Breiðafjörður og Ramsar

Róbert A Stefánsson

Breiðafjörður er óviðjafnanlegt náttúrusvæði, þar sem sérstakt samspil mikils grunnsævis, þúsunda eyja og mikilla sjávarfalla leiðir af sér sérlega auðugt lífríki ofan sjávar og neðan. Auðlindir svæðisins hafa verið nýttar um aldir og eru hlunnindanytjarnar og minjar um þær hluti af verndargildi svæðisins.

Nýverið birti Breiðafjarðarnefnd skýrslu með hugmyndum sínum um framtíð verndarsvæðis Breiðafjarðar. Eins og við var að búast eru skiptar skoðanir um niðurstöður nefndarinnar. Helstu tillögur hennar eru að ráðast strax í endurskoðun laga nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar, enda séu þau veik og óljós, og að skrá ætti Breiðafjörð á Ramsarskrána. Einnig telur nefndin rétt að skoða í náinni framtíð hvort mögulegt væri að gera svæðið eða hluta þess að þjóðgarði og hvort rétt væri að tilnefna það á heimsminjaskrá UNESCO. Tveir síðustu kostirnir myndu krefjast mikils undirbúnings.

Í umræðum um tillögurnar hefur stundum gætt misskilnings og er hér er gerð tilraun til að leiðrétta hluta hans, þ.e. þann misskilning að tillögur Breiðafjarðarnefndar séu ákvörðun um hvernig fyrirkomulaginu verði háttað, í öðru lagi að tilnefning á Ramsarskrá feli í sér valdaframsal og í þriðja lagi að tilnefning á Ramsarskrá komi í veg fyrir nýtingu Breiðafjarðar og hindri atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Breiðafjarðarnefnd er ráðgjafarnefnd

Breiðafjarðarnefnd á skv. lögum að vera umhverfis- og auðlindaráðherra til ráðgjafar um málefni verndarsvæðis Breiðafjarðar, sem nær yfir strandlengju, eyjar, hólma og sker á innri hluta Breiðafjarðar. Nefndin tekur hvorki bindandi ákvarðanir né veitir leyfi. Meirihluti nefndarinnar (4) er skipaður fulltrúum sveitarfélaganna sjö umhverfis Breiðafjörð en einnig sitja í nefndinni fulltrúi ráðherra (formaður), einn fulltrúi frá Minjastofnun og einn sameiginlegur fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofanna á Vesturlandi og Vestfjörðum. Allir núverandi aðalfulltrúar nefndarinnar búa í sveitarfélögum sem liggja að Breiðafirði. Óháð því hvað nefndin leggur til kemur það í hlut stjórnvalda, þar með talið ráðherra, sveitarstjórna og landeigenda (allt eftir eðli verkefna), að taka endanlegar ákvarðanir.

Með nýju skýrslunni uppfyllir nefndin skyldur sínar og fylgir eftir verkefni sem kveðið var á um í verndaráætlun sem samin var af þáverandi Breiðafjarðarnefnd og undirrituð árið 2015 af Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, eftir að tekið hafði verið fullt tillit til umsagna sveitarfélaga. Í áætluninni segir m.a. að skýra eigi gildandi lög og kanna möguleika á stækkun svæðisins og kanna möguleika, kosti og galla þess að skrá verndarsvæði Breiðafjarðar sem Ramsarsvæði og/eða á Heimsminjaskrá UNESCO. Það er einmitt það sem Breiðafjarðarnefnd hefur nú gert með ítarlegri upplýsingaöflun, fimm opnum íbúafundum, sérstökum fundi með hverri sveitarstjórn á svæðinu og umsagnaferli.

