Brákarey

Sigursteinn Sigurðsson

Það eru ekki margir bæir á Íslandi sem státa af eyjum á landsvæði sínu og hvað þá eyju sem hefur verið hluti af atvinnu- og menningarsögu samfélagsins. Brákarey í Borgarnesi er nokkuð stór í hlutfalli af landflæmi hins byggða svæðis og er staðsett við suðurodda bæjarins. Eyjan tengist bænum með nokkuð íkónískri brú sem er byggð á þriðja áratugnum og þar við brúarsporðinn rís stórhýsi frá fimmta áratugnum sem bæjarbúar í daglegu tali nefna BTB húsið. Í samtvinnun við klettamyndanir virkar það eins og hliðstólpi að eyjunni. Á þennan hátt minnir eyjan dálítið á Akrópólís í Aþenu sem er miðpunktur siðmenningarinnar frá Grikklandi hinu forna.

Það er því ekki nema von að eyjan hafi aðdráttarafl og þegar ferðaþjónustan stóð sem sterkast fyrir heimsfaraldur lá straumur fótgangandi gesta yfir brúnna, í þeirri von að þar væri eitthvað spennandi að sjá. Það verður að segjast að það hljóta að hafa verið vonbrigði þegar „gengið var í gegnum hliðið“ og uppgötva þann blákalda raunveruleika sem þar var. Málið er nefnilega að Brákarey man fífil sinn fegurri og hefur gengið í gegnum langt hnignunartímabil. Vonandi náði það tímabil hámarki í ár þegar hús sláturhússins voru dæmd óörugg vegna brunahættu. Nú standa húsin auð, af fólki að minnsta kosti, og takast á við óvissu framtíðarinnar.

Winston Churchill sagði að það ætti aldrei að láta góðar hamfarir fara til spillis (e. Never Waste A Good Crisis) og nú eftir heimsfaraldur og lokanir vegna brunavarna skapast einstakt tækifæri til að byggja upp blómlega byggð í Brákarey. Á hinni margrómuðu Borgarnessíðu á Facebook birtist á dögunum færsla þar sem talað var um þessi tækifæri. Þar var viðruð hugmynd um blandaða byggð íbúða- og atvinnuhúsnæðis í eyjunni, hugmyndir um baðstaði, veitingastaði, vinnustofur listafólks, léttan iðnað og fleira, og urðu líflegar umræður í athugasemdakerfinu eins og er siður á Borgarnessíðunni. Það er því ljóst að tilfinningar eru miklar fyrir Brákarey og margir hafa skoðun á hvað á að gera við svæðið.

Ég hef lengi verið talsmaður uppbyggingar í Borgarnesi og fátt er mér meira eitur í beinum en stöðnun og hugsunarháttur afturhaldssemi. Þess vegna finnst mér ég knúinn til að skrifa þetta greinarkorn þar sem ég tek heilshugar undir margar af þeim hugmyndum sem komu fram á umræddri Facebook grúppu. Reyndar hef ég lengi talað fyrir því að í Brákarey verði byggð upp margvísleg menningarstarfsemi en í bland við aðra starfsemi eins og rekstur atvinnureksturs, veitingastaða, ferðaþjónustu o.s.fv. Árið 2011, þegar ég var nýskriðinn til landsins frá námi í Skotlandi vakti ég athygli á hversu mikil tækifæri leynast í Borgarnesi og ekki síst í Brákarey. Því er ekki úr vegi að rifja upp að eyjan er það stór að hún getur auðveldlega rúmað stórhýsi á borð við Óperuhúsið í Sydney. Þá, rétt eins og nú er það staðreynd að allir þessir fermetrar eru dýrmæt auðlind fyrir okkar samfélag. Í ljósi umræðu sem vaknaði eftir fyrri birtingu tek ég fram að ég er ekki að mæla með byggingu óperuhúss í Brákarey.

Ég sé í hillingum Brákarey sem blómlegt hverfi í Borgarnesi. Þar væru fjölbreytt fyrirtæki með starfsemi, þ.e. verktakar við hlið vinnustofa listamanna, matarhandverksfólks, veitingastaða og gistiþjónustu. Þarna væri blómleg menning í sýningarhúsum og í vinnustofunum og hægt væri að baða sig í laug í ætt við Guðlaugu á Akranesi. Í bland við allt saman er íbúðabyggð sem er með vönduðum íbúðum í byggingum sem allir ættu að vera stoltir af að búa í. Mannvirki í Brákarey eru ýmist nýbyggð eða uppgerð hús, en farið hefur fram húsakönnun sem sker úr um hvað skal vernda og hvað skal rífa. Allt tekur mið af staðaranda og yfirbragðið er faglegt og sendir skilaboð að Borgarnes sé bær sem tekst á við framtíðina með bros á vör.

Til þess að þessi framtíðarsýn gæti orðið að veruleika þurfa allir að taka höndum saman og vinna samkvæmt sínum hlutverkum. Stjórnmálamenn og það fólk sem tekur ákvarðanir sér um stefnumótunina með samtali við íbúa og hagsmunaaðila, hönnuðir sjá um útfærslu og hönnun, fjárfestar og verktakar um framkvæmdir og almenningur sér um að gæða lífinu, hvort sem um er að ræða íbúa, gesti eða atvinnurekendur. Í þessu samhengi er rétt að minna á að skipulagsfræðingar og arkitektar hafa í verkfærakistu sinni áhöld við hönnun svæða og bæjarumhverfa. Þar má nefna greiningar á veðurfari, þarfagreiningar og mat á ýmsum þolmörkum. Allt vísindalegar greiningar sem koma sér vel þegar byggingar eru mótaðar. Og ekki bara byggingar – heldur það allra mikilvægasta í arkitektúr sem er rýmið á milli bygginganna þar sem mannlífið á að dafna. Það er líka gagnlegt þar sem hverfin eru til þess gerð að efla önnur hverfi og starfsemina þar og koma með vísbendingar um næstu uppbyggingarskref í samfélaginu.

Helsta ógn við þessa framtíðarsýn er ekki óveður, mengaður jarðvegur né áhugaleysi fjárfesta, heldur er neikvæðni og niðurtal góðra hugmynda mun líklegri að stöðva framþróunina. Nú er löngu kominn tími til að snúa blaðinu við og horfa bjartsýnum augum til framtíðarinnar. Vandamál eru til þess að leysa þau og ef að veðráttan ein á að koma í veg fyrir uppbyggingu í Brákarey ættu margir þéttbýlisstaðir um allan heim, hvað þá hringinn í kringum Ísland, þar sem vindhæðin fer oft á ári yfir fjörutíu sekúndumetrana að vera óbyggilegir með öllu. Í því samhengi er rétt að óska Eyjamönnum til hamingju með blómlega byggð og að samfélagið þar geti ekki beðið eftir að halda Þjóðhátíð 2021 eftir faraldurinn.

Uppbygging í Brákarey er allra hagur og við sem samfélag höfum ekki efni á því að láta tækifærið renna okkur úr greipum. Ég kalla því eftir samfélagssáttmála um að allir sem vettlingi geta valdið að sjá til þess að uppbygging menningarstarfsemi, íbúðabyggðar, ferðaþjónustu og létts iðnaðar eigi sér stað í Brákarey. Við erum með perlu í fórum okkar og það væri glapræði að leyfa henni ekki að skína. Áfram Brákarey og áfram Borgarnes.

 

Sigursteinn Sigurðsson

Höf. er arkitekt og Borgnesingur