkefnið mun ekki einungis ná til fyrrnefndra sjö sveitarfélaga því Íbúðalánasjóður munbjóða hinum sveitarfélögunum 26 til samtals um framhald þeirra verkefna, með það fyrir augum að einnig verði hægt að ráðast í uppbyggingu hjá þeim. Niðurstöður tilraunaverkefnisins verða svo grunnur að breytingum á stuðningskerfum húsnæðismála sem lagðar verða fram á Alþþingi og er ég nú þegar með eitt frumvarp áætlað á vorþingi hvað það snertir.

 

Hagkvæm leiguþjónusta Bríetar

Enn annað skref sem við höfum stigið til að takast á við húsnæðisvandann á landsbyggðinni er að setja á stofn opinbert landsbyggðarleigufélag, sem fengið hefur nafnið Bríet og verður í umsjón Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn á um 300 eignir, sem flestar eru í útleigu og nær allar utan höfuðborgarsvæðisins. Við teljum að til skemmri tíma litið þá sé markvissari leið til að styðja við fasteignamarkaðinn á landsbyggðinni að halda húsnæðinu áfram í útleigu frekar en að Íbúðalánasjóður selji það frá sér. Bríet mun því nú taka við þessum eignum og reka hagkvæma leiguþjónustu. Hugsanlegt er að Bríet geti í framtíðinni tekið þátt í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á þeim svæðum sem glíma við hvað mestan skort.

Ég vil hvetja sveitarfélögin til samstarfs við hið nýja félag, en flest þeirra reka sjálf nú þegar félagslegt leiguhúsnæði. Með því að sameinast um rekstur slíks húsnæðis í stærra félagi er skapaður grundvölllur til að bæta gæði, auka framboð og draga úr kostnaði.

 

Við þurfum fjölbreyttar lausnir

Bæði tilraunarsveitarfélögin og leigufélagið eru verkefni að norrænni fyrirmynd og hafa áhrif spennunnar á húsnæðismarkaði í heiminum á almenning haft mun minni áhrif á hinum Norðurlöndunum en hér á landi. Þverpólitísk sátt ríkti hjá þeim, en mikilvægt er að samstaða náist um þessi mál. Við þurfum fjölbreyttar lausnir til að takast á við húsnæðisvandann sem landsbyggðin stendur frammi fyrir og hef ég fulla trú á því að þessi skref færi okkur nær markmiði okkar, að fólk geti búið og starfað á landinu öllu.

 

Ásmundur Einar Daðason, félagsmála- og jafnréttisráðherra.