Brákareyjar – málið

Sveinn Hallgrímsson

Frétt í Skessuhorni 26. janúar bar yfirskriftina: Staðfestir ákvörðun um lokun mannvirkja í Brákarey. Fréttin byggir á yfirlýsingu frá sveitarstjórn Borgarbyggðar (byggðarráði), en þar segir: ,,Í úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins er staðfest að aðgerðir slökkviliðsstjóra vegna Brákarbrautar 25-27, um bæði lokun húsnæðisins og…. hafi verið í samræmi við valdheimildir slökkviliðsstjóra og stjórnsýslureglur.“

Hér hlýtur fyrsta spurningin að vera: Er það slökkviliðsstjóri, ekki sveitarstjórn, sem tekur ákvörðunina? Dæmi: Sóttvarnalæknir sendir heilbrigðisráðherra tillögur. Heilbrigðisráðherra gefur út reglugerðina. Hún þarf ekki að vera í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis! Fyrir nokkru birtist í sjónvarpinu viðtal við slökkviliðsstjórann í Reykjavík þar sem hann sagði frá því að eldvarnareftirlit Reykjavíkur hefði þá stefnu að „…lagfæra það sem lagfæra þyrfti í samráði við eigendur/íbúa, enda væri það takmarkið að bæta eldvarnir!“

Í greininni í Skessuhorni kemur einnig fram að leigjendur húsnæðisins/íbúar hafi verið óánægðir með aðgerðirnar, eins og rétt er. Það kemur hins vegar ekki fram að:

  1. Hluti bygginganna hafði verið lagfærður og mátti auðveldlega gera að sér eldvarnarhólfi.
  2. Hluti bygginganna voru ekki tengdar rafmagni. Athugasemdir eldvarnafulltrúa voru fyrst og fremst um eldhættu vegna rafmagns.

Athugasemdir íbúa, leigenda, hafa fyrst og fremst snúið að því að aðgerðir sveitarfélagsins (eldvarnafulltrúa) hafi verið bæði snöggar og valdið óeðlilegri röskun á starfsemi félagasamtaka og klúbba sem höfðu aðstöðu í ,,Sláturhúsinu“ Brákarbraut 25.  Fjárhagstjón einstaklinga, félagasamtaka og sveitarsjóðs Borgarbyggðar er verulegt.

Annað atriði sem gagnrýnt hefur verið er að sveitarstjórn hefði átt að setja upp áætlun um úrbætur á húsnæðinu, eins og eldvarnareftirlit Reykvíkinga virðast hafa á sinni stefnuskrá.  Fram hefur komið að einstaklingar/félagasamtök sem þarna störfuðu hefðu verið fús til að taka þátt í að lagfæra það sem laga þurfti. Það vilja allir hafa eldvarnir í lagi.

Sveitarstjórn hefur valdið óþarfa röskun á starfsemi klúbba, félagasamtaka og atvinnustarfsemi í Brákarey. Það versta er þó, að sveitarstjórn virðist ekki hafa tekið ákvörðun um hvaða starfsemi eigi eða megi vera í Brákarey!  Það veldur stöðnun og óvissu.

 

Sveinn Hallgrímsson

Höf. er eldri borgari.