Breytt nálgun

Lárus Ástmar Hannesson

Á næstunni fer fram forval Vg í Norðvesturkjördæmi. Ég hef gefið kost á mér í forystu hreyfingarinnar í kjördæminu. Undanfarin ár hef ég verið varaþingmaður Vg.

Af hverju gef ég kost á mér og hver er mín sýn á verkefnin?

Að hafa alist upp í litlu sjávarþorpi, tekið þátt í samfélaginu frá mörgum hliðum og að vera að ala upp börn á sama stað hefur mótað mig og mínar skoðanir til stjórnmála og ekki síst til stöðu landsbyggðarinnar. Endalaus varnarbarátta um möguleika á þjónustu og uppbyggingar er slítandi fyrir þá sem í því standa og íbúa samfélaganna. Íbúum fækkar, þjónusta minnkar, laun lækka (að meðaltali) og það sem verst er sjálfsmynd íbúanna gagnvart samfélaginu lækkar, eðlilega. Snúum þessu við. Finnum leiðir og leyfum svæðunum að njóts sinna styrkleika og efla sín sterku sérkenni. Það á að vera góður valkostur fyrir ungt fólk að setjast að á landsbyggðinni.

Undanfarin ár hafa einkennst af átökum og óvæginni pólitík sem fælir almenning frá því að taka þátt og minnkar traust á stjórnmálum. Greinileg hagsmunagæsla og spilling hefur ekki aukið tiltrúna. Þessu þarf að breyta. Við þurfum breytta nálgun. Fólk verður að fá aftur tiltrú á stjórnmálin og vera tilbúið að taka þátt, því hvort sem okkur líkar betur eða verr þá byggist okkar tilvera að miklu leyti á hvernig hér er haldið um hina pólitísku tauma.

Til að svo geti orðið verða taumarnir að liggja til fólksins og að fyrst og fremst verður þeirra hagsmuna gætt. Öll þjónusta kostar peninga og því verðum við saman að fá meiri tekjur af okkar auðlindum hvort heldur við erum að tala um raforkuframleiðslu, sjávarútveg eða ferðaþjónustu.

Möguleikarnir eru miklir sem við höfum í okkar gjöfula og ótrúlega fallega landi. Fólkið er dugmikið og vill sínu samfélagi vel.

Nálgumst verkefnin saman verum kurteis, lausnamiðuð og leyfum svæðum að vaxa.

Það er bjart yfir, nýkjörinn forseti gefur frá sér mildan tón umburðarlyndis og sátta. Flykkjumst saman á þann góða vagn, það mun gagnast okkur vel.

Ég hvet alla áhugasama að taka þátt í forvali Vg í Norðvestukjördæmi og hafa áhrif.

 

Bestu kveðjur,

Lárus Ástmar Hannesson, Stykkishólmi.

 

 

Fleiri aðsendar greinar