Brákarey og Fornbílafjelagið

Jón G Guðbjörnsson

Nú er liðið á annað ár síðan yfirvöld í Borgarbyggð (slökkviliðsstjóri, byggingarfulltrúi og sveitarstjórn) úthýstu starfsemi Fornbílafjelagsins í Brákarey (FBF). Frestur til að tæma húsnæðið var gefinn til 15. maí nk. Að öðru leyti er okkur meinaður aðgangur að okkar leiguaðstöðu nema rétt að skjótast inn með sérstöku leyfi forstöðumanns áhaldahúss bæjarins. Slíkt gengur auðvitað ekki til lengdar að bílar, tæki og búnaður sé í vanhirðu þar sem aðgangsheimildir okkar ná ekki til neinna athafna innanhúss. Stóru mistök sveitarstjórnarinnar voru að beita svo fyrirvaralausum og harkalegum aðgerðum gagnvart leigutökum í gamla sláturhúsinu og fjárréttarskemmunni í Brákarey sem raun bar vitni um. Engin minnsta tilraun var gerð til samtals um hvernig mætti bæta úr aðfinnslum og ábendingum eftirlitsaðila. Hvað varðar þá aðstöðu sem FBF hefur í kjallara sláturhússins var það minni háttar, sem félagið hefði tekið á sig að laga. Slökkviliðsstjóri hefur síðar samsinnt því að ef svo yrði gert með fullnægjandi hætti þá mætti opna fyrir starfsemi félagins þar enda væri aðstaðan þá sem lokaður hellir frá öðrum hlutum hússins. Viðbrögð sveitarstýru voru þau að það væri ekki hægt, því þá yrði að hleypa öðrum leigjendum inn. Skrýtin viðbrögð það. Þetta er hið eina samtal sem fengizt hefur um möguleika á að halda uppi starfseminni í gamla sláturhúsinu.  Allt annað samtal hefur snúizt um að leysa úr vandræðum leigjendanna með öðrum hætti annars staðar og gengið misjafnlega. Starfsemi FBF t.d. verður ekki flutt til í handfarangri.

Þegar stjórn FBF barst tilkynning sveitarstjórnar um riftun leigusamningsins s.l. haust var leitað lögfræðilegs álits á þeirri gerð. Niðurstaðan var sú að líkur væru FBF mjög í hag ef málið færi fyrir dóm en næsta víst að ekki yrði staðar numið við fyrsta dómstig af hálfu sveitarstjórnar á meðan niðurstaða væri henni í óhag. Slík niðurstaða dygði þó ekki til þess að FBF endurheimti húsnæðið. Dómur um ólögmæti riftunarinnar myndi hins vegar styrkja bótakröfugerð félagsins. Stjórn FBF hefur enga löngun til slíkra dómsstólastimpinga né heldur að félagið hafi fjárhagslega burði til þess. Sveitarstjórn hefur viðurkennt bótaskyldu sveitarfélagsins en fráleitt er að tilboð um afhendingu réttarskemmunar komi þar upp á móti; síður en svo. Sveitarstjórn hefur látið dæma skemmuna ónýta og 200 mkr. þarf til að rífa hana og byggja nýja skv. Verkís verkfræðistofu ehf. Jafnvel bjartsýnustu væntingar um bótagreiðslur nægja ekki FBF til að ráðast í slíka framkvæmd. Fjárhagur félagsins leyfir ekki slíkt. Því er að óbreyttu fyrirsjáanlegt að innan skamms verðum við á götunni með starfsemi félagsins og samgönguminjasafnsins. Tal um að félagið sé að fara að opna safnið í sumar er byggt á einhverjum misskilningi og ekki frá okkur komið. Þvert á móti eru áform FBF um samgöngusafn í Borgarnesi í algjöru uppnámi og kannski úr sögunni fyrir fullt og fast. En ef til vill er England víðar að finna en í Kaupmannahöfn eins og fullyrt var eitt sinn.

Leigusamningurinn sem FBF gerði við Borgarbyggð 2018 var til ársins 2035. Af hálfu FBF var horft til þess að geta byggt upp framtíðarsjóð til framkvæmda eða kaupa á húsnæði í fyllingu tímans. Mikið hefur verið gert úr hinum langa gildistíma innan ráðhússins og jafnvel talin óhæfa. En þá er ekki gætt að því að í samningnum var gert ráð fyrir möguleika til uppsagnar árið 2025 eða síðar ef þær aðstæður kæmu upp svo sem verulegar skipulagsbreytingar á þeim lóðum sem umræddar byggingar standa á. Þá skyldi fyrst leita leiða til samkomulags við leigutaka en ella gæti leigusali sagt samningnum upp einhliða. Verri enn svo er þessi samningur ekki fyrir sveitarfélagið. Árið 2025 er í sjónmáli. Það rennur upp um mitt næsta kjörtímabil verðandi sveitarstjórnar. Ennþá örlar ekki á skipulagsbreytingum í Brákarey né hugmyndum í þá veru, hvað þá um slípun á „demantinum.“ Ef sveitarstjórnin hefði virt þetta uppsagnarákvæði í anda þess sem að baki bjó hefði hún átt möguleika á að segja samningnum upp með sæmd.

 

Jón G. Guðbjörnsson

Höf. er stjórnarmaður í Fornbílafjelagi Borgarfjarðar