Breytinga þörf!

Guðsteinn Einarsson

Nú í maí verður kosið til sveitarstjórna á Íslandi. Það gefur tækifæri til breytinga í bæjarstjórnum og yfirstjórnum sveitarfélaganna.

Í Borgarbyggð hefur hvert vandamálið á fætur öðru komið upp. Má þar nefna skipulagsmál, skólamál, málefni húsa í Brákarey og leigjenda þar og þá má ekki gleyma framkvæmdum við Grunnskólann í Borgarnesi. Skýrsla KPMG um það mál er ein samfelld lýsing á afleitri stjórnun, í raun algjöru stjórnleysi við framkvæmdina.

Það sem blasir við er að þörf er á fólki í sveitarstjórn og yfirstjórn Borgarbyggðar með menntun og reynslu af stjórnun rekstrar og framkvæmdum.

Stjórnmálaflokkar sem bjóða fram til sveitarstjórnar í vor þurfa að skoða sín mál vel og spyrja sig hvort ekki sé nauðsyn á breytingum og hvort ekki sé hægt að fá öflugt fólk til framboðs, fólk sem getur tekið á fjölþættum vandamálum sveitarfélagsins.

Það er gott að búa í Borgarnesi. Bætt stjórnsýsla mundi án efa gera Borgarbyggð eftirsóknaverðari til uppbyggingar og búsetu.

 

Borgarnesi, 10. febrúar

Guðsteinn Einarsson.