Breyting á heimilisfangi mínu

Sveinn Hallgrímsson

-Í tilefni af ári íslenskrar tungu

Í fyrra var ár íslenskrar tungu, ef ég man rétt.  Á því ári fengum við bréf frá Þjóðskrá Íslands.  Okkur var tilkynnt að breyta ætti nafni á eigninni Sóltún 6a Hvanneyri í Sóltún 6a.  Saklaus breyting og til bóta eða hvað?

Ég hefi búið að Vatnshömrum í Andakíl í rúm 22 ár.  Þar er póstnúmerið 311, pósthúsið er í Borgarnesi.  Það kemur alloft fyrir að ég fæ póst í kassann hjá mér sem var ætlaður fólki sem býr hinu megin Hvítár (í Borgarfirði).  Bæjarnafnið þar er Valshamar, líkt Vatnshömrun, en þó ekki eins.  Póstnúmerið er það sama.  Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna ekki er hægt að lofa okkur að fá að eiga heima í 311 Andakíl. Húsið á Hvanneyri gæti fengið heimisfangið 311 Hvanneyri.  Heimili mitt yrði þá Vatnshamrar 311 Andakíl.  Það kæmi í veg fyrir rugling eins og þann að póstur að Valshamri færi ekki að Vatnshömrum.  Valshamar fengi þá póstfangið 311 Mýrar (eða Borgarnesi).

Þá velti ég því fyrir mér hvers vegna Þjóðskrá Íslands er að skipta sér af heiti fasteigna, heiti húsa.  Bréf Þjóðskrár til okkar hefst nefninlega á tilvitnun: ,,..Samkvæmt 12. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 skulu allar fasteignir bera heiti samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.“  Seinna í bréfinu er svo eftirfarandi klausa ,,Sveitarfélagið verður upplýst um ofangreinda leiðréttingu“!  Hvers vegna er Þjóðskrá Íslands að skipta sér að málum sem eru á valdssviði viðkomandi sveitarstjórnar?

Málvenja hér er að segja að við búum í Andakíl.  Málvenja er hluti af íslenskri tungu!

Héðan í frá á ég heima á Vatnshömrum, 311 Andakíl.

Vatnshömrum, Andakíl í mars 2020,

Sveinn Hallgrímsson