Þýðing Ramsarskráningar

Ramsarsamningurinn er alþjóðlegur samningur frá árinu 1971 (tók gildi 1975), sem 124 ríki eiga aðild að og Íslendingar fullgiltu árið 1977. Þar með viðurkenndu Íslendingar mikilvægi votlendissvæða og skuldbundu sig til að standa vörð um vistfræðilega virkni votlendissvæða sem eru alþjóðlega mikilvæg fyrir fugla og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra. Það á m.a. við um strandsvæði á allt að 6 metra dýpi neðan háfjöru. Á Íslandi hafa nú þegar verið skilgreind 6 Ramsarsvæði. Tvö þeirra eru á Vesturlandi, þ.e. Grunnafjörður og Andakíll, en önnur svæði eru Mývatn-Laxá og svo þrjú svæði á hálendinu: Þjórsárver, Eyjabakkar og Guðlaugstungur.

Skráning svæðis á Ramsarskrána kemur ekki í veg fyrir sjálfbæra nýtingu eða atvinnuuppbyggingu. Skráning svæðis á Ramsarskrána er gæðamerki og viðurkenning á alþjóðlegu mikilvægi þess. Skráning svæðis á Ramsarskrána felur ekki í sér flutning valds úr héraði – hvað þá úr landi! Áfram gilda eingöngu íslensk lög á svæðinu og því er stjórnað af sveitarfélögum og landeigendum eins og áður.

Skrifstofa Ramsarsamningsins í Sviss hefur engin völd yfir Ramsarsvæðum. Hún getur aftur á móti gert athugasemdir ef verndargildi Ramsarsvæðis er raskað með ofnýtingu eða framkvæmdum sem ógna verulega lífríki. Íslenskum stjórnvöldum er í sjálfsvald sett hvort þau bregðast við þeim athugasemdum. Harðasta aðgerðin sem skrifstofa samningsins getur gripið til er einfaldlega að taka svæðið af skránni aftur.

Í eðli sínu er skráning á Ramsarskrána lík þátttöku sveitarfélaga á Snæfellsnesi og Vestfjörðum í EarthCheck umhverfisvottunarverkefninu, Grænfánaverkefninu eða Bláfánaverkefninu. Í þeim verkefnum er stuðst við erlend viðmið en ákvarðanir eru teknar af heimafólki. Engum dettur í hug að tala um valdaframsal, enda á það sér ekki stað.

Ramsarsvæði um allan heim draga að sér fuglaskoðara og geta því verið atvinnuskapandi og styrkt ferðaþjónustu og markaðssetningu hennar ef menn vilja. Ekki er að sjá að tilnefning Breiðafjarðar á Ramsarskrána ógni á nokkurn hátt sjálfbærum nytjum á auðlindum svæðisins, sem m.a. er ein af grunnforsendum íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins og er eitt af aðalmarkmiðum Ramsarsamningsins. Svo lengi sem nýting er sjálfbær er því ekki ástæða til að leggjast gegn skráningu Breiðafjarðar á Ramsarskrána. Geti einhver bent á umtalsverða annmarka slíkrar tilnefningar sem byggir á staðreyndum, þá væri gagnlegt að heyra af því.

Margir íbúar við Breiðafjörð hafa undanfarin ár verið stoltir yfir því að sveitarfélögin báðu megin fjarðar hafi EarthCheck vottun. Stofnanir og hafnir sem flagga Grænfána og Bláfána gera það með stolti. Þá státa Íslendingar sig oft að því að hafa haft vit og gæfu til að taka upp fiskveiðistjórnunarkerfi sem byggir á vísindalegri ráðgjöf og leitast við að koma í veg fyrir ofnýtingu, enda er það nokkuð sem fáum þjóðum hefur tekist. Á sama hátt gætu íbúar við Breiðafjörð fyllst stolti yfir því að búa á svæði sem uppfyllir skilyrði til að verða að Ramsarsvæði, þjóðgarði eða vera mögulega tilnefnt á heimsminjaskrá, enda er síður en svo sjálfsagt að öðlast einhvern af þessum gæðastimplum.

 

Róbert A. Stefánsson.

Höf. er íbúi við Breiðafjörð og fulltrúi í Breiðafjarðarnefnd.